Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.3 C
Reykjavik

Æskuvinkona Viktoríu hágrét í símtali frá Úkraínu: „Hún sagðist ekki vera tilbúin til að deyja“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég er búin að vera voðalega dauf ef ég á að vera alveg hreinskilin. Það er hræðilegt að horfa upp á þetta og vera hér og geta ekkert gert. Ég er í tilfinningalegum rússíbana; ég finn fyrir mikilli sorg og ég er búin að gráta mjög mikið. Úkraínska hjartað mitt er algjörlega í molum og ég hélt fyrst þegar stríðið braust út að heimalandinu mínu yrði útrýmt.“

Þögn.

„Ég var algerlega máttlaus og mér fannst vera svo sorglegt að það væri möguleiki á því að ég gæti aldrei sýnt börnunum mínum í framtíðinni hvaðan ég kem. Að þessi partur af mér myndi deyja út. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu með orðum. Þetta er algert vonleysi; þetta er pínu eins og það sé verið að eyða parti af persónuleika manns. Það er mótandi í hvaða landi maður elst upp. Það er virkilega mótandi. Hugsaðu þér ef Ísland yrði ekki til á morgun,“ segir Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir sem er frá Úkraínu en hún flutti hingað 11 ára gömul með móður sinni sem gift er íslenskum manni.

Þetta hefur bara áhrif á allt.

„Ég á sem betur fer virkilega gott fólk að og það eru allir búnir að vera að hringja í mig og ég hef fundið fyrir virkilega góðum stuðningi sem ég er þakklát fyrir. Þetta hefur bara áhrif á allt. Ég get ekki hugsað um neitt annað en þetta; sérstaklega fyrst þegar ég hafði svo miklar áhyggjur af æskuvinkonu minni úti. Ég er fegin að hún er komin úr landi. Ég hef líka áhyggjur af öðrum æskuvinum mínum og ættingjum svo sem afa mínum. Ég er að reyna að finna einhverja leið til þess að koma þeim úr landi ef til þess kæmi en svo aftur á móti er komin smávon í mig um að hlutirnir gætu lagast.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir

 

Ég var með hana hágrátandi í símanum þegar hún sagðist ekki vera tilbúin til að deyja.

 

- Auglýsing -

Viktoría segist vera í daglegum samskiptum við fólkið sitt úti – ættingja og æskuvini. „Þau eru mjög hrædd. Þau eru í vesturhluta landsins sem hefur ekki enn verið ráðist á. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig fólki líður sem býr á því svæði sem búið er að ráðast á. Þetta er allt súrrealískt. Það er súrrealískt að sjá þessar myndir og myndbönd og heyra í fólkinu mínu en ég er mest búin að vera í samskiptum við æskuvinkonu mína sem bjó í vesturhlutanum. Þegar ég var að tala við hana fyrstu dagana þá heyrði ég í sírenum í gegnum símann sem gáfu til kynna að von væri á loftárás og það þurftu allir að fela sig í kjallara. Ég var með hana hágrátandi í símanum þegar hún sagðist ekki vera tilbúin til að deyja. Það var auðvitað hræðilegt fyrir mig að heyra mína bestu æskuvinkonu tala um svona hluti og auðvitað bauðst ég til að aðstoða hana eins og ég gæti til að koma henni úr landi. Það tók hana svolítinn tíma til að komast úr landi en hún á ekki bíl og allar samgöngur eru í hakki. Henni tókst að fá far með ókunnugu fólki og er komin til Rúmeníu þar sem sjálfboðaliðar tóku á móti henni. Hún sagði mér að hún væri virkilega þakklát fyrir allt það góða fólk í Evrópu sem væri tilbúið að taka á móti úkraínsku fólki og aðstoða það.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir
Viktoría og æskuvinkona hennar sem flúði til Rúmeníu.

 

Mikil samheldni

- Auglýsing -

Viktoría segir að kona á sjötugsaldri, vinkona ömmu sinnar, sem býr í þriggja herbergja íbúð í miðbæ Ternopil sé búin að opna heimili sitt fyrir fólki frá Kiev og austurhluta landsins en þar gista nú um 20 manns. Dóttir hennar býr í tveggja herbergja íbúð og þar gista nú um 10 manns. Aðrir fjölskylduvinir hafa sagt frá því hernig þeir eru að matreiða mikið magn af mat til að gefa fólki sem leitar skjóls í vesturhluta landsins eða er á leiðinni að landamærum Póllands.

„Samheldnin er mikil og fólk reynir að gera sitt besta við að aðstoða hvert annað. Sumt eldra fólk vill ekki yfirgefa heimili sín. Afi minn, sem er sjötugur, býr úti í sveit þannig að hann er aðeins öruggari heldur en ef hann byggi í stórborg; hann býr þar einn og kann eingöngu úkraínsku og rússnesku þannig að það yrði erfitt fyrir mann á hans aldri að flýja til nágrannaríkja þar sem hann skilur engan og enginn skilur hann. En hann er virkilega hugrakkur og neitar að yfirgefa heimili sitt eins og svo margir. Þegar ég bið hann um að koma til Íslands þá spyr hann mig af hverju hann ætti að yfirgefa heimili sitt þar sem hann hefur búið alla ævi og sem honum þykir vænt um og þar sem hann á vini í kring. Hann þekkir ekkert annað.“

Viktoría segir að fólkið hennar úti sé þrátt fyrir allt vongott um að Úkraína nái að standa þessi átök af sér og að stríðinu fari að ljúka.

Það verða allir að standa saman og berjast.

„Fólk heldur fast í vonina um betri tíma um að þetta fari að klárast. Það er í rauninni tvennt í stöðunni: Að gefast ekki upp og vona það besta. Það virðist vera mikill samheldni á meðal þjóðarinnar og hver einasta manneskja sem ég tala við í Úkraínu, og ég sé það líka á samskiptamiðlum, er sammála um að gefast ekki upp. Það er ekki í boði. Það verða allir að standa saman og berjast. Yngri konur en ég eru farnar á vígvöllinn og svo er líka þannig mál með vexti að það er verið að senda alla karlmenn til þess að berjast þótt að sumir myndu vilja flýja. Mér er búið að líða eins og ég sé að horfa á einhverja bíómynd sem gerist í heimsstyrjöldinni síðari af því að þetta er nákvæmlega það sama og við höfum séð í bíó: Það er verið að aðskilja fjölskyldur sem hittast kannski aldrei aftur. Konur sjá kannski aldrei aftur eiginmann sinn, bróður eða son. Það er ekkert djók að taka ákörðun um að yfirgefa heimili sitt og vita ekki hvort viðkomandi snúi aftur eða sjái fólkið sitt aftur.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir

Full þjóðarstolts

Viktoría segir að þegar átökin hafi hafist hafi hún ekki búist við að Evrópubúar myndu standa svona þétt við bakið á íbúum Úkraínu. „Ég bjóst heldur ekki við að íbúar Úkraínu myndu standa sig svona vel í þessum átökum. Maður hélt að Pútín væri með betri strategíu og betra plan og myndi vinna þetta tiltölulega hratt eins og hann sjálfur bjóst við. Hann bjóst við að sigra Úkraínu á einum til þremur dögum. Það var upphaflega planið hans. En það gerðist ekki. Þetta er allt mjög sorglegt og ég er mjög leið yfir þessu en ég er samt full þjóðarstolts og vonar og í rauninni ánægð að sjá samheldni íbúa Úkraínu vegna þess að þjóðin hefur verið mjög brotin og sundurleit í mjög langan tíma. Ákveðnir menn í ríkisstjórninni hafa verið algjörlega undir stjórn Pútíns og landið hefur lengi verið í molum og sú uppbygging sem hefur átt sér stað tekur náttúrlega sinn tíma. Það tekur gríðarlega langan tíma. Það að sjá alla taka sig saman, standa þétt saman og berjast fyrir Úkraínu gefur mér von um að þetta land geti einn daginn blómstrað. Úkraína er frábært land svo sem til að heimsækja sem ferðamaður. Nattúran er virkilega falleg, það er margt að sjá þarna og margt að upplifa og fólkið er mjög gestrisið. Þannig að ég vona innilega að Úkraína vinni þetta stríð á endanum og að hægt verði að byggja upp landið og efnahaginn á ný og að úkraínska þjóðin fái að blómstra eins og hún á skilið að blómstra.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir

Kjarnorkuver í höndum Rússa

Alþjóðasamfélagið hefur brugðist hart við árás Rússa á Úkraínu.

„Mér finnst vera ótrúlega sorglegt að rússneska þjóðin þurfi að gjalda fyrir þessa ákvörðun Pútíns. Auðvitað eru einhverjir sem halda með honum og auðvitað eru einhverjir sem trúa því að það sem hann er að gera sé rétt. En ég trúi því að meirihluti Rússa vilji ekki þetta stríð og vilji ekkert með þetta hafa. Mér finnst vera ótrúlega sorglegt að þetta saklausa fólki þurfi núna að fara í gegnum líklega stærstu kreppu sem Rússland hefur nokkurn tímann séð og ekki nóg með það heldur munu Rússar finna fyrir aðkasti frá öðrum löndum. Auðvitað vona ég að þetta verði ekki svo slæmt en maður veit aldrei. Ég vorkenni þessum fjölskyldum sem sjá á eftir mönnum sínum til Úkraínu sem láta þar lífið en ég veit að upplýsingar í Rússlandi um gang mála í Úkraínu hafa ekki verið 100% réttar. Sumar af þessum fjölskyldum vissu ekki einu sinni að þessir strákar væru að fara í stríð. Þannig að í rauninni vorkenni ég báðum þjóðum mjög mikið.“

Fólk getur ekkert gert en ég sé ekki fram á að Pútín muni gefast upp af eigin vilja.

Átökin harðna sífellt og fimmtudagskvöldið 3. mars skutu Rússar á stærsta kjarnorkuver Evrópu, Zaporizhzhia-kjarnorkuverið í Úkraínu, svo kviknaði í og hafa þeir náð því á sitt vald. Talað hefur verið um kjarnorkuvopn undanfarna daga og mögulega beitingu á þeim. „Það er mjög mikil hræðsla, ekki bara í Úkraínu heldur einnig hér á landi. Staðan er þannig að Pútín er stillt upp við vegg en hann virðist vera maður sem hefur ekki lengur neinu að tapa þannig að hann gæti notað kjarnorkuvopn. Þegar fólk hefur engu að tapa þá er það tilbúið til að gera allt. Ég reyni að fylgjast með rússneskum fréttum og margir í Rússlandi eru algjörlega í molum út af ástandinu. Efnahagurinn er lamaður og framtíðin er virkilega óskýr. Fólk getur ekkert gert en ég sé ekki fram á að Pútín muni gefast upp af eigin vilja. Maður vonar að hann noti ekki kjarnorkuvopn en fyrsta daginn hans í Úkraínu tók herinn yfir Chernobil-kjarnorkuverið. Af hverju að taka yfir yfirgefinn bæ? Ekki nema að Pútín ætli að nota þetta sem ógn í framtíðinni.  Það væri nóg fyrir hann að senda sprengju yfir Chernobil og þá værum við í vondum málum. Maður vonar auðvitað að þessi saga muni ekki enda svo hræðilega. Maður vonar að það góða sigri en ég veit ekki hvernig það muni gerast á meðan Pútín er á lífi.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir

Selenskíj sjálfstæðari

Viktoría fæddist í vesturhluta Úkraínu árið 1994 og bjó í sveit fyrstu 11 ár ævi sinnar áður en hún flutti ásamt móður sinni til Íslands árið 2005. Foreldrar hennar höfðu þá skilið og lést faðir hennar fyrir nokkrum árum. Hún segist ekki hafa farið til Úkraínu í um áratug heldur hafi ferðast annað og til að mynda búið erlendis og verið þar í námi en hún er viðskiptafræðingur að mennt. Móðir Viktoríu giftist íslenskum manni sem átti börn fyrir. „Ég á þess vegna íslenska fjölskyldu, íslenskan stjúppabba og æðisleg stjúpsystkini. Mér finnst vera æðislegt hvað þau öll tóku voðalega vel á móti mér þegar ég kom.“

Aðeins að sögu Úkraínu: „Úkraína öðlaðist sjálfstæði árið 1991 eftir hrun Sovétríkjanna og einkenndust næstu ár af ákveðinni uppbyggingu í samfélaginu. Það voru auðvitað ennþá mjög miklar leyfar af spillingu frá Sovétríkjunum og ástæða þess að mamma ákvað að við flyttum til Íslands var að ástandið í Úkraínu var frekar óspennandi hvað varðar til dæmis atvinnumöguleika og framtíðartækifæri. Ég á frábærar minningar frá æsku minni í Úkraínu. Þetta er virkilega fallegt land og fjölbreytilegt og þar er mikið um að vera og fólkið er með frábæran húmor. Úkraínskt fólk er svolítið líkt Íslendingum; það er voðalega duglegt og sterkt og er stolt af landinu sínu. Þrátt fyrir alla spillinguna og erfiðleikana þar þá elskar úkraínskt fólk Úkraínu og það elskar að búa þar og er tilbúið til að gera allt fyrir landið sitt eins og sést núna í þessu stríði.“

Þrátt fyrir að hafa ekki heimsótt Úkraínu í um áratug fylgist Viktoría vel með fréttum þaðan og er í samskiptum við ættingja og æskuvini þar.

En vegna fyrri reynslu hefur Pútín ekki búist við þessari mótspyrnu sem hann er að sjá í dag.

„Líf fólks í Úkraínu er frekar erfitt ennþá. Þetta er búið að vera langt ferli og þetta hefur ekki verið auðveld leið. Margar ríkisstjórnir Úkraínu hafa verið eins og strengjabrúður Pútíns en núverandi forseti landsins, Volodímír Selenskíj, hefur verið mjög sjálfstæður frá öllu í Rússlandi og hefur verið að vinna í því að byggja upp landið en auðvitað tekur þetta langan tíma. Þetta er svo gríðarlega stórt land og svo hefur vestur- og austurhlutinn verið klofinn og það er kannski ástæðan fyrir því hvers vegna Pútín hélt að það yrði svo auðvelt að ráðast inn í Úkraínu. Hann hélt að sagan yrði eins og þegar hann réðst inn í Krímskagann árið 2014, en sá hluti var mun hlynntari Rússlandi, en vesturhlutinn sem er mjög úkraínskur, þannig að þetta var auðvelt. Sömuleiðis voru viðbrögð Evrópu þá lítil sem engin en þess má geta að Krímskaginn hefur tilheyrt bæði Úkraínu og Rússlandi til skiptis eftir því hvenær við lítum í sögubækurnar og því er erfitt að deila um það hverjum þetta landsvæði ætti að tilheyra í raun og veru. Fyrst og fremst á fólkið sem býr á Krímskaganum að velja hvoru landi það vill tilheyra en ég hef heyrt að ánægjan með stjórn Rússlands hefur ekki verið mikil meðal íbúa þar eftir að þeir tóku yfir svæðið. En vegna fyrri reynslu hefur Pútín ekki búist við þessari mótspyrnu sem hann er að sjá í dag. Landið var aðeins byrjað að blómstra þegar þetta nýja stríð hófst. Við erum að fara til baka um mörg ár í þeirri vegferð.“

Ekki lengur kúl

Viktoría er spurð hvað hún hafi lært af undanförnum dögum. „Ég held að það sem ég hafi lært mest af þessu er hvað það er mikið til af góðu fólki. Það hefur komið mér verulega mikið á óvart. Það eru bókstaflega allir sem ég þekki, bæði hérlendis og erlendir vinir úr öllum heimshornum, búnir að hafa samband við mig til að sýna mér stuðning og bjóða hjálparhönd en síminn minn hefur ekki stoppað. Evrópubúar og fleiri hafa tekið á móti úkraínsku fólki og gefið því mat og húsaskjól. Ég bjóst alls ekki við þessu af þessum skala.“

Þögn.

„Já, ég held að það sem ég hafi lært af þessu er hvað það er til mikið af virkilega góðu fólki og líka hvað nútímalegt samfélag er tilbúið til að sýna kjark og styðja við sannleikann.“ Viktoría vill bæta við að hún hati ekki Rússland. „Ég hata ekki rússneskt fólk. Ég kenni því ekkert um þetta. Og mér finnst vera leiðinlegt að saklaust fólk í Rússlandi þurfi að gjalda fyrir það sem er að gerast. Og ég sem úkraínsk kona vona að rússneskt fólk hér á Íslandi verði ekki fyrir neinu aðkasti. Það fólk er saklaust. Það getur engu breytt alveg eins og ég get engu breytt. Ég held að það sem þetta stríð kenni okkur sé að vera góð við náungann og bera virðingu fyrir hvert öðru. Það er ekki lengur kúl að vera ofbeldisfullur og leyfa hatri að stjórna sér. Það er ekki lengur málið. Það geta allir hagnast af því að vinna saman og vera góðir við hvern annan.“

Viktoría Vasilynka Alfreðsdóttir

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -