Okrað er á eldri borgurum sem dvelja á dvalarheimilum eða þjónustuíbúðum þegar kemur að snyrtiþjónustu, þar á meðal fótsnyrtingu. Þeir eru látnir borga svipað eða meira en á fótaaðgerðastofum í höfuðborginni en fá fyrir það helmingi minni þjónustu. Mannlíf ræddi við 93 eldri borgara sem greitt hafa fyrir fótsnyrtingu á dvalarheimilinum.
Eldri borgarar sem búa á dvalarheimilum eða þjónustuíbúðum um allt land, sækja flestir þar innanhúss ýmsa þjónustu, þar á meðal fótsnyrtingu. Mannlíf hefur síðustu mánuði, eftir ábendingar aðstandenda, skoðað þá þjónustu sérstaklega. Ljóst þykir að það er allt annað en vel að þessum málum staðið. Verktakar sjá um þjónustuna í flestum tilfellum og ráða þar með verði sem og tímalengd meðferða.
Mjög erfitt að fá uppgefin verð
Mannlíf reyndi að fá uppgefin verð hjá mörgum stofnunum víðsvegar um landið. Það reyndist allt annað en auðvelt og í flestum tilfellum vonlaust. Ekki í einu einasta tilfelli þegar hringt var í rekstraraðila dvalarheimilisins gat viðkomandi svarað því hvað kostaði að fara í fótsnyrtingu né hvar verðlista væri að finna. Bent var á verktakana sjálfa og það var allt annað en auðvelt að fá uppgefin verð og tímalengd meðferða. Farið var í vörn og loðin svör fengust, það er að segja ef þau fengust.
Annarri aðferð beitt
Sökum þess hve erfitt var að fá þessar upplýsingar var ákveðið að taka aðra nálgun á málið. Það var gert með því að hafa samband við fólkið sem er að nýta sér þessa þjónustu, eldri borgarana sjálfa. Svör fengust frá 93 einstaklingum sem nýta sér þjónustu fótaaðgerðafræðinga sem starfa innan veggja dvalarheimila sem verktakar.
Eldri borgarar hlunnfarnir
Þegar verðlistar fótaaðgerðafræðinga eru skoðaðir, þeirra sem vinna á stofum víðsvegar um landið, kemur í ljós að meðferð fyrir eldri borgara er ein klukkustund sem felur í sér, fyrir utan allt hefðbundið, nudd í lok meðferðar. Það væri mjög skrítið ef eldri borgarar fengju ekki nudd, þeir þurfa svo sannarlega á því að halda. Annað gildir þó um fólkið sem þarf að nýta sér þjónustuna á dvalarheimilum. Þar er þeim sagt að þau séu að fá afslátt en eru að borga svipað verð og er uppgefið fyrir eldri borgara á stofum úti í bæ sem felur í sér einnar klukkustundar meðferð. Niðurstaða könnunar Mannlífs sýnir að hver og einn einasti aðili af þeim 93 sem talað var við er ekki lengur en 20 – 30 mínútur í meðferðinni á dvalarheimilum. Einungis 10 aðilar sögðust hafa fengið smávegis nudd í lok meðferðarinnar, hinir 83 höfðu aldrei fengið nudd einungis borin olía á tær og krem á fæturna.
Verðin
Samkvæmt verðskrám fótaaðgerðastofa sem Mannlíf skoðaði liggur verð sem eldri borgarar greiða fyrir fótaaðgerð á bilinu 7.900 – 10.000 krónur. Það er fyrir klukkutíma þjónustu. Það sem eldri borgarar eru að greiða fyrir 20 til 30 mínútna þjónustu inni á dvalarheimilum liggur verðið á bilinu 8000 til 10.900 krónur. Flestum af þeim 93 sem svöruðu eða 72 einstaklingar sögðu að þeim væri tjáð það að verðið sem þau greiddu væri með sérstökum afslætti fyrir eldri borgara.
Siðferðislega rangt
Þetta er síður en svo í lagi. Í fyrsta lagi eiga að vera aðgengilegar verðskrár fyrir fólkið sjálft sem og ættingja þess, fyrir allar meðferðir sem boðið er upp á á dvalarheimilunum. Í öðru lagi á ekki að láta eldri borgara né nokkurn annan borga helmingi hærra verð og rúmlega það, sem rukkað er á stofum úti í bæ fyrir 20 til 30 mínútna meðferð. Í þriðja lagi á ekki að hlunnfara þennan hóp sem þarf líklega meira en nokkur annar á nuddi að halda vegna þreytu, verkja og skerts blóðflæðis. Ljóst er að hér þarf að athuga málin og annað hvort lækka verðskrár í samræmi við þá þjónustu sem er veitt eða það sem best væri, að veita einnar klukkustundar meðferð með öllu sem innifalið er í verðinu annars staðar.
Myndir þú sætta þig við þetta ?
Eldri borgarar sem nota þjónustuna koma á fjögurra til sex vikna fresti, það er upp sett af meðferðaraðilunum sjálfum. Það sem einnig var mjög áberandi var það að 70 prósent þeirra sem svöruðu höfðu lent í því að vera höfð óeðlilega lengi í fótabaði eða einfaldlega látin bíða því meðferðaraðilinn var í símanum eða að sinna öðrum erindum á meðan á meðferð átti að standa yfir. Svona þjónustu myndu fæstir sætta sig við á þeirra meðferðartíma sem greitt er fyrir.
Útsöluvörur á uppsprengdu verði
Til viðbótar við allt annað kom í ljós hjá nokkuð mörgum þátttakendum að það tíðkast að ónefndar fatabúðir komi á dvalarheimilin með fatnað til sölu, sem er auðvitað frábær þjónusta. Vandamálið er að þangað er oft mætt með restar eftir útsölur á uppsprengdu verði. Þetta er alls ekki í lagi, svona á hreinlega alls ekki að koma fram við nokkurn mann hvað þá eldri borgara.
Stjórnendur verða að bregðast við
Mannlíf skorar á stjórnendur dvalarheimila að gera eitthvað í þessum málum sem og að hafa verð á allri þjónustu sem íbúum stendur til boða aðgengilega hvort sem það er fótsnyrting eða hársnyrting, ástandið hvað þessa þjónustuþætti varðar er ekki nógu gott, ekki síst með tilliti til verðlagningar sem er í of mörgum tilfellum allt of há miðað við veitta þjónustu. Að auki eru eldri borgarar í mörgum tilfellum sá hópur sem ekki vill eða þorir að kvarta og lætur því ýmislegt yfir sig ganga.