Föstudagur 10. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Elísabet er hagsýn og varast freistingarnar: „Ég versla bara það sem er á innkaupalistanum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar, Elísabet Ósk Sigurðardóttir er 46 ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík en hefur búið í Danmörku síðan 1996. Hún á 2 syni, 28 ára og 19 ára. Elísabet nýtur þess að veita öðrum innblástur og aðstoð með sparnaðarráð. Hún, ásamt vinkonu sinni, stofnuðu Facebook síðu fyrir mörgum árum síðan sem heitir Ódýrar mataruppskriftir og sparnaðarráð. Hún sér þó ein um hana núna. Fyrir fjórum mánuðum síðan opnaði hún Instagram síðu Elisabets foods corner,  með sínum eigin mataruppskriftum og hefur fengið tæplega 5900 fylgjendur á þessum fjórum mánuðum sem er nú bara ótrúlegt.

Hún notar Airfryer mjög mikið í sinni matargerð sem sparar bæði tíma og rafmagn. Þess  utan finnst henni maturinn betri með þeirri aðferð. Hún hefur lengi deilt sínum hugmyndum í Airfryer grúppum á Facebook og tók eftir að eftirspurnin var mjög mikil svo hún stofnaði einnig tvær Instagram síður með sínum eigin Airfryer uppskriftum. Hún skrifar þó einnig tíma og gráður í venjulegum ofni í uppskriftunum sínum svo þær eru ekki einungis bundnar við Airfryer notkun. Síðurnar heita Airfryer uppskriftir  og Airfryer Danmark . Elísabet hefur aldrei starfað við matargerð og hefur aldrei getað fylgt uppskriftum. Nú er hún farin að þróa sínar eigin.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég hef alltaf verið mjög sparsöm og sniðug í matarinnkaupum sem kemur sér mjög vel á þessum tímum. Hér í Danmörku og í fleiri löndum finnst app sem heitir Too good to go þar sem maður getur pantað poka með vörum sem eru á síðasta söludegi og er ótrúlega sniðugt koncept. Ég panta aðallega pokana sem innihalda ávexti og grænmeti sem ég nýti mjög vel í matargerð minni. Í byrjum hvers mánaðar skipti ég ákveðinni upphæð niður í vikuupphæðir og það er það sem ég hef þá viku til að versla fyrir. Ég er með lista yfir allt sem ég á í frysti, ísskáp, skápum og skúffum og geri matarplan út frá því sem ég á og það sem ég fæ í grænmetispokanum mínum.

Ég fer sjaldan út að versla og versla bara það sem er á innkaupalistanum sem er ágætis sparnaður þegar að maður sleppir þessum skyndi freistingum í búðinni. Hugsa einnig mitt matarplan út frá því að þurfa að henda engu. Ef ég til dæmis þarf að nota hálfa dós af sýrðum rjóma í eina máltíð í vikunni verður restin notuð í aðra máltíð seinna í vikunni. Ég hef einnig minnkað magnið af kjöti heilmikið og bæti t.d. fínhökkuðu grænmeti út í alla rétti með hakki, það endar oft í uppskriftum með t.d. 250 grömm af hakki og 250 grömm af grænmeti sem dugar fyrir þrjá fullorðna.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

- Auglýsing -

Ég endurnýti mjög mikið og hef til dæmis búið til rasp úr brauðrestum og kartöflu- og gulrótarskræli sem var notað í að gera hrísgrjónakúlur í raspi með afgöngunum af hrísgrjónum frá deginum áður. Einnig hef ég oft hirt hluti sem fólk ætlar að henda, hreinsa það, jafnvel mála og gef því þar með nýtt líf. Hef meðal annars gert dótakassa, stól, kertastjaka og þess háttar með þessari aðferð.

Hvað hefur þú í huga þegar þú þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Ég er mjög meðvituð um verð og fer til dæmis alltaf eftir kíló- og lítraverði í matar og drykkjarinnkaupum. Stundum bjóða búðirnar upp á stóra kjötpakka en ef maður kíkir á kílóverðið er það oft dýrara en minni pakkar.

Ég hef til dæmis gefið systur minni jóladagatal

- Auglýsing -

Vinsælustu gjafirnar sem ég hef gefið eru yfirleitt persónulegu gjafirnar sem kosta lítið annað en tíma, ást og umhyggju. Ég hef til dæmis gefið systur minni jóladagatal þar sem hún átti að draga einn seðil á dag þar sem ég hafði skrifað eitthvað uppbyggjandi eða fallegt um hana og okkar samband. Einnig hef ég útbúið dagatöl, bækur með minningum, litlar sögur um líf og samband mitt og móttakandanna. Annars finn ég góð tilboð á því sem ég veit að ástvinum mínum vantar. Ég verð að viðurkenna að ég kaupi eiginlega aldrei föt en ef ég kaupi föt er það yfirleitt í Rauða krossbúðum og þess háttar. Ég hef einnig fengið mikið af fötum frá systur minni og erfði mikið af fallegum fötum eftir móður mína.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Ég hef alltaf verið svo mikill sparigrís að ég hef ekki þurft að draga það mikið úr kaupum mínum en væri nú til í að geta splæst aðeins meira á okkur inn á milli.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Til að hugsa um umhverfið jafnframt því að spara hef ég minnkað kjötneysluna og er í augnablikinu að prófa mig meira fram í uppskriftum án kjöts. Hef til dæmis útbúið margar nýjar uppskriftir af grænmetissúpum sem eru bæði hollar og saðsamar. Einnig hef ég minnkað akstur bifreiðar mjög mikið.

Mín aðferð með að skrifa allt innihald frá frysti og þess háttar niður, gera matarplan út frá því og skipuleggja getur verið krefjandi og tímafrekt í byrjun en marg borgar sig í lengdina. Hjá mér endar þetta oft í keppni um að hafa sparað meira þessa viku en síðustu og það er svo góð tilfinning að sjá sparnaðinn vaxa þó að sé stundum ekki nema lítil upphæð í einu.

Að lokum deilir Elísabet með okkur tveimur hollum og góðum uppskriftum.

Mexíkönsk minifarsbrauð með hrísgrjónum, salati og mexíkó ostasósa.

Mexíkanskt mini farsbrauð.

Taco farsbrauð.
500 grömm hakk.
250 grömm fínt hakkað grænmeti.
50 grömm taco krydd.2 egg.
2 dl haframjöl.
1 hvítlauksrif.
Hrærið öllum hráefnum vel saman og mótið lítil farsbrauð.

Gefið þeim 20 mínútur á 180 gráðum í airfryer eða 30 mínútur á 180 gráðum í forhituðum blástursofni.
Ostasósa.
1 Mexíkó ostur.
5 dl rjómi.
1 kjúklinga bouillion teningur.
Rífið ostinn fínt og bræðið hann í rjómanum. Bætið kjúklinga teningnum í og fáið sósuna upp að sjóða, skrúfið niður og látið hana malla í ca 5 mínútur.

 

Baunasúpa
500 grömm frosnar baunir.

Baunasúpa

2 dl spínat.
1 púrra.
1 laukur.
1 hvítlauksrif.
6 dl vatn.
1 og hálfur hænsna teningur.
2 msk rjómaostur.
1 tsk þurrkað timian.
salt, pipar og sítrónusafi eftir smekk.

Hakkið lauk, hvítlauk og púrru, komið því í pott og steikið í smá olíu í 3-4 mínútur. Bætið vatni, baunum,tening og timian við grænmetið. Fáið súpuna upp að sjóða, lækkið hitann og látið hana malla í 10 mínútur. Hrærið rjómaosti og spínat út í, hellið súpunni yfir í blandara og látið hann keyra þangað til súpan er orðin fín og klekklaus. Hellið súpunni aftur yfir í pottinn og bragðið til með salt, pipar og sítrónusafa.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -