Miðvikudagur 15. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Á hælaskónum í Smuguna

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þarna missti ég minn albesta vin og gekk í gegnum hrikalegt áfall þegar hann dó. Þegar dauðinn kom og ástvinur fór stóð ég algjörlega tóm og varnarlaus eftir,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, um sáran bróðurmissi þegar hún var á þrítugsaldri. Á barnsaldri missti hún sjón og upplifði erfitt einelti í æsku vegna fötlunar sinnar. Eftir að hafa sjálf alist upp við fátækt og erfiðleika er það einlægt markmið stjórnmálaforingjans að útrýma fátækt á Íslandi. Inga rifjar upp í viðtali við Mannlíf erfiðar minningar og nýrri sár sem til urðu á hinum fræga Klausturbar.

Inga er í forsíðuviðtali Mannlífs.

Inga fæddist 3. ágúst 1959 á Ólafsfirði og ólst upp á sex manna heimili, lengst af í 40 fermetra húsnæði án baðaðstöðu. Móðir hennar var heimavinnandi húsmóðir eins og tíðkaðist í þá daga og faðir hennar aflaði einn tekna til heimilisins með verkavinnu og sjómennsku. „Einhverra hluta vegna var það svo að við fengum ekki mjög margt sem aðrir fengu. Alla mína æsku baðaði ég mig í þvottabala því það var engin sturta. Við höfðum alltaf nóg að bíta og brenna en það var ekkert umfram það. Aðeins keypt það nauðsynlega sem þurfti, stígvél og svona, en við fengum aldrei nein tískuföt,“ segir Inga alvarleg í bragði. „Við vorum aldrei í þeirri stöðu að geta farið í ferðalög eða eignast bíl, til dæmis. Ýmislegt sem mörgum þykir eðilegt er eitthvað sem ég upplifði aldrei. Það var alveg erfitt því maður sá hina fá nýtt hjól og nýja skauta en forgangsröðin heima var að við yrðum aldrei svöng eða okkur kalt.“

Hefði ekki þurft að missa sjón

Á aðfangadagskvöld þegar Inga Sæland var á fimm mánaða, veiktist hún illa af heilahimnubólgu sem varð til þess að hún missti sjón. Inga segist eiga erfitt með að hugsa til þess að ef henni hefði þá verið gefið sýklalyf hefði hún sjálfsagt haldið sjóninni. „Ég missti sjónina vegna læknamistaka. Löngu síðar var mér sagt að hefði ég bara fengið sýklasprautu þegar ég var rænulaust lítið barn með heilahimnubólgu hefði ég líklega ekki misst sjónina. Ég finn fyrir ólgandi reiði þegar ég hugsa til þess og held það hefði verið betra að vita það bara alls ekki,“ segir Inga.

Fátæktin og sjónmissirinn hefur allar götur síðan hamlað Ingu í mörgu því sem hún hefur viljað taka sér fyrir hendur. Þannig gat hún ekki uppfyllt drauma sína í bæði námi og tónlist, ekki nema fyrir eigin dugnað og kappsemi á síðari árum. Að vera hálfsjónlaus varð jafnframt til þess að Inga upplifði talsvert einelti í æsku.

Lærði að skrifa í deig

- Auglýsing -

„Ég var alltaf mjög sjálfbjarga og sjálfri mér næg. Þurfti líka að vera það því ég var svo sjónskert að ég gat lítið fylgt krökkunum og þau nenntu ekkert að hafa mig með í leikjum. Ég kynntist alveg einelti þar sem mér var rosamikið strítt. Börn eru börn og átta sig kannski ekki alltaf á þegar þau særa eða meiða. Ég var sem barn stundum leið og sorgmædd en reyndi alltaf að vera glöð og dugleg,“ segir Inga sem er endalaust þakklát fyrir þá hlýju sem hún upplifði meðfram erfiðleikunum.

„Ég var mikið hjá ömmu og hún kenndi mér að skrifa stafi í deigið þegar hún var að gera kleinurnar. Það eru yndislegar minningar úr eldhúsinu hennar. Mig langaði til að læra á hljóðfæri en gat það ekki því ég gat ekki séð nóturnar. Ég lærði að lifa með minni eigin getu og hef í raun aldrei þekkt annað en þessa sjóndepru. Eiginlega er ég samt þakklát fyrir það í dag að hafa ekki þekkt annað, höggið hefði líklega verið meira hefði ég misst sjónina síðar á lífsleiðinni.“

Setti manninum afarkosti

- Auglýsing -

Þegar Inga rifjar æsku sína upp man hún eftir því að hafa verið vinsæl barnapía á Ólafsfirði enda hafi hún haft svo gaman af söng að það hjálpaði mikið til við barnapössunina.

Hún og maður hennar, Óli Már Guðmundsson, tóku saman er Inga var 16 ára gömul og tveimur árum síðar gengu þau í hjónaband. „Ég sagði við manninn minn að annaðhvort skyldi hann giftast mér eða við myndum hætta saman. Ég held að hann hafi ekki þorað annað en að giftast mér, slíkir voru afarkostirnir. En á þessum tíma var þetta voða mikið svona og þótti eðlilegt að unga fólkið væri að binda sig enda lítið annað í boði þarna. Það voru allir að gera það og mér fannst þetta eðlilegasti hlutur í heimi,“ segir Inga, sem var orðin fjögurra barna móðir 28 ára gömul.

Á hælaskónum í Smuguna

Óli Már, eiginmaður Ingu, var í fyrstu á netabát og fór þá í dagróðra en síðar meir fór hann í lengri túra á togurum. Aðspurð segist hún aldrei hafa aðlagast því almennilega að vera sjómannskona. „Ég get alveg fíflast með að það hafi verið yndislegt að vera laus við hann af heimilinu en mér fannst aldrei gott þegar hann var á þessum togurum og að hafa hann aldrei heima. Ég var eiginlega í byrjun alltaf hálffeimin við hann þegar hann kom í land en það vandist auðvitað eins og annað. Það hjálpaði að það voru margar konur í kringum mig í sömu sporum og við vorum mjög nánar,“ segir Inga sem fór nokkrar veiðiferðir sem kokkur og þar með talið með Sigurbjörginni ÓF í Barentshafi.

„Þarna mætti ég í hælaskóm og söngdívudressinu. Það var algjört aukaatriði að ég kynni eitthvað að elda því það bráðvantaði kokk á síðustu stundu. Ég fékk vinkonu mína til að passa og skellti mér bara með því okkur sárvantaði pening. Togaralífið fannst mér mjög skemmtilegt og strákarnir voru mjög hrekkjóttir. Þetta var algjört ævintýri.“

Inga Sæland
Mynd / Hallur Karlsson

Grasið ekkert grænna

Árið 1994 flutti Inga með fjölskyldunni til Reykjavíkur og fór þá að leigja íbúð hjá Öryrkjabandalaginu. Óli Már maður hennar stefndi á að klára nám sitt í rafeindavirkjun. Í flutningunum vildi ekki betur til en svo að hann handleggsbrotnaði og það átti heldur betur eftir að draga dilk á eftir sér. „Læknamistök ofan á læknamistök urðu til þess að hann glímdi við þetta í sex ár. Aldrei fengum við það bætt. Við gengum þarna í gegnum algjöran hrylling, nýflutt í borgina og höfðum litla sem enga framfærslu. Þetta var alveg hræðilegt tímabil og mjög erfitt að rifja upp þar sem við gátum ekki veitt börnunum okkar það sem við vildum. Við gátum ekki einu sinni nurlað saman í strætókort svo að elsti sonur okkar gæti komist í það iðnnám sem hann langaði virkilega til,“ segir Inga sem augljóslega á erfitt með að rifja upp þetta tímabil ævinnar. „Þetta var mikið áfall fyrir okkur og vonbrigðin svo mikil að maðurinn minn hrundi algjörlega í allri þessari fátækt. Hremmingarnar voru svo hrikalegar að við skildum. Þessi tími var alveg hræðilegur. Löngu síðar áttaði ég mig á því að grasið er ekkert grænna hinum megin við lækinn, heima er best. Ég segi auðvitað stundum við Óla Má hversu hundleiðinlegur hann sé en fæ bara fallegt bros til baka og með því fylgir alltaf: „ég elska þig líka“.“

Gítarfingurinn fór í X-Factor

Árið 1991 varð Inga fyrsti og eini Íslandsmeistarinn í karaókí. Hún sigraði með laginu Greatest Love of All með söngkonunni sálugu Whitney Houston, í Ölveri í Glæsibæ. Hún gerði síðan garðinn frægan í hæfileikakeppninni X-Factor árið 2007 þar sem hún missti framan af fingri er hún lék í auglýsingu með öðrum keppendum. „Ég man vel að þegar ég var kynnt sem Íslandsmeistari í karaókí þá brosti ég svo mikið að mig verkjaði bak við eyrun, hughrifin voru svo mikil. Það var svo vinkona mín sem skráði mig í þessa X-Factorkeppni en sjálf vissi ég ekkert hvað þetta var. Ég komst nú alveg glettilega langt í keppninni. Þetta var mikið ævintýri en ég hefði sleppt því hefði ég vitað að ég myndi missa af fingrinum því þar fór aðalgítarputtinn minn. Aldrei fékk ég neinar bætur fyrir.

Ég er voðalega hvatvís og ef ég tek eitthvað að mér, sérstaklega ef ég held að það sé eitthvað skemmtilegt, þá fær mig ekkert ofan af því,“ segir Inga brosandi.

Fátækt og fötlun hindraði nám

Ingu fannst dásamlegt að komast í nám, orðin miðaldra, eftir að hafa upplifað vonbrigði í æsku þar sem ekki voru til peningar til að kosta hana til náms. Inga ætlaði sér aldrei að verða stjórnmálamaður heldur var stóri draumurinn að læra læknisfræði. „Fátæktin á heimlinu var svo mikil að það var ekki hægt að senda okkur í framhaldsskóla. Foreldrar mínir þurftu að velja á mili mín og eldri bróður míns. Hann fékk að fara þó að ég hefði grátbeðið þau um að leyfa mér að fara, mig langaði svo til að læra. En það var bara ekki hægt og það var auðvitað mjög sárt og dapurt,“ segir Inga.

„Ég hef alltaf haft mikla námsþrá og mig langaði ávallt til að verða læknir. Fötlun mín kom hins vegar í veg fyrir það og lagadeildin vildi heldur ekki sjá mig, þar rak ég mig á veggi þar sem sjónin háði mér. Í gegnum stjórnmálafræðina náði ég svo að smygla mér bakdyramegin inn í lagadeildina og kláraði hana á afmælisdegi mömmu rétt áður en ég álpaðist inn í pólitíkina.“

Algjör skömm

Þegar Inga heyrði fjallað um fjölda barna á Íslandi sem lifðu í fátækt ákvað hún að stofna stjórnmálaflokk. Hún segir skömmina sem fátæktinni fylgir vera ömurlega. „Það er algjörlega ömurleg upplifun að geta ekki keypt neitt fyrir barnið sitt og leyft því að komast í dans, tónlist, íþróttir eða tómstundir. Maður finnur algjöran vanmátt. Skömmin sem þessu fylgdi hjá mér var svo mikil að ég þorði ekki að fara í röð til að biðja um mat. En einhvern veginn þraukuðum við gegnum þetta og lifðum einhvern veginn af,“ segir Inga og heldur áfram: „Erfiðleikar okkar voru hvílíkir að ég skil af öllu hjarta þann skort sem fátækir upplifa í samfélaginu í dag. Þegar ég heyrði þessar svakalegu tölur um raunverulega fátækt barna ákvað ég að stofna stjórnmálaflokk með það að markmiði að útrýma fátækt á Íslandi. Ég sagði það við Óla og hann svaraði: „Já, já, gerðu það bara,“ og trúði því ekkert endilega. Í dag segist hann auðvitað alltaf hafa verið handviss um að ég myndi rjúka á þing.“

„Ég skil af öllu hjarta þann skort sem fátækir upplifa í samfélaginu í dag.“

Erfiður bróðurmissir

Það er ljóst á frásögn Ingu að fátæktin hefur markað djúp spor í hennar sögu. Aðspurð hver hafi verið erfiðasta lífsreynslan fram til þessa segir Inga það hafa verið bróðurmissi árið 1988. Eldri bróðir hennar, Sigurjón Helgi Ástvaldsson, drukknaði þá við annan mann við Siglunes í miklu óveðri sem skyndilega skall á. „Þarna missti ég minn albesta vin og gekk í gegnum hrikalegt áfall þegar hann dó. Þegar dauðinn kom og ástvinur fór stóð ég algjörlega tóm og varnarlaus eftir. Hann var mikill tónlistarmaður og svo ótrúlega glæsilegur maður, eiginlega allar stelpurnar skotnar í honum. Þetta hafði gríðarlega mikil áhrif á mig og þarna lærði ég að taka lífinu aldrei sem sjálfsögðum hlut. Frá þessum tímapunkti hætti ég að vorkenna sjálfri mér, brosti framan í alla og ákvað að gera allt sem mér dytti í hug,“ segir Inga.

Eftir að hafa sjálf alist upp við fátækt og erfiðleika er það einlægt markmið Ingu að útrýma fátækt á Íslandi. Mynd / Hallur Karlsson

Alltaf að berjast

Inga segir það hafa verið algjör forréttindi að hafa alist upp á Ólafsfirði og hennar draumur sé að snúa þangað aftur í ellinni. Áður en hún gerir það ætlar hún sér að útrýma fátækt á Íslandi. Hún stofnaði Flokk fólksins árið 2016 og settist ári síðar inn á þing.

„Það var svo mikil nánd, kærleikur og vinskapur þar sem ég ólst upp. Þessu fylgdi svo mikið frelsi líka. Draumurinn er að þegar ég verð gömul þá ætla ég að fara heim til Ólafsfjarðar og njóta mín í gamla húsinu mínu,“ segir Inga dreymin en snýr sér fljótt aftur að alvörunni. „Ég berst gegn fátækt á Íslandi, bæði út frá erfiðleikunum og fátæktinni sem ég upplifði í æsku og einnig vegna þeirra erfiðleika og fátæktar sem ég hef barist við sjálf með mína fjölskyldu og börn. Ég hef í rauninni alltaf þurft að berjast.“

Öryrki á ofurlaunum

Borið hefur á gagnrýni á Ingu eftir að hún settist á þing fyrir það að búa áfram í íbúð sem hún og Óli Már fengu úthlutað á vegum Öryrkjabandalagsins er þau fluttu til Reykjavíkur. Hún segir öfundina og illgirnina takmarkalausa. „Það er mjög erfitt og tekur tíma með fötlun að aðlaga sig nýju umhverfi og fyrir mér var óljóst hversu lengi ég yrði þarna á þingi. Það hefði því verið mjög erfitt að þurfa að fara annað en í staðinn fór ég fram á að borga meira í leigu á meðan ég væri öryrki á ofurlaunum. Það hefði ég aldrei þurft að gera og enginn talar um það,“ segir Inga. „Ég er hins vegar ekki öryrki sem á fullt af peningum í skattaskjóli. Vegna fötlunar hef ég leigt þarna frá 1994 og það er bara verið að reyna með öllum ráðum að ata mig auri. Ég hef baslað meira og minna alla ævi. Ég er ekkert viss um að fókið sem talar svona um mig öfundi mig líka vegna allra erfiðleikana sem ég hef upplifað. En þrátt fyrir þá og alla fátæktina er ég samt þakklát.“

„Ég brotnaði bara niður enda er ég bara mannleg. Ég skammast mín alls ekki fyrir þetta.“

Mega kalla mig grenjuskjóðu

Ingu verður heitt í hamsi þegar fjölmiðlaumræðu ber á góma sem hún telur vera oft og tíðum afar ósanngjarna í sinn garð. Hún segir Flokk fólksins lítinn flokk sem hafi unnið stóra sigra fyrir eldra fólk og öryrkja. „Við erum svo jaðarsett og fáum alveg ofboðslega litla fjölmiðlaumfjöllun. Það er alveg einstakt hvað við höfum gert en um það ríkir algjör þöggun. Ég er til vandræða og menn vilja losna við okkur. En ég er komin með svo þykkan skráp og fjölmiðlamenn virðast bara vilja skrifa með sláandi fyrirsögnum um mig,“ segir Inga ákveðin. Aðspurð um það þegar hún beygði af í beinni útsendingu kosningasjónvarps segist hún bara ekkert hafa ráðið við sig. „Það segja margir að ég hafi grátið mig inn á þing og það má alveg kalla mig grenjuskjóðu. Það er skrítið að rifja þetta upp því það var ekki til í mér að ætla að beygja af þarna en mér var eitthvað svo nóg boðið vegna allra þessara sviknu loforða og allra þessara lyga að þjóðinni. Ég brotnaði bara niður enda er ég bara mannleg. Ég skammast mín alls ekki fyrir þetta.“

„Því miður eru stjórnmálamenn gegnumheilt miklir lygarar og mér ofbýður oft slæm framkoman og rangindin.“

Þingið er fáránlegt

Inga segir Klaustursmálið fræga hafa kennt sér að ekki séu allir viðhlæjendur í pólitík vinir hennar. Hún er enn að jafna sig eftir áfallið sem hún varð fyrir. „Ég virðist vera svo mikill töffari að ég var þarna aðalumræðuefnið í langan tíma. Þetta kom mér mjög á óvart en ég mun jafna mig. Mér þykir alltaf jafnóþægilegt að horfa á þetta fólk og þurfa að vinna í návígi við það. Það ýfir alltaf upp sárin og ég tel að þau óþægindi hverfi aldrei. Helst hefði ég viljað að ég þyrfti aldrei að sjá fólkið aftur því það er því miður þannig að ég kann ekki vel við það eftir þessa upplifun,“ segir Inga sem skilur ekki mikið í Alþingi sem vinnustað.

„Því miður eru stjórnmálamenn gegnumheilt miklir lygarar og mér ofbýður oft slæm framkoman og rangindin. Hér hefur fátækt verið viðhaldið í áratugi og þetta er mannanna verk. Mér finnst svo dapurt stundum að geta ekki gert meira í því að bæta hlutina fyrir þá sem það þurfa. Á þinginu hef ég verið að berjast við vindmyllur því það er aldrei hægt að laga neitt, hvorki í góðæri né kreppu. Ég hef aldrei vitað annan eins vinnustað og þingið, það er eiginlega alveg fáránlegt.“

Ætlar að útrýma fátækt

Inga lýsir sér sjálfri sem tilfinningaríkum mannvini sem sé á sama tíma nagli. Fyrir þremur árum ætlaði hún að giftast Óla Má á nýjan leik eftir að þau tóku saman aftur en hefur ekki haft tíma til þess eftir að hún fór á þing. Aðspurð um hvert hún stefni er Inga með hugann við meistaranám í lögfræðinni en umfram allt ætlar hún að berjast áfram í því að hjálpa fátækum á Íslandi. Hún segist samt ekki ætla að hætta að vera góð móðir og amma. „Ég á ótrúlega sæta krakka og hrikalega flottan kall. Ég ætla mér að útrýma fátækt á Íslandi og mun ekki gefast upp fyrr en ég hef náð því. Þá langar mig til að verða lögmaður og komast í að hjálpa akkúrat þeim sem lenda í þeim aðstæðum sem ég hef sjálf upplifað. Þá ætla ég að halda áfram að brosa framan í óvinina því þeim veitir ekki af því.“

Lestu viðtalið við Ingu í helgarblaðinu Mannlíf.

Lesa Mannlíf

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -