Laugardagur 26. október, 2024
3.4 C
Reykjavik

Ævintýraheimurinn Tulipop stækkar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Tulipop-vörurnar má finna í yfir 300 verslunum út um allan heim, teiknimyndirnar sem slegið hafa í gegn á YouTube hófu nýlega göngu sína á RÚV og sjónvarpsþættir eru væntanlegir. Mannlíf hitti Signýju Kolbeinsdóttur í bækistöðvum Tulipop í Brooklyn í New York.

Tulipop er hugarfóstur listakonunnar Signýjar Kolbeinsdóttur og ásamt Helgu Árnadóttur viðskiptafræðingi hafa þær byggt upp heilan heim og fyrirtæki sem hefur verið í stöðugri sókn síðastliðin ár.

Tulipop er töfrandi heimur sem fangar bæði augu fullorðinna og barna því þessar litríku og spennandi sögur og fígúrur eru eiginlega engu öðru líkar. Þar er hin ofvirka sveppastelpa Gloomy sem þefar uppi furðuleg og jafnvel súrrealísk ævintýri, ásamt kafloðna vini sínum Fred sem er í stöðugri siðferðislegri kreppu og sjálfsleit. Gubbugrín og stundum hreinasti absúrdismi en samt svo barnslegt og fallegt. Tulipop virðist hrífa bæði smávaxin börn, gamlingja og sérvitrar listaspírur. Hér er sannkallaður galdur í gangi, falleg hönnun, sagnalist og furðuheimur. Tulipop er hugarfóstur listakonunnar Signýjar Kolbeinsdóttur og ásamt Helgu Árnadóttur viðskiptafræðingi hafa þær byggt upp heilan heim og fyrirtæki sem hefur verið í stöðugri sókn síðastliðin ár. Margt er á prjónunum hjá þessum framsæknu íslensku hugvitskonum.

Í bækistöðvum Tulipop í Brooklyn í New York situr Signý innan um allar sínar gotnesku, litríku persónur og spinnur upp sögur, teiknar og hannar daginn út og inn. Tulipop er orðið að risavöxnum heimi sem margir koma að – þetta er ekki bara þú, Signý, sem situr og teiknar? „Það er alveg rétt, það er orðið stórt teymi sem vinnur með okkur að vexti og þróun Tulipop á hverjum degi. Sex manna teymi sérfræðinga starfar í skrifstofunni okkar á Grandanum í Reykjavík, stór hópur í versluninni okkar á Skólavörðustíg og svo er ég hér á skrifstofunni okkar í New York. Auk þess erum við með fjöldann allan af innlendum og erlendum ráðgjöfum og verktökum sem vinna með okkur í sérhæfðum verkefnum.

Í teyminu er meðal annars grafískur hönnuður í fullu starfi en ég er enn sem komið er eini teiknarinn í fyrirtækinu og það fer nú að koma tími til að fjölga í þeim hóp. Áhugasamir teiknarnar í New York mega endilega hafa samband,“ segir Signý og brosir.

Sjónvarpsþættir fram undan
Signý segir ótrúlega gaman að sjá Tulipop-heiminn stækka og ná til fólks víða um heim. Á dögunum var YouTube-teiknimyndaserían þeirra frumsýnd á RÚV með íslensku tali, en serían hefur slegið í gegn á Internetinu síðan hún var sett í loftið í október síðastliðnum og fengið yfir 1,5 milljón áhorf. „Þetta er stjörnum prýdd talsetning, en það eru meðal annars Ólafía Hrönn, Ólafur Darri, Salka Sól og Laddi sem tala fyrir Tulipopparana. Að því ég best veit er þetta fyrsta íslenska teiknimyndaserían síðan Latibær leit dagsins ljós og við vonum að hún muni gleðja Tulipop-aðdáendur á öllum aldri.“

Nú er önnur sería af YouTube-þáttum komin í framleiðslu og Signý vinnur aðallega að henni þessa dagana. „Síðstu vikur hef ég unnið náið með handritshöfundunum Tobi og Brydie að því að klára tíu ný handrit og nú tekur við að passa upp á að útlit seríunnar sé í lagi og teikna nýja hluti og staði á Tulipop-eyjunni sem koma fyrir í þáttunum. Síðan þarf að finna raddir, leikstýra, finna réttu tónlistarmennina til að sjá um tónlistina og svo mætti lengi telja.

„Við erum mjög spenntar fyrir því að gera lengri þætti þar sem gefst tækifæri til að segja dýpri sögur og fanga andann í Tulipop-heiminum enn betur.“

Til viðbótar við teiknimyndagerðina erum við svo auðvitað með fjöldamörg önnur spennandi verkefni í gangi og meðal annars erum við að leggja lokahönd á margar nýjar vörur sem munu fást í Tulipop-búðinni okkar á Skólavörðustíg síðar í sumar. Eitt af stóru verkefnunum fram undan er að gera sjónvarpsþætti sem eru lengri en YouTube-þættirnir og við stefnum að því að framleiða 52 þátta seríu og dreifa alþjóðlega. Við erum mjög spenntar fyrir því að gera lengri þætti þar sem gefst tækifæri til að segja dýpri sögur og fanga andann í Tulipop-heiminum enn betur. Samhliða því erum við að stækka vöruúrval, halda áfram sókn á bandarískan markað, auk þess að undirbúa fyrstu skref í Asíu með nýjum samstarfsaðila.“

- Auglýsing -

Mikilvægt að barnaefni sé um raunveruleg málefni
Hún segir að stóra takmarkið sé að gera Tulipop að þekktu vörumerki um heim allan. „Við höfum frá fyrsta degi séð að fólk á öllum aldri heillast af Tulipop-heiminum og sjáum ótal mörg tækifæri til að færa hann til lífsins í gegnum vörur, bækur, teiknimyndir, leiki og fleira þannig að fólk geti tengst heiminum á sem fjölbreyttastan hátt.“

„Í teyminu er meðal annars grafískur hönnuður í fullu starfi en ég er enn sem komið er eini teiknarinn í fyrirtækinu og það fer nú að koma tími til að fjölga í þeim hóp. Áhugasamir teiknarnar í New York mega endilega hafa samband,“ segir Signý og brosir.

Margt er óvenjulegt við Tulipop hefðbundnum kynjahugmyndum er ögrað og það er mikil náttúrverndarhugsun, „Ég ólst sjálf upp við Grimmsævintýri, H.C. Andersen og Astrid Lindgren, svo eitthvað sé nefnt. Þær sögur byggja allar á sagnahefð þar sem ekki er búið að hvítþvo skilaboðin og markaðsvæða persónugerðir. Því þykir mér mikilvægt að koma sýn minni á framfæri um að heimurinn og lífið sé alls konar en svo lengi sem grunnhugmyndirnar eru sterkar komast skilaboðin áleiðis. Heimurinn er undarlegur og ef við reynum að fela alla galla okkar missum við undrið og þá liggur eftir flatneskja og meðalmennska. Ef sögu skortir ógn og breytileika er hún óáhugaverð að mínu mati. Það sem einkennir gott barnaefni er að talað sé til barna um raunveruleg málefni í búningi sem þau tengja við. Helst þarf það að vera eitthvað sem fullorðnir tengja líka við. Það er alltaf skemmtilegra að horfa með foreldrum sínum sem deila áhuganum.“

Börnin bullmælar
Góðar sögur og góð list mótuðu Signýju og hún segist finna þegar góðar sögur skipta máli. „Allt sem ég tengi við raunverulega á einhverju frumstæðu stigi. Eins og Hello Kitty, þar eru einfaldar línur, hún fangar eitthvað í einfaldleikanum. Slík list hefur óhjákvæmilega áhrif á mann. Það dvelur með manni löngu eftir að maður er hættur að horfa eða hlusta.“

- Auglýsing -

Þú átt sjálf börn – hafa þau verið partur af þessu ferli? „Já, algjörlega. Þau eru góðir gagnrýnendur og hafa mikla skoðun á því sem ég geri. Ég tek oftast frumgerðir með heim til að sýna þeim og spyr þau álits varðandi vöruúrval. Þau eru í raun hálfgerðir bullmælar, segja manni til syndanna þegar þau tengja ekki við það sem ég er að gera.“

„Heimurinn er undarlegur og ef við reynum að fela alla galla okkar missum við undrið og þá liggur eftir flatneskja og meðalmennska. Ef sögu skortir ógn og breytileika er hún óáhugaverð, að mínu mati.“

Vegna anna og verkefna flutti Signý til New York og henni líkar það vel. Hún segir að þetta sé búða að vera átta ára ævintýri. „Lykillinn að árangri í hverju sem þú tekur þér fyrir hendur er þrautseigja. Að halda áfram þrátt fyrir allar þær hindranir sem þú þarft að yfirstíga. Þeir sem leggja í þessa vegferð munu alltaf lenda í áföllum, annars er þessi vegferð sem þú tekur þér fyrir hendur ekki þess virði,“ segir hún að lokum.

Signý ásamt bróður sínum Birni.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -