Föstudagur 29. nóvember, 2024
-7.2 C
Reykjavik

„Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum”

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Mér finnst ekkert svo stressandi að taka að mér að syngja þessi lög, þó þau séu svona vel þekkt og að vafalaust eigi flestir sína uppáhaldsflytjendur,” segir söngkonan Kristín Stefánsdóttir. Hún heldur tónleika til heiðurs Burt Bacharach í Salnum í Kópavogi þann 20. apríl, í tilefni af níræðisafmæli tónlistarmannsins þann 12. maí.

„Ég tengi mjög vel við þessi lög og skilaboðin í þeim og geri þau að mínum með því að mála myndina í huganum af sögunni sem verið er að segja. Þegar svona dásamleg tónsmíð rammar svo inn söguna er óhjákvæmilegt annað en að tengjast á sinn eigin hátt. Aðalgaldurinn er að þora að fara í hjarta sitt og opna það fyrir öðrum þannig að þeir geti tengst sínu hjarta í gegnum flutninginn,” segir Kristín, en meðal laga sem munu hljóma í Salnum eru The Look of Love, I Say a Little Prayer og What the World Needs Now.

Algjör suga á tónlist

„Mér finnst eins og lög Burt Bacharach séu svolítið samofin uppvexti mínum, á þann hátt á ég minningar af þessum lögum en ég var algjör suga á alls konar tónlist í uppvextinum. Lögin hans eiga það sameiginlegt að vera melódísk og þægileg fyrir eyrað en hafa einnig skýra sögu eða skilaboð sem ég held að sé líka galdurinn að vinsældunum. Maður á sterkar minningar af lögum eins og What the World Needs Now, That’s What Friends Are For, Close to You og Say a Little Prayer, svo fátt eitt sé nefnt. En það kom mér á óvart þegar ég fór að vinna þetta prógramm hvað hann á líka mörg ofboðslega falleg lög sem maður hafði sjaldan eða jafnvel aldrei heyrt. Þá gæti ég nefnt lög eins og Alfie, Who Will Speak for Love, Love’s the Answer og svona hádramatísk lög eins og This House is Empty Now. Lögin hans eru svo ljúf og fjalla flest öll á einn eða annan hátt um ástina og munum við kappkosta að koma þeim skilaboðum eins fallega og við getum til skila,” segir þessi hressa söngkona.

Fann kjólinn í útlöndum

Kristín er búin að leggja mikla vinnu í að skipleggja tónleikana og kom tónleikakjóllinn uppí hendurnar á henni fyrir utan landsteinana.

- Auglýsing -

„Mér finnst stundum eins og ég sé að búa til listaverk þegar ég skipulegg svona tónleika. Öll smáatriði fæðast í huganum og verða svo að einni heild. Mikilvægur þáttur í þeirri mynd er auðvitað klæðnaðurinn. Mér fannst eins og klæðnaður minn þyrfti að vera í samræmi við orkuna í lögunum bæði í lit og mýkt. Þegar ég var svo í fríi í útlöndum í janúar kom rétti kjóllinn í fangið á mér. Mér fannst eins og þetta væri akkúrat kjóllinn sem hæfði lögunum; bæði rómantískur og mjúkur. Það skiptir miklu máli að líða vel í fötunum sem maður syngur í,” segir söngkonan og hlakkar mikið til tónleikanna, en auk grunnbands verða á sviðinu sex manna blásarateymi, fjögurra manna strengjasveit, þrjár bakraddir og Hreimur Örn Heimisson er gestasöngvari.

„Það hefur lengi blundað í mér að syngja lög eftir Burt Bacharach. Eftir að ég sá hann í Hörpu fyrir nokkrum árum fór myndin að taka á sig skýrara form og þegar ég svo flutti lagið The Look of Love á tónleikum í Noregi í fyrrasumar ákvað ég að nú myndi ég láta þennan draum rætast á nítugasta afmælisári tónlistarmannsins. Hlynur Þór Agnarsson píanóleikari, samþykkti að taka að sér útsetningar og hljómsveitarstjórn og við lögðumst í hugmyndavinnu. Það kom ekkert annað til greina en að gera þessum lögum góð skil og fá með okkur einvala lið tónlistarmanna,” segir Kristín og bætir við:

„Það sem ég held að muni koma áhorfendum mest á óvart er hvað þetta verður stór og flottur viðburður. Við verðum alls nítján manns að flytja tónlistina þar sem valinn maður er í hverju rúmi. Einnig munum við vera með ýmsan fróðleik um Burt Bacharach; ævi hans og lífshlaup og fjalla um þá sem sömdu með honum tónlistina og textana. Við söngvararnir fimm munum svo hjálpast að við syngja lögin eftir því sem okkur finnst hæfa hverju lagi fyrir sig. That´s what friends are for…”

- Auglýsing -

Mynd / Úr einkasafni

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -