Fimmtudagur 21. nóvember, 2024
-3.4 C
Reykjavik

Ætlar að standa undir væntingum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Gísli Þorgeir Kristjánsson var valinn í landsliðshóp A-landsliðsins í handbolta sem hefur keppni á HM í dag og er því að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með A-landsliðinu. Hann er að vonum spenntur og fullur tilhlökkunar. Hann hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku, en Kiel hafi alltaf verið draumaliðið hans og hann gæti því tæpast verið ánægðari. Hann hefur fulla trú á að A-landsliðið muni ná árangri á HM og komast í milliriðilinn.

„Ég hef spilað með A-landsliðinu í mörgum æfingaleikjum, spilaði meðal annars með á Gjensidige Cup-æfingamótinu í Noregi á dögunum, en þetta er fyrsta stórmótið mitt, þannig að ég er mjög spenntur,“ segir Gísli Þorgeir. „Ég er auðvitað langt frá því að vera einhver reynslubolti með liðinu, það er langt í það, en það bætist hægt og hægt í reynslubankann.“
Spurður hvernig stemningin sé í liðinu í undanfara HM segir Gísli Þorgeir að hún sé afar góð.
„Liðið er mjög vel stemmt og okkur líður öllum mjög vel með þetta,“ segir hann. „Æfingar hafa gengið afar vel og við höfum unnið hörðum höndum að þessu. Nú er lokahnykkurinn að skella á og við erum allir tilbúnir í þennan slag.“

Gísli Þorgeir hefur spilað með Kiel undanfarna mánuði og segir töluvert mikinn mun á þýsku deildinni og þeirri íslensku. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Kiel var alltaf draumaliðið
Gísli Þorgeir gerði samning við þýska stórliðið Kiel í fyrra og fetar þar í fótspor félaga sinna í A-landsliðinu, Guðjóns Vals Sigurðssonar og Arons Pálmasonar. Hann hefur spilað með Kiel við góðan orðstír undanfarna mánuði. Meiðsli í öxl settu reyndar strik í reikninginn, en hann segist vera búinn að ná sér að fullu. Hann segir tímabilið með Kiel hafa gengið mjög vel, en þangað fór hann eftir frækna frammistöðu með FH. Spurður hvort það sé ekki mikill munur á því að spila í Þýskalandi eða hér heima viðurkennir hann að það hafi verið viðbrigði að byrja að spila í Þýskalandi. „Þetta er allt miklu stærra í sniðum en maður hélt en þetta hefur verið ótrúlega gaman, þetta er algjör draumur að rætast. Kiel hefur alltaf verið draumaliðið mitt, svo ég gæti ekki verið ánægðari.“
Faðir Gísla Þorgeirs, Kristján Arason, spilaði lengi í Þýskalandi, lengst með stórliðinu Gummersbach, en það var áður en Gísli Þorgeir fæddist, enda er hann ekki nema nítján ára og man lítið eftir handboltaferli föður síns. Kristján hefur þó væntanlega lumað á ýmsum góðum ráðum fyrir soninn þegar hann byrjaði að spila í Þýskalandi, eða hvað?
„Já, heldur betur,“ segir hann. „Hann hefur gefið mér mikið af góðum ráðum og hann hefur alltaf reynst mér mjög traustur bakhjarl þegar kemur að boltanum, og reyndar öllu öðru líka. Mamma og aðrir fjölskyldumeðlimir standa að sjálfsögðu þétt við bakið á mér líka og hafa hjálpað mér mikið. Það er ómetanlegt að eiga svona góða að.“

Vita hvenær komið er nóg
Kærasta Gísla Þorgeirs, Rannveig Bjarnadóttir, landsliðskona í fótbolta, hefur líka stutt hann með ráðum og dáð. Hún hefur búið með honum í Kiel undanfarna mánuði sem hann segir hafa skipt hann miklu máli. „Það hefur verið algjör „lifesaver“ að hafa hana með mér,“ játar hann.
Aginn í liðinu er mikill og vinnan erfið en Gísli Þorgeir segist þó hafa haft tíma til að skoða sig um í Þýskalandi og njóta lífsins. „Ég hef haft tíma til að slaka á með kærustunni eða strákunum,“ segir hann. „Kiel er ágætlega stór borg, hér búa 300.000 manns, og það er nóg um að vera hérna. Aginn er auðvitað mikill í liðinu en þeir vita líka alveg hvenær er komið nóg og maður þarf smá slökun, sem er mjög fínt.“

Gísli Þorgeir Kristjánsson er spenntur og fullur tilhlökkunar vegna HM. Mynd/ Hákon Davíð Björnsson

Handboltinn heillaði mest
Þegar hann var yngri spilaði Gísli Þorgeir bæði fótbolta og golf, auk handboltans, og þótti mjög efnilegur í báðum greinum, hafði hann aldrei áhuga á að gerast atvinnumaður í fótbolta eða golfi?
„Ekki í golfinu, það var bara áhugamál,“ segir hann. „Mér fannst það samt alveg ótrúlega gaman, en ekki sem ferill. En mest snerist lífið um fótbolta á sumrin og handbolta á veturna, ég skipti því þannig og var alveg jafnáhugasamur um hvort tveggja. Þegar líða fór á fannst mér samt handboltinn og það sem hann hafði upp á að bjóða meira heillandi og auk þess fann ég mig betur í handboltanum, þótt fótboltinn væri ótrúlega skemmtilegur. Og, jú, ég hafði alveg hugsað út í það að gerast atvinnumaður í fótbolta, en handboltinn hafði yfirhöndina á endanum.“
Auk þess sem Kristján, faðir Gísla Þorgeirs, gat sér góðan orðstír í handbolta þá á móðir hans, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, farsælan feril að baki í handbolta. Spurður hvort foreldrar hans hafi þrýst á hann að velja handboltann harðneitar Gísli Þorgeir því. „Nei, alls ekki,“ segir hann ákveðinn. „Foreldrar mínir standa með mér í einu og öllu sem ég vil, þau hafa aldrei reynt að hafa áhrif á mitt val.“

Gummi flottur þjálfari og manneskja
Gísli Þorgeir á að baki feril sem landsliðsmaður í öllum yngri landsliðunum, finnst honum mikill munur á því að æfa með A-landsliðinu eða þeim?
„Já, það er mjög mikill munur,“ fullyrðir hann. „Þótt maður sé auðvitað að spila fullorðinsbolta með flestum yngri landsliðunum, þá er A-landsliðið á allt öðru „leveli“. Þá er maður kominn efst í pýramídann sem krefst mikillar einbeitingar og fagmennsku – alltaf. Það eru gerðar miklu meiri kröfur til leikmanna á efsta „leveli“.“
Kristján faðir Gísla Þorgeirs og Guðmundur Guðmundsson, þjálfari A-landsliðsins, spiluðu saman í íslenska landsliðinu á sínum tíma en Gísli Þorgeir segist samt ekki hafa þekkt Guðmund neitt persónulega þegar hann byrjaði að æfa með A-landsliðinu. Hann harðneitar því að Guðmundur, sem auðvitað er goðsögn í íslenskum handbolta, sé á nokkurn hátt ógnvekjandi eða að menn óttist hann.
„Gummi er flottur!“ segir hann. „Það er ekkert ógnvekjandi við hann, hann vill vinna þetta í samstarfi við okkur strákana og hann er mjög skilningsríkur og frábær þjálfari og manneskja. Ég virði hann mjög mikið.“

„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir Gísli Þorgeir. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel.“ Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Hefur mikla trú á liðinu
Landsliðshópurinn hélt til Þýskalands á miðvikudaginn og spilar fyrsta leikinn gegn Króatíu í München í dag. Gísli Þorgeir segir mikinn hug í liðinu og að hans áliti stendur liðið vel að vígi miðað við hin liðin í riðlinum.
„Við stöndum nokkuð vel að vígi, held ég,“ segir hann. „Þetta verður auðvitað erfitt, það verða engir auðveldir leikir á þessu móti, þetta er HM og við þurfum að vinna ótrúlega vel. Markmiðið er auðvitað að komast í milliriðil og ég tel að við eigum góða möguleika á því. Strákarnir eru mjög bjartsýnir um það sem koma skal en við gerum okkur allir grein fyrir því að þetta verður ekki auðveld brekka að klífa.“
Sjálfur segist Gísli Þorgeir hafa trú á liðinu og að hann eigi von á góðum árangri þess í mótinu.
„Ég hef mikla trú á liðinu og vel það,“ segir hann ákveðinn.
Eftir að kepnninni á HM lýkur mun Gísli Þorgeir halda aftur til Kiel og spila með þeim í þýsku deildinni í vetur. Óttast hann að meiðslin í öxlinni muni halda aftur af honum þar? „Nei, ég tel mig vera orðinn flottan í öxlinni,“ segir hann og hlær. „Þannig að það ætti ekki að verða neitt vesen með hana í vetur. Ég hlakka bara óskaplega til að spila á HM og síðan í þýsku deildinni og ætla mér að standa undir þeim væntingum sem til mín eru gerðar á báðum stöðum.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -