Föstudagur 10. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Æskuvinkonur ætla að gera Ísland kvartlaust

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þuríður Hrund Hjartardóttir og Sólveig Guðmundsdóttir taka sér bandarískan prest til fyrirmyndar og reyna að hætta að kvarta og kveina í 21 dag samfleytt. Þær hafa fallið margoft á leið sinni til kvartleysis en finna mikla breytingu á sinni innri líðan.

„Það er skemmst frá því að segja að þessi áskorun hefur breytt lífi okkar beggja til hins betra, og allra sem standa okkur nærri. Að uppgötva það hversu mikið maður í raun kvartar og að hafa einfalt og gott tæki til að vinna með það er ólýsanlega frábært í alla staði,“ segir Þuríður Hrund Hjartardóttir, alþjóðamarkaðsfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Icepharma.

Þuríður fór, ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur, iðnhönnuði og eiganda Culiacan Mexican Grill, nýverið af stað með verkefnið Kvartlaus. Markmið verkefnsins er einfalt – að hætta að kvarta, en fyrirmynd þess er verkefnið A Complaint Free World, áskorun sem kemur úr smiðju Bandaríkjamannsins Will Bowen.

„Í byrjun febrúar sagði Sólveig mér frá snilldaráskorun sem prestur í Kansas fór af stað með fyrir nokkrum árum en það snýst um það að kvarta ekki í 21 dag samfleytt. Þessi áskorun hefur náð til yfir ellefu milljón manna. Okkur fannst þetta svo frábær hugmynd að við ákváðum að skora hvor á aðra og skuldbinda okkur að komast í gegnum 21 dag,“ segir Þuríður en þær Sólveig hafa verið vinkonur síðan í níu ára bekk og þekkjast því mæta vel.

Fall er óumflýjanlegt

Will Bowen byggir hugmyndafræði sína á því að vísindamenn hafi sannað að ef maður nær að halda sömu hegðun eða mynstri í 21 dag samfleytt verði það að vana. Will þessi lét hanna sérstök kvartlaus armbönd og gengur átakið út á það að færa armbandið frá öðrum úlnliðnum á hinn um leið og maður kvartar. Ef maður fellur, byrjar maður aftur á degi eitt í kvartleysi. Sólveig og Þuríður selja nú þessi armbönd á vefsíðu sinni kvartlaus.is, en Þuríður bætir við að skilgreiningin á kvarti sé mjög niðurnjörvuð í þessari hugmyndafræði.

- Auglýsing -

„Það er sem sagt bannað að kvarta og bannað að tala illa um aðra. Will segir að þegar að maður slúðrar sé maður í raun að segja að maður sé betri en viðkomandi og það er flokkað sem kvart,“ segir Þuríður. Hún bætir við að þetta sé alls ekki eins einfalt og það hljómi. „Það skal tekið fram að þetta er ekki einfalt og við höfum fallið ótal oft á leiðinni, ég síðast í gær,“ segir Þuríður og hlær. „En það er hluti af þessu. Það er ekki séns að komast í gegnum þetta án þess að falla á leiðinni.“

Betri samskipti og meiri ró

Bandaríski guðfaðir kvartleysis segir það taka að meðaltali fjóra til sex mánuði fyrir fólk að hætta að kvarta í 21 dag samfleytt. Það liggur því beinast við að spyrja Þuríði hvert markmið þessara íslensku lærisveina sé?

„Við viljum gera Ísland kvartlaust fyrir árslok. Verðum við ekki að hugsa stórt? Þó að við myndum ekki ná nema tíu prósentum af þjóðinni yrði allt svo miklu betra,“ segir hún og bætir við að kvartleysið hafi haft góð áhrif á einkalífið, þrátt fyrir bakslögin.

- Auglýsing -

„Við höfum verið að þessu síðan í febrúar og finnum báðar að það er allt önnur stemning inni á heimilum okkar. Það eru allir glaðari, meiri ró yfir heimilisfólkinu og á heildina litið erum við betri í samskiptum, þó að sjálfsögðu sjóði stundum upp úr. Það gerist samt sjaldnar en áður og það er það sem skiptir máli. Þegar maður eyðir minni tíma í að kvarta, hefur maður meiri tíma til að vera glaður.“

Armböndin sem eiga að hjálpa til við að hætta að kvarta.

Kvart og kvein

* Meðalmaðurinn kvartar 15 til 20 sinnum á dag.
* Rannsóknir hafa sýnt að fólk getur orðið reiðara ef það kvartar mikið.
* Rannsóknir hafa einnig sýnt að það að pústa við vin getur valdið mikilli streitu bæði hjá þeim sem pústar og þeim sem hlustar.
* Kvart og nöldur er oft ofarlega á blaði þegar kannað er hver helstu vandamál innan sambanda séu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -