Föstudagur 15. nóvember, 2024
1.6 C
Reykjavik

39 börn föðurlaus þegar togarinn Júlí fórst í hræðilegu veðri: „Það ríkti dauðaþögn á bryggjunni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á dögunum 8. til 9. febrúar árið 1959 gerðist eitt hörmulegasta sjóslys í útgerðarsögu Íslendinga, en þá fórst togarinn Júlí, frá Hafnarfirði, á Nýfundalandsmiðum og með honum þrjátíu menn í miklu ísingarveðri. Ekki mátti miklu muna að slysin yrðu fleiri því öðrum íslenskum togurum var mikil hætta búin í þessu veðri. Þorkell Máni úr Reykjavík var nærri því sokkinn og að minnsta kosti fjögur önnur íslensk skip lentu í vandræðum; Júní, einnig frá Hafnarfirði, sem og Bjarni riddari. Líka Mars úr Reykjavík og Norðlendingur frá Ólafsfirði.

 

Allir voru þetta síðutogarar; kallaðir Nýsköpunartogarar, sem keyptir voru til landsins að lokinni síðari heimstyrjöldinni.

Í febrúar árið 1959 voru þessi skip stödd í mjög köldum sjó; yfirborshitinn um eða undir frostmarki og á sama tíma er einnig loftkuldi og særok; fá á sig ísingu á yfirbyggingu skipsins.  Hleðsla ísingar dregur snögglega úr stöðugleika og sjóhæfni.

Nýsköpunartogararnir voru afar fengsæl fiskiskip en þóttu ekki sérlega vel hannaðir og útfærðir með tilliti til ísingarhættu; á þeim voru rekkverk, vírar og fleira sem á hlóðst ís í vondum vetrarveðrum.

- Auglýsing -

Í frétt Morgunblaðsins 18. febrúar segir svo:

Í gær tilkynnti Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, að togarinn Júlí væri talinn af með allri áhöfn, 30 mönnum. Leit er nú hætt að togaranum, en hún hófst að morgni 10. þessa mánaðar og í tilkynningu Bæjarútgerðarinnar segir, að viðstöðulaust hafi síðan verið leitað með flugvélum og skipum á meir en 70,000 fersjómílna svæði. Fjöldi flugvéla hafði tekið þátt í leitinni að Júlí, björgunarflugvélar frá Kanada, Bandaríkjunum, Nýfundnalandi og héðan frá íslandi, svo og bandarískar flotaflugvélar. Á sjó leituðu veðurskip og stórir rússneskir verksmiðjutogarar. Auk hins fyrrgreinda leitarsvæðis á Nýfundnalandsmiðum var og leitað á stóru aðliggjandi svæði sunnar. Allur þorri skipsmanna á Júlí voru ungir menn, yngsti maðurinn aðeins 16 ára, en hinn elzti 48 ára. Flestir á aldrinum milli tvítugs og þrítugs. Af þeim voru nítján frá Reykjavík og fimm frá Hafnarfirði. Í hópnum voru 12 heimilisfeður, er láta eftir sig konur og börn. Með hvarfi togarans Júlí hafa 39 börn á aldrinum nokkra vikna til 15 ára misst feður sína. Þetta er eitt hið mesta sjóslys, sem orðið hefur á íslenzku skipi á þessari öld, en fleiri fórust þó í hinu svonefnda Þormóðsslysi 1943, er 31 maður drukknað í Halaveðrinu 1925, er tveir togarar fórust, drukknuðu 68 menn, og með togaranum Hiium Max Pemberton, er hvarf árið 1944, fórust 29 menn.

Togarinn Júlí.

Öll áhöfn Júlí hvarf í kalt hafið sem skilar engu til baka sem það nær tökum á, en sem betur fer, þótt þessi atburður hafi verið hryllilegur í alla staði, fórust ekki fleiri, en eins og áður sagði munaði litlu að svo færist – sérstaklega hjá togaranum Þorkatli Mána; en allt fór betur en á horfði.

- Auglýsing -

Eftirlifendur áhafnar Þorkatlar Mána komu saman á sínum tíma til að rifja upp þennan erfiða atburð og annað markvert af skipinu.  Morgunblaðið ræddi við Skúla Ólafsson, sem var einungis átján ára háseti í sjóferðinni örlagaríku. Hann segir svo frá að það hafi verið mögnuð stund þegar Þorkell Máni kom í land eftir þessa hættuför, en þá var enn ís á bátþilfarinu.

Þorkell Máni.

„Við komum um klukkan hálfþrjú um nóttina og bryggjan var full af fólki.  Og það ríkti dauðaþögn á bryggjunni og þetta var ótrúleg stemming.  Það var ekki að undra því að togarinn Júlí hafði farist með allri áhöfn og þá fórust fleiri togarar, en ekki íslenskir á sömu slóðum.“

Febrúar árið 1959 var mikill sjóslysamánuður og sjaldan hafa farist eins margir Íslendingar í einum mánuði og þá; mögulega fleiri en í þeim hræðilega mánuði október árið 1995 þar sem snjóflóðin féllu á Flateyri og mörg slys urðu líka víða á landinu með miklum kostnaði mannslífa.

Hermóður.

Árið 1959 í febrúar voru samgöngutruflanir miklar og rafmagnsbilanir tíðar; stormdagar voru margir. Vitaskipið Hermóður fórst undan Höfnum á Reykjanesi 18. febrúar í stormi og stórsjó og með honum öll áhöfn eða átján manns.

Þarna sem togararnir áðurnefndu voru var algjört manndrápsveður og veðurhæðin nokkru meiri á miðunum, en frostið kannski ekki jafnhart.  Erfitt er að ímynda sér erfiðari aðstæður og meiri ísingarhættu en þarna í þessu hryllilega veðri sem tók líf þrjátíu Íslendinga, flestir voru frá Reykjavík og margir af þeim ungir menn. Sá yngsti aðeins sextán ára gamall.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -