Það kann að hljóma undarlega að tjalda innandyra og hvað þá í gróðurhúsi! Þeir sem það hafa prófað, á Kleppjárnsreykjum nánar tiltekið, segja það nú ekki svo galið. Einkum og sér í lagi þegar ringnir eða þegar kólna tekur í veðri.
Hverinn, tjaldsvæðið á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði, býður upp á gistingu í „Hobbita-húsum“ en það eru upphituð gróðurhús og inni í þeim má koma fyrir litlum tjöldum. Gróðurhúsin eru vissulega upphituð með jarðvarma enda svæðið þekkt fyrir mikinn jarðvarma og vatnsmikla hveri sem sumir hverjir eru heimsþekktir. Þ.e. Deildartunguhver sem er sá vatnsmesti á Íslandi.
Hobbitahúsin eru með grasbotni sem vökvaður er reglulega og sleginn. Skemmtilega öðruvísi og kjörið sem veðurskjól þegar illa viðrar.