Fimmtudagur 26. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Ætlar að vinna í sjálfum sér

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Þór Sigurjónsson er ekkill og fjögurra barna faðir eftir að eiginkona hans, Ingveldur Geirsdóttir, lést úr krabbameini í lok apríl. Hann ætlar að halda minningu Ingveldar á lofti fyrir börnunum og ekki reyna að grafa þetta niður til að einfalda lífið. Mikilvægt er að ræða málin opinskátt að hans mati og vinna skipulega í sjálfum sér, en það ætlar Kristinn að gera í fyrsta skipti á ævi sinni.

Kristinn segir að í öllu þessu hafi bæði hann og Ingveldur verið vel meðvituð um að endalokin væru óumflýjanleg. Þau hafi lagt áherslu á að gera börnunum grein fyrir því líka og alltaf talað hreint út um veikindin við börnin. „Við þá yngstu líka þótt hún hafi ekki enn fangað hugtakið dauðann. Hún fangar þetta svolítið þannig að „nú er mamma ekki lengur á sjúkrahúsinu. Núna er hún í hjartanu í mér. Hún er með hús þar.“ Svo á þetta bara eftir að þróast með hennar þroska. Hún var náttúrlega búin að upplifa það að mamma hennar hafði verið á sjúkrahúsinu í um 100 daga síðastliðna níu mánuði. Þetta var svolítið langur tími sem hún hitti alltaf mömmu sína á spítala. Það kom mér nokkuð í opna skjöldu að hún var vissulega sorgmædd en samt glöð yfir því að nú væri mamma hjá sér. Svo þegar hún er að melta þetta hugtak, dauði, þá koma spurningar eins og „við erum ekki dáin, er það?“ Það þarf bara svolítið að halda henni við efnið og tala um þetta. Að vera ekki að vernda börnin gagnvart þessu. Þetta er bara staðan og ég hef ekkert verið að segja við hana að mamma hennar sé á himnum með englum eða eitthvað svoleiðis. Hún er bara dáin og hún lifir í minningum okkar.“

„Ég vorkenni stundum fólki sem slysast til að spyrja hvernig ég hafi það því ég segi það bara hreint út. Fólk verður þá bara að taka því og höndla það ef ég fer að gráta.“

Eðli málsins samkvæmt hafa undanfarnar vikur verið annasamar hjá Kristni. Auk þess að skipuleggja útförina og ganga frá öðrum praktískum málum hefur verið gestkvæmt á heimilinu. En það er aðeins farið að hægja á og þá vill það oft gerast að sorgin hellist yfir. Kristinn segist mjög meðvitaður um þetta. „Núna hefur lífið snúist um að klára útförina og þessi praktísku mál, taka börnin úr þessu umhverfi og fara með þau til Tenerife og svo í útilegur í sumar. Ég geri alveg ráð fyrir því að það komi skellur í haust. Ég veit að það mun gerast en ég ætla þá alla vega að vera búinn að undirbúa það með því að vera kominn í rútínu með leikskólann, að þetta verði eins og smurð vél. Varðandi framhaldið þá bara er það að halda minningu Ingveldar á lofti fyrir börnunum og ekki reyna að grafa þetta niður til að einfalda lífið. Við tölum bara um þetta, grátum saman þegar þarf að gráta saman. Það er allt í lagi. Það verður erfitt að halda jólin, það verður erfiður aprílmánuður á næsta ári þegar öll barnaafmælin eru. En ég hef ekkert rosalega miklar áhyggjur af því enn þá.“

Í fyrsta skipti ætlar Kristinn svo að vinna skipulega í sjálfum sér. „Ég hef verið að hugsa um það að ég þurfi að finna mér nýjan takt, hvernig ég ætli að hafa hlutina. Ég er búinn að panta mér viðtalstíma hjá Ljósinu eftir að ég kem heim frá Tenerife og þá ætla ég að byrja að spá í mig. Það er eitthvað sem ég hef aldrei gert áður og ég finn að það hjálpar að tala. Bara það að tala opinskátt við börnin hefur verið eins og sálfræðitími fyrir mig. Ég vorkenni stundum fólki sem slysast til að spyrja hvernig ég hafi það því ég segi það bara hreint út. Fólk verður þá bara að taka því og höndla það ef ég fer að gráta.“

Reykjavíkurmaraþonið er fram undan og svo vill til að það ber upp á brúðkaupsdaginn, 24. ágúst. Þar ætlar Kristinn að hlaupa 21 kílómetra í nafni Ljóssins. Hann viðurkennir að langhlaup séu ekki hans sterkasta hlið enda stór og mikill maður. Ástríða hans liggur í ruðningi (rugby) en Kristinn er einn af forvígismönnum íþróttarinnar hér á landi. „Ég fer bara hægt og örugglega yfir. Ég hef engar áhyggjur að komast ekki í endamarkið.“

Sjáðu einnig „Hún lifir í minningum okkar“.

Mynd / Hallur Karlsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -