Vél Icelandair með farþega frá Veróna á Ítalíu á að lenda á Keflavíkurflugvelli í dag klukkan 17:11. Embætti landlæknis er Icelandair innan handar vegna flugsins vegna útbreiðslu COVID-19.
Rúmlega 70 Íslendingar koma með vélinni. Í frétt Vísis um málið segir að mikill viðbúnaður sé á Keflavíkurflugvelli vegna hópsins sem kemur með vélinni á meðan litlar sem engar ráðstafanir væri gerðar vegna hópsins á flugvellinum á Veróna.
Öll Ítalía er nú skilgreind sem áhættusvæði vegna kórónaveirunnar.
Upplýsingafulltrúi Icelandair greindi frá því í vikunni að sérstökum verkferlum landlæknis og sóttvarnarlæknis verði fylgt í fluginu. Tveir flugmenn og fjórar flugfreyjur koma með vélinni. Flugfreyjurnar fjórar eru einnig hjúkrunarfræðingar. Ekki verður boðið upp á almenna þjónustu í fluginu og mun áhöfnin klæðast hlífðarfatnaði.
Allir farþegar munu þá fá andlitsgrímur afhentar. Vélin verður svo sótthreinsuð við komuna til Keflavíkur.