Um 180 heilbrigðisstarfsmenn höfðu skráð sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar um hádegisbil í dag. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að Lyfjafræðingafélag Íslands hefur boðið fram aðstoð sína um að biðla til sinna félagsmanna um að skrá sig í bakvarðasveitina og eru lyfjafræðingar þegar farnir að skrá sig í grunninn.
Eins og var greint frá í gær hafa Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Læknafélag Íslands, Sjúkraliðafélag Íslands, heilbrigðisráðherra, landlæknir, sóttvarnalæknir og ríkislögreglustjóri undirritað sameiginlega yfirlýsingu um bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar. Félag lyfjafræðinga hafði þá frumkvæði að því að bjóða fram aðstoð sína.
„Fyrirsjáanlegt er að mikilvægar heilbrigðisstofnanir muni á næstunni þurfa að takast á við mönnunarvanda vegna COVID–19 veirunnar vegna veikindafjarvista eða fjarvista heilbrigðisstarfsfólks sem þarf að sitja tímabundið í sóttkví, líkt og þegar eru dæmi um. Með því að koma á fót bakvarðasveit eins og hér um ræðir, með lista yfir heilbrigðisstarfsfólk sem er reiðubúið til að hlaupa í skarðið ef á reynir, standa vonir til þess að heilbrigðisstofnanir geti mannað í stöður með hraði þegar á þarf að halda,“ segir á vef Stjórnarráðsins.
Sjá einnig: Óskað eftir heilbrigðisstarfsfólki á útkallslista