Halldóra Jónasdóttir, áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ, segir fíknisjúkdóma hafa mikil áhrif á aðstandendur þeirra einstaklinga sem glíma við fíkn. Streitan sem myndast innan fjölskyldna vegna fíknisjúkdóma getur orðið til þess að aðstandendur verða veikir og finna fyrir líkamlegum kvillum vegna álags.
Undanfarið hafa fíknisjúkdómar verið mikið í umræðunni og stundum hefur verið talað um að fíknifaraldur geisi hér á landi. Á árinu 2018 voru innlagnir á sjúkrahúsið Vog 2.275 og í byrjun árs voru um 570 einstaklingar á biðlista eftir innlögn vegna fíknisjúkdóma.
Fíknisjúkdómar hafa mikil áhrif, ekki bara hjá þeim einstaklingum sem glíma við sjúkdóminn heldur einnig hjá aðstandendum þeirra.
Halldóra Jónasdóttir er áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ. Hún hefur í gegnum tíðina haldið utan um fjölskyldumeðferðir SÁÁ og þekkir vel hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa á aðstandendur þess einstaklings sem glímir við fíkn.
Spurð út í fjölskyldumeðferðir SÁÁ segir Halldóra: „Við höldum námskeið tvisvar í viku í fjórar vikur í senn fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma. Það eru lokuð námskeið en svo bjóðum við líka upp á viðtalsþjónustu. Á Vogi eru svo sérstakir foreldrahópar fyrir foreldra þeirra unglinga sem eru að glíma við fíkn. Þar er boðið upp á fræðslu og hópstarf.“
Í þessu starfi SÁÁ er fólk frætt almennt um fíknisjúkdóminn, áhrif hans og meðvirkni að sögn Halldóru.
„…breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum.“
„Það er gott fyrir aðstandendur fólks með fíknisjúkdóma að hittast og ræða saman. Það sem gerist oft er að aðstandendur verða mjög uppteknir af fíklinum og ástandinu. Ég segi stundum að fjölskyldur séu eins og órói; breytingin sem verður á fíklinum verður til þess að jafnvægið í fjölskyldunni fer úr skorðum og aðstandendurnir fara að leitast við að ná einhverju jafnvægi. Þá getur verið gott að ræða við aðra sem eru í svipuðum sporum.“
Beðin um að lýsa nánar því sem gerist gjarnan hjá aðstandendum og ástvinum þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma segir Halldóra: „Það sem gerist oft er að það skapast mikið streitu- og spennuástand. Hegðun þess sem er í neyslu, það er alveg sama hvort það er foreldri, barn, maki eða einhver annar, skapar mikið óöryggi hjá fólkinu í kring. Aðstandendur fara þá oft í það að reyna að hafa stjórn á þeim sem er að glíma við fíkn og þannig skapast mikil spenna.“
Halldóra segir hræðslutilfinningu vera algenga hjá aðstandendum þess sem er í neyslu. „Hræðsla um að viðkomandi fari sér að voða.“
„Alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar“
Halldóra segir það vissulega vera breytilegt eftir aðstæðum hvaða áhrif fíknisjúkdómar hafa innan fjölskyldna. „Það skapast auðvitað ólíkar aðstæður eftir því hvernig einstaklingurinn hagar sér undir áhrifum og eftir því á hvaða aldri viðkomandi er. En alltaf skapast þessi spenna innan fjölskyldunnar.“
Aðstandendur þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma setja sjálfan sig gjarnan í annað sæti að sögn Halldóru. „Fólk verður stöðugt upptekið af líðan og hegðun annarrar manneskju. Sama hver hún er. Svo fer fólk að reyna að stjórna líðan og hegðun einstaklingsins og þá fer fólk smátt og smátt að setja sjálfan sig til hliðar.“
Halldóra tekur fram að ráðgjafar SÁÁ geti ekki sagt fólki hvað sé nákvæmlega hægt að gera í þeim erfiðu aðstæðum sem hafa myndast. „Oft er fólk orðið svo þreytt og vill bara fá einhvern leiðarvísi en við eigum hann ekki til. Það sem hjálpar fólki þó mikið er að hitta annað fólk í sömu stöðu og ræða hlutina. En auðvitað getur verið rosalega sárt og vont að fá þetta svar; að það sé engin ein lausn til.“
„Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“
Halldóra segir ómögulegt að segja að eitthvað sé rétt eða rangt í þeirri stöðu sem myndast þegar ástvinur er farinn að misnota áfengi eða fíkniefni. „Það er ekkert endilega eitthvað rétt eða rangt sem fólk getur gert því ástandið er svo einstaklingsbundið. Við segjum fólki t.d. ekki að henda börnunum sínum eða mökum út af heimilinu ef neyslan er farin úr böndunum hjá viðkomandi. Fólk verður bara að meta hlutina hjá sjálfu sér og skoða hvar það treystir sér til að setja mörkin.“
Hvað mörk varðar segir Halldóra oft vera vandasamt að finna jafnvægi. „Fólk vill vera góður við þann sem er í neyslu án þess að ýta undir hegðunina. Fólk vill hjálpa ástvinum sínum en kannski ekki gera of mikið fyrir hann. Í þessu samhengi erum við að tala um fólkið sem okkur þykir vænst um en það verður svo mikil skekkja í samskiptum þegar annar aðilinn er í neyslu og traustið er gjarnan farið.“
Skömm algeng tilfinning
Halldóra segir algengt að aðstandendur haldi að þeir geti með einhverjum aðferðum komið í veg fyrir að ástvinur þeirra misnoti áfengi eða lyf eða að neyslan sé þeim að kenna. „Algengt sé að foreldrar kenni sér um neyslu hjá unglingunum sínum og reyni að finna einhverja ástæðu fyrir að unglingurinn fór út í neyslu. Fólk reynir að skilja hvað það gerði vitlaust. Á sama tíma reyna sumir foreldrar að telja sér trú um að þetta sé kannski eðlilegt, að allir unglingar séu að gera þetta.“
Halldóra segir skömm líka vera algenga tilfinningu hjá aðstandendum. „Þegar fólk skammast sín er hætta á að það leiti sér ekki hjálpar eða stuðnings og fari frekar að fela ástandið. Skömmin veldur því svo oft að fólk leitar sér ekki hjálpar fyrr en allt er komið í þrot.“
Markmiðið er að fræða
Spurð út í hvert markmiðið með fjölskyldumeðferð SÁÁ sé segir Halldóra: „Markmið okkar er að fræða fólk um fíknisjúkdóma og meðvirkni og að hjálpa því að átta sig á að það er ekki því að kenna að fólkið þeirra er í neyslu. Að það fái þá vitneskju um að þetta er sjúklegt ástand sem myndast. Meðvirkni er ekki skilgreind sem sjúkdómur en það er sjúklegt ástand og aðstandandinn getur orðið veikur. Það geta meira að segja komið fram líkamleg einkenni eftir alla streituna. Markmiðið er að fólk fái fræðslu og upplýsingar og geti unnið sig út frá því. Það hjálpar yfirleitt mjög mikið.“
Halldóra segir samtal geta gert ótrúlega hluti. „Að tala við einhvern getur breytt mjög miklu. En það er ekki þar með sagt að allt sé orðið gott aftur og ástandið lagist. En það er vissulega gott að fá upplýsingar.“
Upplýsingar um fjölskyldumeðferð SÁÁ er að finna á vef samtakanna.
Mynd / Hákon Davíð Björnsson