Margrét Sigfúsdóttir, sem var lengi skólastjóri Hússtjórnarskólans, er neytandi vikunnar að þessu sinni. Hún er fædd og uppalin á Selfossi næst elst af sex systkinum. Fjórar stelpur og tveir strákar. Gekk í skóla þar, síðan í Hússtjórnarskólann á Laugarvatni og þaðan í Hússtjórnarkennaraskóla Íslands sem var þriggja ára nám. Þessi skóli var síðan sameinaður Kennaraskólanum. Útskrifaðist þaðan vorið 1969. Var síðan í fullu starfi frá útskrift þar til hún hætti að vinna vorið 2022. Fór tvisvar í barneignarfrí á þessum árum. Aðeins þrír mánuðir hvort skipti.
Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?
Ég mæli alltaf með því að gera innkaupalista til að spara í innkaupum og fylgja honum eftir. Verðlag er mjög misjafnt eftir framleiðanda og oft eru það þá gæðin sem þar skipta máli. Passa upp á að rétt magn sé keypt og ef svo er ekki nýta þá afganga næsta dag eða frysta þá. Ég merki þá alltaf og dagset áður en ég set þá í frystinn.
Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?
Mesti sparnaðurinn felst í því að henda ekki mat og þá á ég við matvara sem er á síðasta söludegi til dæmis mjólk og mjólkurvara. Mjólkin og mjólkurvörur hafa lengra geymsluþol en fram á síðasta söludag. Eftir því sem varan er feitari eins og til dæmis rjómi og nýmjólk þá geymast þessi vara langt fram yfir síðasta söludag. Þetta á líka við AB mjólk, súrmjólk og skyr ásamt sýrðum rjóma. Mjólkin verður bara súr og engin deyr af henni. Ef fastir ostar mygla á utan þá er bara að skera utan af þeim eða þvo þá úr köldu vatni og þurrka.
Eins er með egg ekki henda þeim þó komið sé fram yfir síðasta söludag. Egg geymast miklu lengur alveg þrjá til fjóra mánuði. Þó að egg fljóti upp við suðu sýnir það ekki að það sé ónýtt, eggjaskurnin er ekki loftþéttar þannig þegar egg eldist gufar hægt og rólega vökvi frá egginu og loft kemur í staðin og gerir það að verkum að eggið flýtur upp.
Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?
Ég kaupi tímalausan fatnað úr góðum efnum sem þola að vera notuð og þvegin. Tímalaus föt eru þannig að þau eru aldrei í tísku en samt alltaf í tísku. Varðandi gjafir þá kaupi ég eitthvað sem ég veit að fólk vill. Eins er gaman að gefa handverk sem maður hefur búið til sjálfur.
Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?
Mjólk er minn veikleiki. Ég kaupi alltaf of mikið af henni.
Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra?
Já ég reyni að endurnýta allt sem ég get. Ég nota til dæmis bökunarpappír aftur og aftur þar til hann nánast dettur í sundur. Eins er ég nýtin á hluti sem ég á. Gamla brauðristin mín sem ég fékk í brúðargjöf er enn í notkun þó mig langi agalega í nýja rauða brauðrist. Þessi gamla er bara í góðu lagi ennþá og ristar mjög vel.