„Elsku pabbi. Ég vissi ekki hvar þú varst? Taldi endalokin nær óumflýjanleg. Þú straukst á „ljóðskáldsbenzanum“ hinum TikTok fræga klukkan tvö í nótt með banvæna skammta af lyfjum með í för, aleinn og með einungis einn ásetning – á meðan ég, mamma og Hlynur bróðir sváfum værum svefni. Af einhverjum ástæðum kom mér ekki dúr á auga og ég fór því á fætur um þrjú leytið. Þá sá ég að þú varst horfinn úr húsinu. Benzinn horfinn. Og öll bannvænustu lyfin horfin úr körfunni.“
Þetta skrifar Engill Bjartur Einisson ljóðskáld á Facebook en þar greinir hann frá tilraun föður síns til að svipta sig lífi í nótt. Hann hefur gefið Mannlífi góðfúslegt leyfi að endurbirta frásögnina. Þar lýsir hann á sérstaklega áhrifaríkan hátt skelfilegum raunveruleika þunglyndissjúklinga og fjölskyldu þeirra. „Að upplifa þunglyndi þitt milliliðalaust hefur verið syni þínum þungur róður frá bernsku. Ég man þegar þú sagðir mér eitt sinn að þú værir „þunglyndasti maður í heimi.” Þá skildi ég vart merkinu þeirra orða; hvað þá þjáninguna bak þeirra. Eins sorglegt og það er, hef ég á síðastliðnum árum, sætt mig við að sál þín haldi senn til Himna. Aðdragandinn hefur verið svo langur,“ segir Engill.
Hann segist raunar hafa verið undirbúinn fyrir liðna nótt. „Sjálfsvígstilraunirnar svo margar. Hugsanirnar svo svæsnar. Þess vegna var ég sterkur í nótt þegar ég áttaði mig á hvað var að ske. Grét ekki einu sinni þrátt fyrir ást mína. Hvernig get ég tapað ástkærum föður sem er ódauðleg sál? Ég get það ekki. Ég færi bara á mis við hann í þónokkra jarðneska áratugi uns föðurást okkar tæki að blómstra á ný í eilífðinni. Ég var sumsé undirbúinn fyrir þessa nótt. Eins umdeilt og það kann að hljóma, samgladdist ég þér að hljóta loks friðinn sem þú svo lengi þráðir. En með sorg í hjarta,“ segir Engill.
Hann lýsir svo ferlinu sem fer á stað. „Ég vakti mömmu samstundis. Við hringdum á lögregluna. Leitarlið og björgunarsveitir voru kallaðar út til að bjarga þér. Fjórhjól úti um allt. Guð blessi allt það dásamlega fólk sem tók þátt í að finna þig og bjarga þér. Bílinn virtist aldrei ætla að koma í leitirnar. Ekki heldur þú. Auglýst var eftir honum á Vísi og þá hafa eflaust margir haldið að hann Engill Bjartur – rithöfundur, rappari & ljóðskáld – hafi komið sér í eitthvert klandur. Svo var ekki,“ segir Engill.
Faðir hans fannst sem betur fer. „Síðan fannst þú útanvegar við Hólmsheiði hálfmeðvitundarlaus. Sjúkrabíll flutti þig á bráðamótökuna. Og við kjarnafjölskyldan bíðum enn fregna af ástandi þínu en megum því miður ekki heimsækja þig sakir eins stærsta þunglyndisvalds í sögu mannkyns – ónefndri veiru sem drepur fleiri óbeint en beint svo ekki sé talað um efnahagslífstjónið. En nóg um það,“ segir Engill.
Engill segist samhryggjast föður sínum, þó það kunni að hljóma við fyrstu heyrn furðulega. „Guð vildi bersýnilega ekki að þú sofnaðir svefninum langa í nótt, elsku pabbi. Ég ber samúð í þinn garð. Þeir sem skilja ekki þunglyndi þitt eða voga sér að véfengja það, skulu eiga þínum elsta syni að mæta! Það er engin synd stærri en að afneita þjáningu þunglynds manns. Allt útlit er fyrir að þú verðir meðal vor um ókomna framtíð. En af einskærum sonarskilningi samhryggist ég þér, elsku pabbi, fyrir að hafa mistekist sjálfsmorðið því ég veit að það var þín ósk. Þetta geri ég a) vegna þess að þín vellíðan er mín gleði og b) vegna þess að við vitum báðir hvað tekur við að þessu lífi loknu. Jafnvel þótt ég hefði misst þig, hefði ég vart litið á það sem alvöru missi því þú munt ætíð vera í hjarta mínu – hvort sem jarðneski skrokkurinn er lífs eða liðinn. Illhægt er að tapa því sem eigi deyr. Og sálin deyr aldrei. Við erum ljósverur með tímabundna búsetu í holdlegum líkama. Þetta er ég alveg sannfærður um. Og ég veit þú ert það líka.“
Hann segist þó ekki geta falið hamingju sína við að fá pabba sinn aftur heim. „En ég get samt ekki leynt hamingju minni yfir því að fá þig að öllum líkindum að fullu aftur (veltur á niðurstöðum bráðadeildar) og ég hlakka óendanlega mikið til að verja fleiri dýrmætum pabbastundum með þér í ókominni framtíð.Guðs vilji sker ávallt úr um hluti er varða líf og dauða. Og ég krýp á kné mér af þakklæti fyrir að dómurinn sé áframhaldandi nærvera míns ástkæra pabba – hve löng sem hún reynist vera. Ég elska þig að eilífu pabbi“