Eftir mannskætt flugslys Ethiopian Airlines í Kenía þann 10. mars hafa vaknað áleitnar spurningar um flughæfi flugvéla af gerðinni Boeing 737 MAX-8. Alls hafa 346 einstaklingar látist í tveimur flugslysum hjá þessari tegund Boeing-véla á skömmu tíma og óhjákvæmilega verða flugfarþegar óttaslegnir þegar þeir heyra tíðindi sem þessi.
Persónulega er ég ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að fljúga með þessari tegund flugvéla, á meðan óvissa ríkir um flughæfi þeirra.
Þegar þetta er ritað hafa alls 22 flugfélög tilkynnt að þau muni stöðva flug sinna Boeing 737 MAX-8 flugvéla, líklega á meðan verið er að komast til botns í því hvað olli framangreindum flugslysum.
En hvað með íslensk flugfélög? Wow air notast ekki við Boeing í sínum rekstri, heldur Airbus flugvélar. Þetta er því ekki áhyggjuefni fyrir farþega Wow air. Hvað Icelandair varðar, er hins vegar ljóst að félagið notar þrjár Boeing 737 MAX-8 flugvélar í sínum rekstri, en flugfélagið er með alls 29 flugvélar í notkun, skv. heimasíðu félagsins. Þar kemur fram, að félagið sé á meðal þeirra fyrstu til þess að taka þessa umdeildu flugvélategund í sína þjónustu og muni á næstu árum fá 16 svona vélar inn í reksturinn.
Á Íslandi fer Samgöngustofa með eftirlit með íslenskum flugrekendum og því hvort þeir uppfylli þau skilyrði, sem kveðið er á um í lögum um loftferðir nr. 60/1998. Lögin færa mjög víðtækar heimildir í hendur stjórnvaldsins, til þess að banna eða takmarka flug ákveðinna flugvéla, sé talið að hætta steðji að. Þannig getur Samgöngustofa einfaldlega bannað flug loftfara á grundvelli flugöryggis, sbr. 5. gr. laganna og á grundvelli ákvæða reglugerða sem stafa frá Evrópusambandinu. Til þess að gera það, þyrfti stjórnvaldið að gæta að reglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf og þannig fara ekki strangar í sakirnar en efni standa til.
Til þess að Samgöngustofa myndi grípa til þess úrræðis, að banna flug þessara tilteknu véla, þyrfti því sjálfsagt meira að koma til heldur en tvö flugslys. Á meðan ekki liggja fyrir óyggjandi upplýsingar um ástæður slysanna, þyrfti að fara varlega í sakirnar áður en flug véla af þessu tagi væri einfaldlega bannað. Slíkt gæti valdið flugrekendum – svo ekki sé nú talað um framleiðanda flugvélanna – ómældu tjóni sem erfitt gæti verið að bæta.
Heimildir laganna eru hins vegar, eins og áður sagði, nokkuð víðtækar og hægt væri að fara í skemmri skírn en þá að banna notkun þessara véla alfarið. Þannig kveður 1. mgr. 84. gr. laga um loftferðir á um að Samgöngustofa geti gefið út rekstrarfyrirmæli til flugrekenda. Slík fyrirmæli gætu t.d. verið að flugrekandinn uppfylli tiltekin skilyrði sem stofnunin setur í þágu aukins flugöryggis. Sem dæmi um slík skilyrði gæti Samgöngustofa gert Icelandair að gera úttekt á svokölluðum „anti-stall“-hugbúnaði áður en Boeing 737 MAX-8 þotur félagsins væru notaðar frekar. Umræddur hugbúnaður er meðal þess sem rannsakendur eru að skoða hvort að hafi farið ranglega af stað í flugi Boeing 737 MAX-8 vélar Lion Air, sem brotlenti í Java hafinu í október með þeim afleiðingum að 189 manns létust.
Þegar allt er saman tekið, er ljóst að bæði samgönguyfirvöldum og Icelandair er nokkur vandi á höndum. Samgönguyfirvöld þurfa að stíga varlega til jarðar, til þess að valda ekki gríðarlegar miklu tjóni hjá framleiðendum og flugrekendum. En á sama tíma, á félag eins og Icelandair gríðarlega mikið undir því að flugfarþegar beri traust til þeirra. Félagið biði gríðarmikinn skaða ef nokkuð misjafnt kæmi upp í rekstri þessarar tegundar af flugvélum, eftir allt sem á undan er gengið.
Félagið stendur því frammi fyrir tveimur valmöguleikum: 1) Að bregðast við skjótt og vel og auka tiltrú neytenda á félaginu, eða hitt: 2) Að setja höfuðið undir sig og vona að allt fari vel.
Glugginn til þess að bregðast skjótt og vel við stendur ekki opinn lengi.
Sjá einnig: Verða Boeing 737 Max flugvélarnar kyrrsettar um allan heim?
Mynd / Boeing