90 hafa nú greinst með COVID-19 smit hér á landi. Þórólfur Guðnason greinir frá þessu á upplýsingafundi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra. Flestir þeirra smituðu eru með væg einkenni. Einn hefur þurft að leggjast inn á spítala vegna COVID-19-sýkingar.
Þórólfur segir fjögur svokölluð þriðja stigs smit vera komin upp. Óvissa er um uppruna tveggja smita.
Að sögn Þórólfs hafa um 830 sýni verið tekin. Um 700 einstaklingar eru í sóttkví hér á landi.
Þórólfur segist binda miklar vonir við samstarf heilbrigðisyfirvalda við Íslenska erfðagreiningu og verið er að móta það samstarf.
Skráning í bakvarðarsveit stendur yfir
Alma Möller, landlæknir, nýtti þá tækifærið til að benda á skráningaform á hrn.is þar sem heilbrigðisyfirvöld óska eftir liðsinni heilbrigðisstarfsfólks úr hópi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða í svokallaða bakvarðarsveit heilbrigðisþjónustunnar.
Hún segist búast við auknu álagi vegna útbreiðslu COVID-19 en þá þurfi líka að sjá til þess að hægt sé að veita aðra heilbrigðisþjónustu.
Mikil áhrif á skólastarf
Steinn Jóhannsson, rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, svaraði spurningum um smit sem kom upp í skólanum. Hann segir það hafa verið mikil vonbrigði að frétta að nemandi væri sýktur og að það hafi haft mikil áhrif á skólastarf.
Hann segir sálfræðing skólans hafa veitt nemendum andlega þjónustu. Í dag er hefðbundið skólahald og þeir nemendur sem eru í sóttkví vegna smitsins nýta tæknina í skólastarfinu.
Fréttin hefur verið uppfærð.