Niðurstöður könnunar á starfsumhverfi og vinnustaðamenningu Alþingis með sérstakri áherslu á einelti, kynferðislega og kynbundna áreitni voru kynntar í gær. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, fól Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera könnunina sem var netkönnun með spurningum bæði til þingmanna og starfsfólks. Hann segir niðurstöðurnar sláandi.
„Ég tel afar mikilvægt að þessi könnun hafi verið gerð sem liður í aðgerðum, í ferli, til að takast á við og laga það sem betur má fara. Við hljótum að taka niðurstöðurnar alvarlega, sláandi sem þær eru, fylgja þeim eftir og halda vinnunni áfram,“ er haft eftir Steingrími á vef Alþingis.
Könnunin var gerð í janúar og febrúar. Af 206 manns svöruðu 153 og því var svarhlutfallið 74,3%.
Mikill meirihluti þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar um hvort þeir hefðu einhvern tíma orðið fyrir einelti í starfi sínu á Alþingi svöruðu því neitandi, eða 80% (112 manns). Þó svöruðu 20% spurningunni játandi (28 manns) en 13 af 153 þátttakendum í könnuninni tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Mikill meirihluti þátttakenda hafði ekki reynslu af kynferðislegri áreitni í starfi eða í tengslum við starf sitt á Alþingi, eða 84% (126 manns). Hlutfall þeirra sem greindu frá því að hafa einhvern tíma orðið fyrir kynferðislegri áreitni var 16% (24 einstaklingar) en 3 einstaklingar tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Mikill meirihluti þátttakenda sagðist ekki hafa orðið fyrir kynbundinni áreitni í starfi sínu eða í tengslum við starf sitt á Alþingi, eða 81,6% (120 manns). Alls greindu 18,4% (27 einstaklingar) frá reynslu af kynbundinni áreitni. Sex einstaklingar kusu að svara ekki spurningunni.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir segir að nú þurfi að bregðast við niðurstöðunum og fara af stað með viðtalsrannsókn á Alþingi svo að hægt sé að laga ástandið. Þetta sagði hún í samtali í Morgunútvarpinu á Rás 2.
Skýrslu um niðurstöðurnar má sjá hérna.