Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

„Ætlaði bara að prufa og bakka út þegar ég vildi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Það hvarflaði ekki að henni að vændið myndi hafa eins miklar afleiðingar og raun bar vitni. Kona sem stundaði vændi í nokkra mánuði í kringum aldamótin 2000 segir hér sína sögu. Enn þann dag í dag rekst hún reglulega á menn sem keyptu vændi af henni. Hún segir það alltaf jafnerfitt.

„Ég var í láglaunastarfi á þessum tíma og átti engan varasjóð eða neitt,“ segir kona sem stundaði vændi í um átta mánaða skeið í kringum aldamótin 2000. Hún kýs nafnleynd vegna barna sinna.

Hún segir fjárhagsörðugleika hafa verið helstu ástæðuna fyrir því að hún ákvað að fara út í vændi. Konan var að nálgast þrítugt á þessu tímabili.

„Ég upplifði það þannig að ég hefði ekkert bakland og sá fram á að enda á götunni ef ég myndi ekki ná að redda mér pening. Launin mín dekkuðu engan veginn leigu á húsnæði og að lifa á Íslandi,“ útskýrir hún. Hún tekur fram að hún hafi átt góða að en kunni ekki við á þessum tíma að biðja sína nánustu um aðstoð.

„Mér datt þá í huga að prófa að selja mig. Þetta er eitthvað sem ég hafði aldrei leitt hugann að áður. En ég hafði séð kvikmyndir og þætti í gegnum tíðina þar sem líf vændiskonunnar var sett fram sem einhver heillandi heimur. Þannig að mig grunaði ekki að þetta gæti verið eitthvað annað en það.“

Gríðarleg viðbrögð við vændisauglýsingu

Konan segist hafa verið hikandi í fyrstu en ákvað svo að prófa að búa til síðu á Einkamál.is og auglýsa sig þar. Og viðbrögðin létu ekki á sér standa.

- Auglýsing -

„Auglýsingin fékk alveg rosaleg viðbrögð. Skilaboðin hrúguðust inn. Þau voru meira og minna frá giftum mönnum og þeir voru ekkert endilega að hylja sig. Menn voru bara tilbúnir að treysta einhverri manneskju á Netinu fyrir upplýsingum um sig,“ útskýrir konan. Hún tekur fram að meirihluti mannanna sem settu sig í samband við hana og vildu kaupa vændi hafi virkað venjulegir fjölskyldumenn.

Þegar ég lít til baka sé ég hvað ég var saklaus á þessum tíma.

Eftir að hafa spjallað við nokkra menn í gegnum Netið ákvað konan að hitta einn mannanna. „Þegar ég lít til baka sé ég hvað ég var saklaus á þessum tíma. Ég gat engan veginn meðtekið það sem ég var að fara út í. Mér leið bara eins og ég væri að fara á deit.“

Konan segir að fyrstu skiptin hafi verið henni tiltölulega auðveld. Hún hitti mennina ýmist á hótelum eða í bílum til að byrja með.

- Auglýsing -

„Ég var sjálf ekki með húsnæði á þessum tíma. En ég náði að safna mér peningum tiltölulega fljótt og fór þá að leigja dýrt húsnæði hjá einhverju leigufélagi. En ég átti náttúrlega ekkert innbú þannig að ég þurfti að byrja á að kaupa allt svoleiðis og tók það á raðgreiðslum.“

Eftir því sem skiptunum fjölgaði fór þetta að verða óþægilegra.

Hún tekur fram að henni leið ekki illa með að stunda vændi fyrsta einn og hálfan mánuðinn, innst inni vissi hún þó að þetta væri ekki „eðlilegt“, eins og hún orðar það. „En eftir því sem skiptunum fjölgaði fór þetta að verða óþægilegra.“

Festist í skuldasúpu

„Um leið og ég var komin með mitt eigið heimili og fór að taka þessa menn inn á heimilið varð þetta ógeðslegra. Mér fór að líða illa þá. Ég hafði alltaf talið mér trú um að mér þætti í lagi að selja mig en ég gat það ekki um leið og þeir voru komnir inn á heimilið. Þetta voru oft ógeðslegir menn, þó svo að stór hluti hafi bara verið fínustu menn, venjulegir og viðkunnanlegir. En hluti þeirra voru virkilega ógeðslegir menn sem ég var hrædd við. Og það var augljóst að ég var ógeðsleg í þeirra augum, þeir töluðu niður til mín og hringdu jafnvel í aðra menn og töluðu um mig við þá, fyrir framan mig, mæltu með mér og fleira,“ segir konan þegar hún rifjar þetta tímabil upp.

Á þessum tímapunkti langaði hana virkilega að hætta að stunda vændi en dýra leiguhúsnæðið og afborganir af húsgögnum urðu til þess að konan upplifði sig fasta í skuldasúpu og henni fannst hún ekki geta hætt að stunda vændi. „Þetta var dýrt húsnæði, ég þurfti að reka það og borga af húsgögnunum og mér fannst ég þurfa að standa við þessar skuldbindingar. Svo er auðvitað ekkert grín að spjara sig fjárhagslega á Íslandi.“

Mér fannst allt í kringum þetta svo skítugt og ég upplifði mig alltaf skítuga.

Konan náði að leyna því fyrir sínum nánustu að hún stundaði vændi. Spurð út í hvort fólk í kringum hana hafi ekki verið farið að spyrja spurninga segir hún: „Jú, fólk spurði mig hvernig ég gæti verið að kaupa öll þessi húsgögn og leigja svona dýrt húsnæði en ég náði alltaf að klóra mig út úr því án þess að svara.“

Vændinu og feluleiknum í kringum fylgdi mikil vanlíðan sem jókst bara með tímanum. „Mér fannst allt í kringum þetta svo skítugt og ég upplifði mig alltaf skítuga. Ég keypti mér meira að segja einhvern ódýran síma því ég vildi ekki fá símhringingar frá þessum mönnum í farsímann minn sem ég notaði í daglegu lífi.

Þannig að ég var með tvo síma í veskinu og þetta var allt saman mikið laumuspil.“

Konan lýsir því að hún hafði verið orðin mjög taugaveikluð á þessum tíma, alltaf hrædd um að fólk í kringum hana kæmist að leyndarmáli hennar. „Þetta var feluleikur og lygar út í eitt. Ég hætti meira að segja að drekka áfengi. Mér hafði alltaf þótt gaman að fara út og skemmta mér og halda partí en ég hætti því algjörlega. Ég var svo hrædd um að tala af mér. Enda hélt ég að fólk myndi loka á mig ef það kæmist að þessu.“

Svo hafði ég yfirleitt ekki efni á mat því að allur peningur fór í að reka þetta heimili mitt, ég var heppin ef ég fékk matarafganga í vinnunni.

Eftir nokkra mánuði í vændi var konan orðin þunglynd og átti erfitt með svefn. „Ég gat ekki sofið í rúminu mínu, mér fannst það svo ógeðslegt. Þannig að ég reyndi að sofa í stofunni. Ég lokaði bara inn í svefnherbergið og vildi ekki fara þar inn. Svo hafði ég yfirleitt ekki efni á mat því að allur peningur fór í að reka þetta heimili mitt, ég var heppin ef ég fékk matarafganga í vinnunni,“ segir konan þegar hún lýsir dapurlegum raunveruleika sínum á þessum tíma.

Spurð út í hvort hún hafi leitt hugann að því, þegar hún ákvað að byrja að stunda vændi, hvaða afleiðingar það væri haft í för með sér svarar hún neitandi.

„Ég hugsaði alls ekki út í mögulegar afleiðingar. Þetta var bara einhver leikaraskapur. Ég ætlaði bara að prufa og bakka út þegar ég vildi, gera þetta á mínum forsendum og mínum hraða. Ég hélt að ég gæti verið við stjórnvölinn. En það var aldrei þannig. Um leið og ég var stigin inn í þetta var ég búin að missa stjórnina. Ég var alltaf valdalaus í þessum aðstæðum. Ég hélt ég gæti valið kúnnana vel en svo var ekki. Alveg sama hvað ég reyndi að vanda mig, þá var ég alltaf með óbragð í munninum eftir á.“

Um leið og ég var stigin inn í þetta var ég búin að missa stjórnina.

Geðheilsan gaf sig

Eftir um átta mánuði í vændi gaf andlega heilsan sig hjá konunni. „Ég brotnaði niður í vinnunni og yfirmaður minn fór með mig upp á bráðamóttöku geðdeildar. Svo í kjölfarið leitaði ég til Stígamóta. Þá byrjaði ég að tala við mína nánustu um hvað hafði verið í gangi,“ segir konan. Það var fólki mikið áfall að heyra af þessu, að hennar sögn.

„Fólki fannst erfitt að vita af mér í þessum sporum. En það reyndi samt að fela viðbrögðin.“

Konan er þakklát þeim stuðningi sem hún fékk í Stígamótum. „Stærsta hjálpin fyrir mig var að komast í Svanahóp hjá Stígamótum, að sjá að það voru fleiri konur í sömu sporum og ég. Oft leið mér nefnilega eins og ég hlyti að vera eina konan á Íslandi sem hefði farið þessa leið. Þegar ég kom inn í Stígamót sá ég að það var stór hópur kvenna sem í neyð sinni fór þessa leið. Og þær konur sem ég hef kynnst í gegnum hópinn hafa margar svipaða sögu og ég að segja; þær reyndu að telja sér trú um að þetta væri eitthvað sem þær vildu gera en í raun voru þær algjörlega á síðustu bensíndropunum,“ útskýrir hún og tekur fram að vinnan í Svanahópnum geti verið afar krefjandi.

Konan tekur fram að þó að hún hafi verið í vændi í um átta mánuði líði henni eins og þetta hafi verið mun lengri tími. „Mér líður eins og þetta hafi verið mörg ár. Þetta er rosalegur blettur á minni lífssögu.“

Mennirnir skömmustulegir í dag

Konan glímir enn við afleiðingar þess að hafa verið í vændi, næstum tuttugu árum síðar. „Það er erfitt að keyra sumar slóðir og svo framvegis. Staðir og kennileiti vekja upp minningar um þennan tíma.“

Konan þarf einnig að hitta suma þessara manna í sínu daglega lífi. „Suma mennina þekki ég í dag og þarf að hitta reglulega, það er rosalega erfitt. En þetta er ekkert rætt. Það er bara látið eins og ekkert hafi ískorist. Þeir verða samt allir voðalega vandræðalegir og skömmustulegir og ég fer öll í baklás. Það er mjög erfitt að vera minnt á þetta erfiða tímabil reglulega.“

Þeir verða samt allir voðalega vandræðalegir og skömmustulegir og ég fer öll í baklás.

Þegar hún segir blaðamanni frá mönnunum sem um ræðir talar hún um þá sem viðskiptavini en tekur svo fram: „Ég vil samt ekki kalla þá viðskiptavini. Í mínum huga eru þeir bara ofbeldismenn. Fyrir mér er það fólk sem kaupir sér vændi að beita ofbeldi.“

Vændið afleiðing kynferðisofbeldis

Eins og áður hefur komið fram hefur konan leitað sér ráðgjafar hjá Stígamótum ásamt því að vinna í sjálfri sér með sálfræðingi síðan hún hætti að stunda vændi. Hún segir þetta vera stöðuga vinnu sem aldrei ljúki.

Í dag hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að vændið sé afleiðing kynferðisofbeldis sem hún varð fyrir sem barn.

„Sem barn lærði ég að slökkva á tilfinningum mínum þegar var verið að misnota mig kynferðislega. Ég var komin með meistarapróf í því. Þannig að þegar ég byrjaði að stunda vændi var auðvelt fyrir mig að slökkva bara á mér. Ég var engan veginn tengd tilfinningum mínum þegar þeir voru að hamast á mér.  Að sjálfsögðu var ég að leika leikrit fyrir þá en samt algjörlega búin að slökkva á mér. Það var bara eins og ég hefði opnað bringuna á mér og tekið hjartað út og sett það inn í skáp á meðan.“

Ég var engan veginn tengd tilfinningum mínum þegar þeir voru að hamast á mér.

Konan lýsir því hvernig kynferðislega ofbeldið úr æsku hafði áhrif á hugsunarhátt hennar eftir að hún varð fullorðin. „Ég hafði orðið fyrir síendurteknu ofbeldi í gegnum ævina þannig að mér var nokkuð sama þótt einhver ókunnugur maður væri að hamast á mér, ég fékk þá alla vega peninga fyrir það. Þannig leit ég á þetta. Það var hvort sem er búið að brjóta á mér áður þannig að mér fannst ekki skipta neinu máli hver færi upp á mig.“

Hún segist hafa áttað sig á þessari tengingu þegar hún fór að vinna í sér með sálfræðingi. „Þegar ég fór að gróa aðeins sá ég að vændið var afleiðing þess sem ég lenti í sem barn.“

Ekki bara útlenskar konur

Konan segir það stundum trufla sig að í umræðunni um vændi á Íslandi er oft eingöngu talað um konur af erlendum uppruna.

„Það er alltaf talað um útlenskar konur, oft konur sem eru mansalsfórnarlömb. Það er auðvitað hræðilegt en vandamálið er stærra og flóknara en það. Það gleymist oft að það er líka margt íslenskt fólk sem í neyð sinni fer þessa leið. Mér finnst vera kominn tími til að viðurkenna það. Og langstærsti hluti fólks sem fer þessa leið er með kynferðisofbeldissögu á bakinu,“ útskýrir konan sem kallar eftir aukinni fræðslu um vandamálið sem vændi er á Íslandi.

Hún bendir á að það fólk sem fer þessa leið festist oft í vítahring, líkt og hún gerði vegna fjárhagsörðugleika.

Langstærsti hluti fólks sem fer þessa leið er með kynferðisofbeldissögu á bakinu.

„Ég gat þó alla vega hætt eftir þessa átta mánuði. Ég hafði bakland og gat fengið aðstoð. En það eru bara ekki allir sem geta hætt. Ég var heppin en ég veit um konur sem eru alltaf að reyna að hætta en svo koma óvænt útgjöld og þá er þetta leiðin sem þær kunna og þekkja.“

Konan viðurkennir að það hafi hvarflað að henni nokkrum sinnum eftir að hún hætti að stunda vændi að byrja aftur vegna fjárhagsvandræða. „Ef ég lendi í óvæntum útgjöldum er þetta alltaf fyrsta hugsun. Sem betur fer hef ég aldrei látið verða af því. En í eitt skipti bjó ég meira að segja til aðgang á Einkamál.is, en blessunarlega var síðunni minni eytt strax, það er alveg tekið fyrir þetta í dag.“

Vill aukna fræðslu um vændi

Í dag vill konan miðla upplýsingum og fræða fólk. „Mögulega hjálpar mín saga einhverjum. Ég myndi klárlega koma í viðtöl undir nafni ef ekki væri fyrir börnin mín.“

Ég vil að þau frétti það frá mér í staðinn fyrir að heyra þetta úti í bæ.

Hún segir að einn daginn munu börnin hennar þó fá að vita af þessu tímabili í lífi hennar. „Þegar börnin mín eru komin á þann aldur til að skilja þetta mun ég segja þeim frá þessu, ég vil að þau frétti það frá mér í staðinn fyrir að heyra þetta úti í bæ,“ útskýrir konan.

Hún tekur fram að hún hafi lært að tileinka sér jákvæðan hugsunarhátt á seinni árum. „Ég reyni að hugsa á jákvæðum nótum um þetta erfiða tímabil. Reyni að líta á þetta sem tækifæri sem ég fékk til að vinna í sjálfri mér. Og tækifæri til að fræða aðra. Ég væri svo til í að sjá fleiri konur sem hafa verið í þessari stöðu taka sig saman og stíga fram og fræða fólk. Samtakamáttur kvenna er rosalega sterkur og mikill. Ég bíð eftir að sjá stíga fram hóp kvenna sem hafa verið í sömu sporum og ég.“

Mynd / Hallur Karlsson

Sjá líka: „Hvað fær menn til að kaupa vændi?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -