Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Eyrún eldar fyrir nokkra daga í einu -„Fer ekki svöng í búðina“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar heitir Eyrún Arnardóttir. Hún er hjúkrunarfræðingur í grunninn en hef bætt svolítið við sig námi í lýðheilsu og í sálgæslu. Eyrún starfaði lengi á LSH en er því miður í veikindaferli núna eftir örmögnun og kulnun en vonast til að geta hafið störf við hjúkrun aftur. Hún býr ásamt sambýlismanni sínum, Jónmundi og hundinum Rósí í Reykjavík. Eyrún opnaði instagram reikning fyrr á árinu sem heitir Bara aðeins auðveldara (@baraadeinsaudveldara) þar sem hún deilir uppskriftum og hugmyndum að því hvernig er hægt að auka grænmetisneyslu, nýta vel það sem er til á heimilinu og benda á ódýrari og aðgengilega kosti.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

Ég mætti vera duglegri við það en mér finnst það oft of orkukræft og flókið að halda utan um það, sérstaklega í matarinnkaupum. Það er aðallega við dýrari hluti sem ég kaupi ekki oft, eins og andlitskrem og aðrar snyrtivörur. Ég er svolítið vanaföst og nota lengi sömu kremin t.d. og þá fylgist ég með þegar það koma tilboð og kaupi þá kannski auka túpu. Sérstaklega á dögum eins og afsláttarsprengjudögunum í nóvember eða tax-free dögum.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég reyni að fara 1x í viku í Bónus og kaupa það helsta og ef eitthvað vantar eða bætist við þá reyni ég að fá mér göngutúr í næstu lágvöruverslun í staðinn fyrir að versla í kjörbúðinni á horninu sem er töluvert dýrari.  Ég reyni líka að vanda mig við að velja tíma til að fara. Mér líður best að versla þegar ég er ekki of svöng, ekki of þreytt og þegar það er ekki of mikil traffík í búðinni og ég finn að þetta hjálpar mér að gefa mér tíma til að skoða verð og gera samanburð á vörum. En ef mér tekst ekki að fara á „besta“ tíma þá reyni ég að halda mig við að kaupa það sem ég kaupi venjulega og helst með lista. Þetta sparar yfirleitt óþarfa kaup og orku.

Ég er að venja mig á að kaupa líka inn sælgæti, ís og snakk í lágvöruverslun. Það hljómar kannski einkennilega en ég hef mikið unnið í því að bæta samband mitt við mat og því fylgdi að hætta að hugsa um mat sem hollan eða óhollan og fyrir mig virkar betur að hugsa um það hvernig ég bæti við næringargildi eða orku frekar en að sleppa því að borða eitthvað sem mig langar í. Í staðinn fyrir að „stelast“ út í búðina á horninu og kaupa súkkulaði þá reyni ég að kaupa það í bónus og spara mér hundraðkallana en ekki súkkulaðið.

- Auglýsing -

Annað sem við reynum að gera á heimilinu er að elda mat fyrir nokkra daga í einu, t.d. lasagna, kjötsúpu, dahl eða aðra pottrétti. Sérstaklega ef það er mikið að gera eða fyrirséð að dagar verði erfiðir. Mér finnst það oft spara bæði orku og peninga að vera með plan, hvað ætla ég að gera ef að orkan mín klárast og ég þarf að borða. Er það ab-mjólk og kornflex, hafragrautur eða frosin pizza? Með því að vera með eitthvað backup plan þá eru minni líkur á að ég fari og kaupi skyndibita eða eitthvað slíkt. Annað lykilatriði við að spara útgjöld þegar það kemur að mat að reyna að útbúa nesti heima og taka með út í daginn.

Ég er mjög heppin með það að matur, eldamennska og tilraunir í matreiðslu eru helsta áhugamál okkar litlu fjölskyldu svo að við erum yfirleitt samstillt en það skiptir máli við séum sammála um hversu mikið (sirka) við ætlum að eyða og hvernig við ætlum að spara.

Svo verð ég að minna á að dýrasti maturinn sem þú kaupir er matur sem fer til spillis eða endar í ruslinu.

- Auglýsing -

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?

Ég endurvinn, skila plasti, pappa, áli og gleri í grenndargáminn.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Ég reyni að kaupa notað ef ég get en ég sérstaklega erfitt með að finna notuð föt. Mér finnst rosalega erfitt að róta á fatamörkuðum eða í loppum og finna flíkur sem henta mér og mínum líkama, ég vil geta mátað í rólegheitum og helst prófa stærðir en fyrir vikið þá kaupi ég sjaldnar föt. Ég gef nánast eingöngu börnum gjafir og fyrir nokkrum árum síðan þá áttaði ég mig á hvað það er frábært úrval af bókum í Góða hirðinum, svo að ég versla flestar gjafir þar. Um síðustu jól fann ég póníhesta þar sem slógu í gegn hjá heilum krakkaskara. Ég reyni líka að fara fyrst í Góða hirðinn ef ég get og leita ef mig vantar eitthvað ákveðið áður en ég fer og kaupi nýtt, eins og gatara og kartöflustappara.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Kimchi frá súrkálskonunni. Ég elska það, en það er of dýrt fyrir mig eins og er.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já mjög svo en mér finnst samt að það er of mikil ábyrgð sett á einstaklinga sem neytendur. Mér finnst að framleiðendur og stjórnvöld ættu að bera meiri ábyrgð og í samráði við vísindasamfélagið finna góðar lausnir. Að því sögðu þá finnst mér auðvitað skipta máli að velja umhverfisvæna kosti, þegar það er hægt. Mér finnst mjög gott að geta elt vottanir, svansmerkið, eco-cert og annað slíkt og svo það mikilvægasta, að eyða/kaupa ekki óþarfa.

Annað sem þú vilt taka fram?

Það er rosalega flókið að ætla að hugsa um heilsuna, heimilið, umhverfið og allan heiminn og ég held að íslenskt samfélag megi heilt yfir tóna sig aðeins niður hvað varðar væntingar og kröfur og ekki síður boð og bönn. Við erum allt eða ekkert þjóð og það endar oft í að einstaklingar upplifi skömm eða samviskubit. Við eigum að hjálpa hvert öðru að gera okkar besta með vellíðan í forgrunni.

Það væri kannski helst að ef þú vilt gera breytingar í tengslum við þína neyslu, hegðun eða ákvarðanir, prófaðu þá að byrja af samkennd í eigin garð og að skoða hverju þú getur þægilega bætt við. Er það að bæta gúrkubita við hádegismatinn eða bæta við 10 mínútum af hreyfingu á mánudögum? Byrjaðu smátt og með sveigjanleika til að bæta í ef þú vilt. Það gefst yfirleitt betur en að ætla að taka allt með trompi.

Að lokum deilir Eyrún með okkur uppskrift af stökku og bragðmiklu rósakáli.

Stökkt og bragðmikið rósakál – uppskrift af instagram síðunni

 

Frosið rósakál, 450 g fæst á 180 kr í Bónus. Rósakál er kannski ekki allra en mér finnst þessir bitru bögglar ótrúlega góðir sérstaklega þegar þeir fá að verða extra krispí og frábært meðlæti.

Hér er rósakálið sett beint úr frystinum í ofnskúffu og inní ofn á meðan ofninn hitnar í 200°c með blæstri +5 mín sirka. Þetta er gert svo að kálið þiðni og mesta vatnið gufi upp. Þegar kálið er orðið heitt og það sést ekkert vatn bubbla að utan þá er það tekið úr ofninum og olía og krydd borið á. Ef olían er sett á áður en rósakálið þiðnar þá sýður kálið í graut. Mér finnst mjög gott að kremja bögglana og fletja þá út eins og er vinsælt að gera við kartöflur, þá verður þetta allt extra krispí. Hér setti ég salt, pipar, hvítlauks- og laukduft, ólífuolíu og svo parmesan (annar ostur eða næringarger) yfir allt saman. Svo fer allt aftur inní ofn í 10-15 mínútur þangað til allt er vel krispí og osturinn brúnn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -