Japanska veitingakeðjan Sushizanmai átti hæsta boð í 276 kg túnfisk sem seldur var á uppboði á fiskmarkaði í Tokyo í morgun. Fiskurinn fór á 193 milljón yen, jafnvirði 221 milljóna íslenskra króna.
Um er að ræða næsthæsta verð sem greitt hefur verið fyrir túnfisk á uppboðinu en í fyrra greiddi sushi-keðjan 334 milljón yen fyrir 278 kg fisk.
Kiyoshi Kimura, eigandi veitingakeðjunnar, sagði í samtali við ríkismiðilinn NHK að þrátt fyrir að fiskurinn hefði kostað sitt væri hann þess virði, þar sem hann vildi geta boðið viðskiptavinum sínum upp á besta fáanlega hráefnið.
Túnfiskurinn var fangaður út af Oma í norðurhluta Japan. Hefð er fyrir því að hefja nýtt ár á Toyosu-fiskmarkaðnum með túnfiskuppboði, þar sem forsvarsmenn veitingastaða keppast um bestu bitana og greiða fúlgur fjár fyrir.