Ein af grunnstoðum lýðræðis er að menn séu ábyrgir gerða sinna. Þeir sameinist um að setja lög og fara eftir þeim. Í nýjum frumvarpsdrögum dómsmálaráðherra er vegið að einum stólpa þessa óskrifaða samkomulags. Þar er nefnilega gert ráð fyrir að dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni verði ekki birtir. Menn sem gerast sekir um kynferðisbrot, ofbeldi gagnvart sínum nánustu, kaup á vændi, fá á sig nálgunarbann og fleira verða því hvergi nefndir á nafn.
Tilgangur dómsmálaráðherra er, að sögn, að tryggja persónuvernd í viðkvæmustu málum og ekki bara forðast að nefna nöfn heldur líka að búa svo um hnúta að ekki verði hægt að þekkja menn af atvikalýsingum eða öðrum atriðum. Ráðherra vill því birta útdrátt úr niðurstöðum dómara á æðri dómstigum. Hingað til hafa Landsréttur og Hæstiréttur birt dóma sína að fullu og nöfn sakaraðila verið tilgreind í þeim. Í umræðunni hefur komið fram að verið sé að vernda þolendur og aðra er málunum tengjast með þessu móti, t.d. að unglingar eða börn sem brotið hafi verið á eigi ekki að þurfa að þola að um aldur og ævi sé hægt að fletta upp nöfnum þeirra og sjá hvað ofbeldismaðurinn gerði og þar fylgi umsagnir um andlega heilsu og jafnvel líkamstjón. Sömuleiðis að birtar séu viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um fatlaða brotaþola. Þessi sjónarmið eru skiljanleg en eiga þau að eiga við um brotamanninn?
Þess vegna er ekki hægt að verjast þeirri hugsun að verið sé að ganga of langt. Á almenningur ekki rétt á verja sig? Obeldismenn, einkum þeir sem beita kynbundnu ofbeldi, skilja iðulega eftir sig slóð þolenda. Til dæmis er velþekkt að barnaníðingar sækist eftir störfum þar sem þeir vinna með eða í samneyti við börn. Mögulegt er að nýja frumvarpið geri vinnuveitendum erfiðara fyrir að grennslast fyrir um hvort umsækjendum í störf á því sviði sé treystandi. Í skjóli nafnleyndar geta ofbeldismenn einnig falið slóð sína jafnvel þótt á þeim hvíli nálgunarbann. Sömuleiðis eru veigalítil rök fyrir að hafa nafnleynd í vændiskaupamálum af tilliti við aðstandendur, þar eru bara gerðir hins brotlega honum til vansa og aðrir bera ekki ábyrgð eða álitshnekki þess vegna. Við megum ekki gleyma að gerendur í kynferðisbrotamálum bera ábyrgðina og skömmina.
Þessi mikla hömlun á upplýsingagjöf frá dómstólum gerir fjölmiðlamönnum einnig erfiðara fyrir að fjalla um mál. Það er erfitt að flytja fréttir af sakamáli þegar atvikalýsingar vantar. Á Íslandi hafa fjölmiðlar farið mjög varlega í nafnbirtingum í sakamálum og hér er mun minna gert af því en úti í heimi. Flestir birta eingöngu nöfn eftir að dómur fellur og í alvarlegum málum þegar ætla má að það varði öryggi almennings. Útdráttur verndar því fyrst og fremst brotamanninn og gerir honum kleift að komast undan því að bera fulla ábyrgð á gerðum sínum. Er það vilji löggjafans?