„Hópur manns stendur fyrir utan deild sjúkrahússins og ætlar með öllum ráðum að draga barnið út gegn vilja sínum og færa í hendur föður sem það óttast og hefur eindregið hafnað samskiptum við. Barnavernd Reykjavíkur, Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu og lögreglan standa að þessari aðgerð. Lögmaður móður hefur reynt að skýra stöðu barnsins en engu tauti er komið við þessa aðila,“ segir í tilkynningu sem Líf án ofbeldis birti á Facebook-síðu sinni nú í hádeginu. Staðfesti Guðmundur Pétur Guðmundsson, lögreglufulltrúi, í samtali við Mannlíf að lögregla væri á svæðinu, til aðstoðar Barnaverndar. Þá kemur fram í tilkynningunni að barnið vilji ekki búa hjá föður sínum og hafi ávallt reitt sig á umönnun móður.
„Með aðgerðinni ætla yfirvöld að knýja fram úrskurð um lögheimili barns hjá föður gegn vilja barnsins. Rökstuddur grunur er um langvarandi andlegt og líkamlegt ofbeldi föðurins gagnvart börnunum og móður þeirra. Framkvæmd aðfarar í andstöðu við vilja barnsins er án undantekningar til þess fallin að skapa gríðarlegt tilfinningalegt álag fyrir barnið sem er langveikt og hefur ávallt reitt sig alfarið á umönnun móður sinnar. Mikil hætta er á að barnið hljóti óbætanlegan skaða af. Við fordæmum með öllu þetta skeytingarleysi gagnvart hagsmunum barna með fyrirhugaðri aðgerð og hrottalega framkomu stjórnvalda gagnvart þolendum ofbeldis.“
„Barnið er nógu þroskað til þess að tjá vilja sinn og það brýtur í bága við grundvallarreglu barnaréttar, samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna (12,gr.) og íslenskum barnalögum um rétt barns til að tjá sig (43.gr.) að horfa framhjá honum. Hæstiréttur hefur staðfest, með tilliti til stjórnarskrárvarins réttar barns til fjölskyldulífs (1. mgr. 71. gr.), að ætíð skuli meta hvað barni er fyrir bestu út frá hagsmunum barnsins og rétti þess til einkalífs og friðhelgi sem einnig er varinn af íslenskri stjórnarskrá (3. mgr. 76. gr.).“