Fimmtudagur 14. nóvember, 2024
6.6 C
Reykjavik

Aðfluttir á Spáni uggandi vegna verkjalyfs

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nolotil er vinsælt verkjalyf á Spáni, sem er ávísað á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum og jafnvel hægt að nálgast án lyfseðils. Vísbendingar eru um að áhættan á alvarlegum aukaverkunum sé mismikil milli einstaklinga, mögulega vegna erfða, og hefur ferðamönnum verið ráðið frá því að nota lyfið.

Nokkur umræða er meðal Íslendinga á Spáni um lyfið Nolotil, m.a. á Facebook. Nolotil virðist í einhverjum tilvikum mega nálgast án lyfseðils á Spáni en þá er því einnig ávísað, bæði á heilsugæslum og sjúkrahúsum, við verkjum og hita. Umræðan snýr að öryggi lyfsins en það getur m.a. valdið kyrningaþurrð (e. agranulocytosis); fækkun og skorti á hvítum blóðkornum, og leitt til blóðeitrunar og jafnvel dauða. Virka efnið í lyfinu er metamizole og hafa mörg ríki takmarkað eða bannað notkun þess vegna þess hve aukaverkanirnar geta verið alvarlegar.

The Times greindi frá því í ágúst 2018 að a.m.k. tíu Bretar hefðu látist eftir notkun Nolotil, sem er eitt vinsælasta verkjalyfið á Spáni. Fjöldi Breta býr þar í landi og samkvæmt Times höfðu fleiri en 100 Bretar og Írar upplifað alvarlegar aukaverkanir vegna notkunar lyfsins. Í umfjöllun blaðsins er m.a. sagt frá Graeme Ward, 75 ára, sem missti eiginkonu sína Mary í mars árið 2006, eftir að hún greindist með kyrningaþurrð og aðra fylgikvilla í kjölfar notkunar á Nolotil. Lyfinu fékk hún ávísað á einkastofu í Alicante. Þá segir einnig frá William Smyth, 66 ára Íra, sem lést af völdum blóðeitrunar og líffærabilunar eftir að hafa verið ávísað Nolotil vegna axlarverkja.

Metamizole ekki verið í sölu á Íslandi

Cristina Garcia del Campo, löggiltur skjalaþýðandi í Alicante, hóf að rannsaka málið eftir að hún komst að því að fjöldi Breta og Íra á Costa del Sol og Costa Blanca höfðu þjáðst af blóðeitrun. Þeir áttu eitt sameiginlegt: að hafa notað Nolotil. „Hjá sumum höfðu útlimir verið fjarlægðir og þeir lifað. Aðrir dóu. Breskt fólk á ekki að taka þetta lyf. Sumir þola það en áhættan er of mikil,“ sagði hún í samtali við Times.

Lyfjayfirvöld á Spáni hafa bannað ávísun Nolotil til ferðamanna og hafið rannsókn á því hvort einstaklingar frá norðurhluta Evrópu séu viðkvæmari fyrir lyfinu en þeir sem búa sunnar. Rannsóknir á metamizole hafa skilað ólíkum niðurstöðum hvað varðar áhættuna á kyrningaþurrð; á milli einn af milljón og einn af 1.439. Samkvæmt rannsókn frá 2013 má rekja þennan mun til þess hvar í heiminum rannsóknirnar voru framkvæmdar og þá kann að vera að erfðir eigi hlut að máli.

Mannlíf leitaði upplýsinga um Nolotil og metamizole hjá Landlæknisembættinu og Lyfjastofnun. Samkvæmt svörum frá landlæknisembættinu hafa engar ábendingar verið skráðar varðandi metamizole og samkvæmt upplýsingum frá Lyfjastofnun eru engin lyf á markaði hérlendis sem innihalda metamizole. „Við skoðuðum auk þess sölu undanþágulyfja aftur til ársins 2011 og við sjáum ekki að lyf með þessu virka efni hafi verið notuð hér á landi,“ segir í svarinu frá stofuninni. Þar sagði sömuleiðis að stofnunin hefði ekki tekið afstöðu til metamizole, t.d. hvað varðar öryggi, og þá væri enginn þar innanhúss sem þekkti til þess.

- Auglýsing -

Læknar án landamæra mæla gegn notkun metamizole

Á Spáni er Nolotil markaðssett sem valkostur við íbúprófen og parasetamól og gjarnan notað við verkjum og hita. Það fæst enn afgreitt án lyfseðils þrátt fyrir að það hafi verið bannað. Að sögn Garcia er vandamálið m.a. að spænskir heilbrigðisstarfsmenn telja lyfið enn öruggt, þrátt fyrir vísbendingar um annað. Í júlí 2019 sagðist hún hafa safnað upplýsingum um 200 Breta og Íra sem hefðu orðið fyrir alvarlegum aukaverkunum í tengslum við notkun Nolotil og þar af væru 20 dauðsföll.

Í baráttu sinni gegn almennri notkun lyfsins hefur Garcia notið stuðnings miðilsins The Olive Press, sem er á ensku og ætlaður aðfluttum íbúum Spánar. Málflutningur þeirra fær m.a. vigt frá samtökunum Læknum án landamæra og samantekt Sameinuðu þjóðanna yfir lyf sem eru ýmist bönnuð, ósamþykkt eða sæta takmörkunum í einhverjum ríkja heims.

- Auglýsing -

Á heimasíðu Lækna án landamæra segir m.a. að metamizole eigi aðeins að ávísa sjúklingum sem eru undir eftirliti og að þar sem aukaverkanir séu alvarlegar og aðrir öruggari valkostir séu til, eigi aðeins að ávísa lyfinu þegar önnur úrræði eru fullreynd. Samtökin segja einnig að nota eigi lyfið í eins skamman tíma og mögulegt er en það geti valdið kyrningaþurrð, sem getur leitt til dauða, án tillits til skammtastærðar. Þá er ítrekað að lyfið sé ekki á lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar yfir nauðsynleg lyf.

Nolotil er framleitt af Boehringer Ingelheim, einum stærsta lyfjaframleiðanda í heimi og þeim stærsta í einkaeigu. Talsmaður fyrirtækisins sagði í samskiptum við Times að metamizole væri fáanlegt undir ýmsum lyfjaheitum í Evrópu. Það ætti ekki að selja án ávísunar. Ekkert benti til þess að ákveðnir hópar væru líklegri en aðrir til að upplifa aukaverkanir.

Fjallað er um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -