Laugardagur 16. nóvember, 2024
-0.1 C
Reykjavik

„Að klúðra fyrstu skiptunum sínum er fullkomlega eðlilegt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikarar og höfundar leikverksins Fyrsta skiptið segja að í upphafi hafi verið erfitt að deila vandræðalegum reynslusögum með mótleikurum sínum.

Á sunnudaginn verður fyrsta verk ársins í Gaflaraleikhúsinu frumsýnt, grínleikritið Fyrsta skiptið. Höfundar eru fimm, þau Berglind Alda Ástþórsdóttir, Inga Steinunn Henningsdóttir, Arnór Björnsson, Mikael Emil Kaaber og Óli Gunnar Gunnarsson og leika þau sjálf í verkinu. Leikstjóri er Björk Jakobsdóttir.

„Fyrsta skiptið er fyrst og fremst grínleikrit. Við segjum frá fyndnum reynslusögum ásamt því að hoppa inn á milli í leiknar senur. Við notumst mikið við myndlíkingar og tæklum þar af leiðandi umræðuefnið á hlægilegan hátt. Við túlkum til dæmis fyrsta kynlífið sem íþrótt og fyrsta sleikinn túlkum við í dans,“ útskýra þær Berglind og Inga þegar þær eru beðnar um að lýsa verkinu.

„Við túlkum til dæmis fyrsta kynlífið sem íþrótt og fyrsta sleikinn túlkum við í dans.“

„Verkið fjallar fyrst og fremst um alls konar vandræðaleg fyrstu skipti sem allir ættu að kannast við. Til dæmis fyrsta kossinn, fyrstu kynlífsreynsluna, fyrstu sjálfsfróunina og fyrstu sambandsslit. Við fjöllum síðan um þessi fyrstu skipti á skemmtilegan og snyrtilegan máta þar sem við gerum mikið grín af hugmyndinni um þessi týpísku fullkomnu fyrstu skipti. Þessi snilldarhugmynd kom upprunalega frá leikstjóranum okkar,“ segir Berglind.

Höfundar verksins byggja verkið á sinni eigin reynslu og sögum frá vinum. „Leikritið er fyrst og fremst byggt á sönnum sögum og þá aðallega frá okkur sjálfum og góðum vinum. Okkur finnst mikilvægt að sögurnar sem við segjum frá í verkinu séu sannar því markmið okkar er einmitt að sýna áhorfendum að ekkert fyrsta skipti er í raun og veru fullkomið, lífið er ekki Hollywood-bíósena þar sem er alltaf rómantísk rigning og dúfur út um allt! Við vonum líka að fólk sjái að þetta þarf alls ekki að vera svona mikið feimnismál…að klúðra fyrstu skiptunum sínum er fullkomlega eðlilegt og í staðinn fyrir að skammast sín þá ætti maður frekar að hlæja að þessu,“ útskýrir Inga.

„Leikritið er fyrst og fremst byggt á sönnum sögum og þá aðallega frá okkur sjálfum og góðum vinum.“

Berglind og Inga viðurkenna að það hafi verið erfitt að deila reynslusögum sínum í upphafi ferlisins. „Þegar við byrjuðum að skrifa leikritið var fyrsta skrefið að deila okkar eigin sögum og það var örugglega erfiðasti hlutinn af ferlinu. Maður þurfti einhvern veginn að opna sig algerlega og drita út vandræðalegum reynslusögum. En okkur tókst svo sannarlega að tækla þetta vel því við tókum þessar vandræðalegu sögur og gerðum úr þeim sprenghlægilegar senur. Maður lærði því fljótlega að hafa húmor fyrir sjálfum sér og það skemmtilegasta sem leikhópurinn gerir núna er að liggja í hláturskasti yfir þessum sögum okkar.“

Þess má geta að sýningin er ætluð fyrir 12 ára og eldri.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -