Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Aðdáun stelpnanna réði úrslitum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Helgi Björnsson, sjálfur Holy B, er orðinn sextugur og hefur verið í sviðsljósinu, bæði sem söngvari og leikari, í 45 ár. Hann segist hafa ákveðið það strax í æsku að verða annaðhvort poppstjarna eða atvinnumaður í fótbolta og valið hafi verið auðvelt eftir að hann sá hvað stelpurnar hrifust miklu meira af gítarleik hans og söng heldur en sprikli á fótboltavellinum.

Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.

Þegar ég hringi í Helga og falast eftir að fá að hitta hann á kaffihúsi og spjalla segist hann helst ekki vilja að viðtalið fari fram á kaffihúsi, þar verði hann fyrir of miklu áreiti. Er erfitt að vera frægur á Íslandi?
„Ég meinti nú ekki áreiti í neikvæðum skilningi,“ flýtir Helgi sér að útskýra. „En, jú, jú, það eru alltaf margir sem maður þarf að heilsa og spjalla aðeins við. Reykjavík er náttúrlega bara lítið þorp þar sem allir þekkjast og fólk vill vita hvað er að frétta af mömmu og hvað ég ætli að fara að gera og svo framvegis. Maður fær ekkert áreiti eins og maður sér hjá heimsfrægum stjörnum úti í heimi en það er forvitni og það er verið að fylgjast með manni. Ég er reyndar löngu hættur að pæla í því en þetta er samt alltaf þrýstingur. Þótt þú reynir að slökkva á þessu og taka ekki eftir því þá er það til staðar og það hefur áhrif á mann.“

Fermingardrengir miðað við bankamenn
Helgi hóf tónlistarferilinn vestur á Ísafirði á unglingsárum og hann segir eiginlega aldrei hafa komið til greina að velja annan starfsvettvang en tónlist og leiklist.
„Ég man eftir því að þegar ég var sirka tíu ára gamall var ég alveg ákveðinn í því að annaðhvort ætlaði ég að verða atvinnumaður í fótbolta eða poppstjarna. Ég spilaði með yngri flokkunum á Ísafirði en þegar þeir fóru að hlaupa úti í snjónum alla daga en ég gat setið inni í æfingahúsnæði með gítarinn og stelpurnar hópuðust fyrir utan til að hlusta en litu ekki við þeim, var alveg ljóst hvað ég vildi frekar leggja fyrir mig.“
Var það sem sagt aðdáun stelpnanna sem leiddi þig út í tónlistarferilinn? „Að sjálfsögðu!“ segir Helgi og skellihlær. „Á þessum aldri, 13 til 16 ára, þá var það engin spurning, það var aðdáunin sem maður sóttist eftir.“
Talandi um það leiðist talið að því orðspori um sukklíferni sem fer af poppbransanum, hefur það tekið sinn toll í lífi Helga? „Nei, það held ég nú ekki,“ segir hann. „Það er glaumur og gleði oft og tíðum, en ég hef sem betur fer borið gæfu til þess að sigla fram hjá stærstu skerjunum og stranda ekki í þeim ólgusjó. Svo er þetta líka orðum aukið. Ég held til dæmis að það sé meiri glaumur og gleði hjá bankamönnum í dag heldur en nokkurn tímann hjá poppurum. Við erum algjörir fermingardrengir í samanburði við þá.“

Sér ekki eftir neinu
Spurður hvort poppstjörnulífið hafi verið eins skemmtilegt og hann ímyndaði sér sem unglingur þegir Helgi um stund og hugsar málið. „Að hafa fengið tækifæri til að fást við tónlist er náttúrlega algjör gjöf,“ segir hann svo. „Það er engin spurning. Tónlistin er frumafl og tengist auðvitað frumöskrinu og þessi tjáning í gegnum tóna, röddina og síðan hljóðfærin, gefur þér alltaf eitthvað. Ekkert skrýtið að tónlistin sé notuð bæði á sorglegustu og gleðilegustu stundum lífsins. Að hafa fengið tækifæri bæði til að tjá sig í tónlist og vera í kringum tónlistarmenn er bara alveg yndislegt. Þannig að ég þakka fyrir það.“
Og sérð ekki eftir neinu?„Nei, ég get ekki sagt það. Auðvitað vill maður alltaf gera eitthvað betur, en það felst þá meira í einhverjum smáatriðum og ég sé ekki eftir neinu í stóru dráttunum. Alls ekki.“
Hvað er eftirminnilegast, hverju ertu stoltastur af?„Ég bara veit það ekki,“ segir Helgi hugsi. „Ég reyni að horfa meira fram á við heldur en að gleyma mér í fyrri verkum. Ég er mjög stoltur af sólóplötunum mínum tveimur, þar sem ég flyt frumsamið efni. Það er nær manni og maður er kannski á einlægari nótum á þeim.“

Fór út fyrir þægindarammann
Tónlistarferill Helga er ansi víðfeðmur og spannar alls konar tónlistargreinar, var ekkert erfitt fyrir rokkgoðið og kyntáknið Helga Björns að skella sér í hvítan dinner-jakka og fara að syngja lög Hauks Morthens, til dæmis? „Nei, nei, alls ekki. Maður er náttúrlega líka leikari og getur brugðið sér í ýmis hlutverk. Og þegar maður er farinn að þykkna aðeins um miðjuna færist aðeins meiri ró og æðruleysi yfir mann og maður er ekki eins hégómagjarn og þegar maður var ungur. Ég hafði sungið frumsamin lög í tíu, tuttugu ár þegar ég fór að gera „cover“ af lögum annarra og þá fannst mér ástæða til að leyfa söngvaranum að takast á við smááskoranir. Þar fór ég út fyrir minn þægindaramma og fór að gera alls konar hluti sem síðan reyndust bara rosalega skemmtilegir.“
Skiptir poppstjörnuhlutverkið þá ekki öllu máli þegar upp er staðið? „Sko,“ segir Helgi og dregur djúpt andann. „Ef maður er í þessu starfi á annað borð, vill maður auðvitað að fólk hlusti á mann og hafi áhuga á því sem maður er að gera. En ég gengst ekki upp í því að vera eitthvað ædol. Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni. Ég held að allir listamenn þekki það.“

„Ég er frekar feiminn og mér finnst það oft óþægilegt þegar ég verð of mikill miðpunktur. Það er alltaf þessi barátta. Maður vill fá aðdáun og eftirtekt en svo vill maður ekki of mikið af henni.“

Helgi Björns hefur engu gleymt.

Áttu ekki að verða eldri en þrítugir
Hvort sem Helga líkar það betur eða verr þá er hann ædol í rokkbransanum, finnst honum ekkert erfitt að eldast í bransanum? „Ég veit ekki hvort ég er eitthvert ædol,“ segir Helgi, hálfpirraður á þessari spurningu. „Mér finnst enn gaman að koma fram og gera nýja rokktónlist en auðvitað er erfitt að eldast í þessum bransa. Það er engin spurning. Þessi listgrein verður upphaflega til hjá ungu fólki og á fyrstu árum rokksins átti helst enginn að verða eldri en þrítugur, helst ekki eldri en 27. Þá áttu menn bara að stimpla sig út. Þannig að það er ekkert endilega gert ráð fyrir að menn eldist í þessu. Hins vegar eru Stones og fleiri búnir að gefa okkur alls konar dæmi um það að þetta er alveg hægt. Það sem er skrýtið hér í okkar litla samfélagi er að fámennið gerir það að verkum að ef einhver hefur verið fyrir augunum á þér í þrjátíu ár ertu eiginlega búinn að fá alveg nóg af honum, sem er ósköp eðlilegt. Það er alltaf þessi krafa um að fá nýtt fólk inn, nýjar persónur og leikendur til að fylgjast með í fjölmiðlunum. Á móti kemur að þegar þú verður eldri öðlastu meiri virðingu fyrir lífsstarfið, eða þannig er það erlendis, en hér eru allir bara einhvern veginn búnir að fá nóg af þér; kemur hann einu sinni enn … Þetta er stundum svolítið pirrandi en maður skilur forsendurnar á bak við þetta og tekur það ekki nærri sér.“
Það eru greinilega ekki allir búnir að fá nóg af Helga Björns, eins og miðasala á tónleikana á laugardaginn sýnir best. Datt honum í hug þegar hann var 16 ára með poppstjörnudrauma að hann myndi fylla Laugardalshöllina á sextugsafmælinu? „Nei, maður var nú ekkert að spá í það,“ segir Helgi og glottir. „Ég var meira að hugsa um Wembley á þeim tíma. Þannig að ég hef kannski ekki alveg náð takmarkinu.“

- Auglýsing -

Myndir / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -