Laura Micetich var aðeins 22ja ára þegar hún steig á vigtina og sá að hún var að nálgast 140 kíló. Hún glímdi við ýmsa heilsukvilla, svo sem of háan blóðþrýsting og forsykursýki. Hún vissi að hún þyrfti að breyta um lífsstíl til að geta lifað góðu lífi um aldur og ævi.
„Ég ákvað að taka stjórnina í mínu eigin lífi og breyta til. Eftir að hafa reynt að ná tökum á heilsunni minni margoft, og mistekist, var þetta orðið það alvarlegt að ég íhugaði að fara í magahjáveituaðgerð,” skrifar Laura á vefsíðu sinni. Hún byrjaði hins vegar á því að fara í ræktina og fljótt varð ljóst að hún þyrfti ekki aðgerð.
„Það sem byrjaði sem pælingar um magahjáveituaðgerð varð að ástríðu fyrir heilsusamlegum lífsstíl, þreki og næringu. Ég byrjaði að fara í ræktina, lyfta lóðum og borðaði hreina fæðu sem var klæðskerasniðin að þörfum líkamans. Það tók mig bara nokkrar vikur að átta mig á að ég þurfti ekki að leggjast undir hnífinn. Ég þurfti að leggjast undir stöngina.”
Lagaði mataræðið
Fyrsta árið léttist Laura um 45 kíló og losaði sig við ýmsa óheilbrigða ávana.
„Ég er nú laus við alla kvilla og lífið mitt hefur breyst til hins betra með því að átta mig á að það sem við viljum og það sem við gerum er eitthvað sem við stjórnum algjörlega,” skrifar Laura, en mataræðið spilaði stórt hlutverk í lífsstílsbreytingu hennar.
„Ég lagaði mataræðið mitt. Ég borðaði mikið af hreinum mat og tók alla sterkju og unninn sykur úr fæðunni. Ég hætti að fara út að borða. Ég hætti að borða skyndibita. Ég hætti að kaupa rusl í búðinni. Ég hætti að drekka áfengi með vinum. Ég hætti að oféta rusl. Þannig er nú það.”
Innblástur á Instagram
Laura er í dag tæp 90 kíló og er afar vinsæl á Instagram, með um 330 þúsund fylgjendur. Á samfélagsmiðlinum deilir hún alls kyns ráðum og skilaboðum sem eru full af innblæstri. Eins og til dæmis þessum:
„Það er ekkert sem heitir tilbúin/n. Það er bara núið,” skrifar Laura við eina mynd á Instagram. Við aðra skrifar hún:
„Þú ert ekki of gamall/gömul. Þetta er ekki of seint.”
Hún segir einnig á Instagram að þessi vegferð hafi verið erfið en algjörlega þess virði. Hún segir í lagi að eiga slæma daga svo lengi sem maður læri að taka sér pásu, en ekki gefa allt upp á bátinn. Hún er fylgjandi því að fólk skapi sína eigin velgengni og lifir eftir mottóinu:
„Þú ert sá/sú sem þú velur að vera.”