Blaðamaður Mannlífs fékk að reyna þetta á eigin skinni þegar hann átti leið um Hólmavík og kom við í Krambúðinni til að versla þar hreina AB mjólk frá Örnu. Óhætt er að segja að honum hafi brugðið þegar kom í ljós að fernan kostaði 859 krónur en það er 46 prósent dýrara en Nettó selur fernuna á. Samkaup rekur bæði Nettó og Krambúðirnar sem eru 21 alls um allt land.
Mannlíf leitaði viðbragða hjá Samkaupum og fékk neðangreint svar:
„Við verðlagningu í Krambúðinni og Nettó leitumst við eftir því að hafa minni verðmun á milli búðanna þegar það kemur að svokölluðum lykilvörum, eins og á heimilsbrauði og léttmjólk. Til að vega upp á móti því er munurinn á vörum sem við flokkum ekki sem lykilvörur, eins og AB mjólk, er meiri. Þess má geta að mjólkurvörur hafa hækkað mikið í verði síðasta árið, og sérstaklega frá áramótum, og höfum við verið í samtali við birgjana okkar til að mæta þeim hækkunum sem hafa komið inn til okkar – enda vill Krambúðin vera góður kostur fyrir fólk á landsbyggðinni og mæta þörfum þeirra eins og hægt er,“ segir í svari Samkaupa.
Blaðamaður Mannlífs leitaði eftir frekari skýringum og sendi eftirfarandi póst:
„Ef AB mjólk telst ekki til lykilvara hjá ykkur því munar svona miklu á AB mjólk frá Örnu en ekki frá MS. Nú er ég eingöngu að miða við verð hjá Nettó“
„Munurinn á verðinu á milli Örnu og MS skýrist á því að innkaupsverðið frá Örnu er hærra en frá MS því miður.“
Enn hélt blaðamaður Mannlífs áfram:
„Það sem ég skil ekki og er að reyna að fá svar við er af hverju munurinn á þessum tveimur vörutegundum er svona mikill. Ég geri mér grein fyrir því að innkaupsverðið er ekki það sama og er vön verðmun á þeim í öðrum verslunum til dæmis er 70 króna munur í Krónunni.
Þetta passar ekki við að þetta skýrist eingöngu af mismun á innkaupsverði.“
Enn hefur ekki borist svar frá Samkaupum varðandi síðustu fyrirspurn.