Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.2 C
Reykjavik

69 dagar til stefnu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur 69 daga til að komast að einhverri niðurstöðu varðandi fyrirhugaða útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu sem tekur gildi þann 29. mars. May er í svo gott sem vonlausri stöðu. Heimafyrir er hún löskuð eftir stærsta ósigur sem nokkur ríkisstjórn hefur beðið í atkvæðagreiðslu á þingi. Flokkur hennar er klofinn á milli þeirra sem vilja tafarlausa útgöngu án samnings og þeirra sem vilja reyna til þrautar að ná ásættanlegum samningi við Evrópusambandið sem aftur á móti er ólíklegt til að fallast á frekari tilslakanir.

May hafði frestað atkvæðagreiðslu um útgöngusamninginn í breska þinginu fram yfir áramót til að reyna að afla fylgis við hann. Það þótti allan tímann langsótt. Engan óraði þó fyrir því að May myndi bíða jafnstóran ósigur í þinginu og raun bar vitni – 432 greiddu atkvæði gegn samningnum en einungis 202 með. Að öllu jöfnu hefði forsætisráðherra sagt af sér eftir slíkan ósigur en May gaf það strax út að hún ætlaði að sitja sem fastast.

May stóð þó af sér vantrauststillögu Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, í fyrradag sem hefði þýtt nýjar kosningar. Það má í raun teljast guðsgjöf fyrir May hversu ofboðslega veikur leiðtogi Jeremy Corbyn er. Undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti Verkamannaflokkurinn að eiga auðveldan sigur í vændum í þingkosningum. Ekki bara hafa May og Íhaldsflokkurinn haldið afleitlega utan um Brexit-ferlið, heldur er allt í uppnámi innan flokksins. En skoðanakannanir sýna flokkana nánast með jafnt fylgi.

Framhaldið er að mörgu leyti óráðið. Hvort ESB opni dyrnar að nýju fyrir May eða gefi út einhverja fullvissu um framtíðarsamband um landamæri Írlands og Norður-Írlands, sem var einn helsti ásteytingarsteinninn í samkomulagi May, verður að koma í ljós. Yfirlýsingar ráðamanna ESB voru ekki uppörvandi fyrir May en í þeim fólust fyrst og fremst tilmæli til Breta að ákveða hvað þeir raunverulega vilja áður en þeir banka aftur á dyrnar. Einn möguleiki er að May óski eftir því að útgöngu verði frestað um tiltekinn tíma á meðan reynt er að ná samningum. Hinir kostirnir eru svo raktir hér til hliðar. Annars vegar útganga án samnings og hins vegar önnur þjóðaratkvæðagreiðsla. Báðar leiðirnar eru þyrnum stráðar.

Ófyrirséðar afleiðingar án samnings

Ef enginn samningur næst mun Bretland ganga úr Evrópusambandinu 29. janúar klukkan 11.00. Það þýðir að lög og reglur sambandins ná ekki yfir Bretland en samningur May sem var felldur fól í sér 18 mánaða aðlögunarfrest. Slíkt hefur í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar, sumir ganga svo langt að lýsa því sem neyðarástandi. Umrædd lög og reglugerðir spanna öll svið mannlífsins – tollamál, viðskipti, ferðalög og réttindi borgaranna. Fylgjendur Brexit hafa sagt að varnaðarorð séu einkum hræðsluáróður. Við útgöngu verði Bretland frjálst og fullvalda ríki og það eina sem til þurfi sé undirbúningur af hálfu stjórnvalda. Þá muni gengisfall pundsins, sem mjög líklegt er að verði skarpt, fela í sér tækifæri fremur en eitthvað annað enda bæti það samkeppnisstöðuna við Evrópu. Andstæðingar Brexit óttast hins vegar að allt geti farið á versta veg. Pundið hríðfalli með tilheyrandi verðbólgu, ringulreið muni skapast á landamærum Bretlands og vöruskortur gæti orðið viðvarandi.

- Auglýsing -

Búa sig undir matvæla- og lyfjaskort

Við útgöngu án samnings myndu viðskipti við ríki ESB falla undir skilmála Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) sem þýðir að vörur þaðan þurfa að undirgangast sömu tollmeðferð og bera sömu tolla og vörur annars staðar frá í heiminum. Það mun ekki bara hafa í för með sér hærra vöruverð heldur einnig margfaldan tollafgreiðslutíma. Í leynilegri skýrslu breskra stjórnvalda sem lekið var í fjölmiðla kom fram að líklegar afleiðingar verði matvæla- og lyfjaskortur og í því skyni tóku stjórnvöld upp á því að hamstra mat og lyf ef allt færi á versta veg. Milljónir íbúa ESB-ríkja sem búsettir eru í Bretlandi munu verða í algjörri óvissu um framtíð sína og það sama gildir um milljónir Breta sem búsettir eru í Evrópu, þeir munu dvelja þar upp á náð og miskunn viðkomandi ríkja, semjist ekki um annað.

Búið að tryggja rétt Íslendinga í Bretlandi

- Auglýsing -

Brexit mun að sjálfsögðu hafa áhrif á Ísland, enda viðskipti milli landanna farið fram í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES), svæði sem Bretland mun yfirgefa eftir 70 daga. Í lok síðasta árs náðu EFTA-ríkin (Ísland, Noregur og Lichtenstein) samkomulagi við Bretland sem fól í sér sömu aðlögun og gilti um önnur ríki ESB eftir útgöngu. Samkomulagið var þó háð því að breska þingið samþykkti útgöngusamninginn við ESB. Viðskipti við Bretland gætu þess vegna raskast verulega ef íslenskum stjórnvöldum tekst ekki að semja um annað fyrir útgöngu. Aftur á móti lá fyrir pólitískt samkomulag milli Íslands og Bretlands um gagnkvæman rétt borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu, jafnvel þótt enginn Brexit-samningur næðist. Íslendingar búsettir í Bretlandi þurfa þess vegna ekki að óttast um stöðu sína, frekar en Bretar búsettir á Íslandi.

Vandasöm önnur þjóðaratkvæðagreiðsla

Þrýst hefur verið mjög á um að efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit. Það er heldur ekki jafnaugljós kostur og margir vilja vera láta. Í fyrsta lagi yrði deilt um hvað ætti að kjósa; ætti að kjósa um útgöngusamning May eða hætta alfarið við útgöngu eða jafnvel allir þrír kostirnir í boði? Um það er ekkert samkomulag. Brexit var samþykkt með einungis 4 prósenta meirihluta og þótt skoðanakannanir nú bendi til þess að niðurstaðan í annarri þjóðaratkvæðagreiðslu yrði sú að Bretar skipti um skoðun og hætti við útgöngu, þá er munurinn engan veginn afgerandi þrátt fyrir alla ringulreiðina og að yfirgnæfandi fjöldi kjósenda telji ríkisstjórnina hafa haldið illa á málum. Enda sýna kannanir að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla yrði ekki til þess að lægja öldurnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -