Lissette Calveiro er 26 ára og búsett í New York-borg. Þangað flutti hún árið 2016 með kreditkortaskuld uppá eina milljón á bakinu eftir að hún reyndi að gerast áhrifavaldur á Instagram. Lissette segir í færslu á Instagram að hún hafi eytt meiru en hún þénaði og að hún hafi skuldsett sig til að sýnast eiga fullkomið líf í augum fylgjenda sinna.
„Instagram eða annað líf sem lítur fullkomið út á mynd er ekki þess virði að enda í skuldafeni,“ segir Lissette í viðtali við Cosmopolitan.
Hætti að eyða í ferðalög og hátísku
Lissette starfar í kynningar- og markaðsmálum og vissi að hún þyrfti að gera eitthvað afdrifaríkt til að borga upp skuldirnar.
„Það var alltaf hluti af áætlun minni að flytja til New York út af vinnu, en mér fannst ég ekki getað notið þess til fulls á meðan ég var með kreditkortaskuldina á bakinu. Ég var viss um að ég gæti borgað hana upp á einhverjum tímapunkti, en ég þurfti að gera það fljótt til að geta lifað friðsælu lífi,“ segir hún.
Lissette hætti því að eyða fúlgu fjár í ferðalög og kaupa sér að minnsta kosti einn hlut frá hátískumerki á mánuði, eins og hún hafði áður gert. Þá ákvað hún líka að setja vinnu sína í fyrsta sæti, en ekki Instagram. Hún segir það hafa verið erfitt, en eftir að hún byrjaði að leigja íbúð sem var talsvert ódýrari en hún var vön gat hún notað stóran part af laununum sínum til að borga niður skuldina.
Þá nýtti hún sér einnig alls kyns punkta og inneignir sem hún hafði safnað í gegnum tíðina með því að eyða svona miklu á kreditkortinu.
Fjármál ættu ekki að vera tabú
Lissette er búin að greiða upp kreditkortaskuldina en er enn með námslán sem þarf að greiða af. Hún segist vilja opna umræðuna um Instagram-lífið, því aðrir í hennar stöðu geri það ekki.
„Mínir nánustu vinir hafa það sama á tilfinningunni, að þetta vandamál með ofeyðslu til að eiga fullkomið líf sé svo algengt, þannig að það er skrýtið að enginn hafi talað um þetta áður,“ segir Lissette og bætir við:
„Að tala um fjármál ætti ekki að vera tabú, eða eitthvað til að vera hræddur við.“
Þess má geta að fylgjendafjöldi Lissette hefur tvöfaldast eftir að hún opnaði sig um þessa lífsreynslu sína.