Föstudagur 27. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Afkoma láglaunafólks er óviðunandi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

SKOÐUN Stefán Ólafsson skrifar um kjaramál.

Við hrunið lækkaði kaupmáttur ráðstöfunartekna um 27-28%. Það fór ekki að lagast að ráði fyrr en með uppsveiflunni frá og með 2011.

Það segir sig sjálft að það var langur vegur að vinna til baka það sem tapaðist í hruninu – jafnvel þótt hagvöxtur hafi almennt verið góður frá 2011 og mjög góður 2015 til 2018.

Kjarasamningarnir sem gerðir voru árið 2015 miðuðu að því að klára þá endurheimt kaupmáttar sem tapaðist hafði og einnig að skila hagvexti síðustu ára að fullu til launafólks. Kjarasamningarnir voru ágætlega til þess fallnir, ekki hvað síst vegna þess að launabreytingar á fyrsta árinu voru meiri í lægri hópum en í þeim hærri. Kaupmáttur lægri hópa átti sem sagt að aukast mest.

Síðan komu til sögunnar neikvæð áhrif stjórnvalda á kaupmáttarþróunina.

Stjórnvöld unnu gegn kjarabótum láglaunafólks síðast

Stjórnvöld héldu áfram áður uppteknum hætti að láta persónuafslátt skattkerfisins ekki fylgja launaþróuninni og það hækkaði skattbyrði – mest hjá launalægstu hópunum. Síðan stórlækkuðu stjórnvöld útgjöld til húsnæðisstuðnings (vaxta- og leigubætur) og rýrðu einnig barnabætur. Allt varð þetta til að rýra umsamda kaupmáttaraukningu síðasta kjarasamnings.

- Auglýsing -

Þessu til viðbótar horfðu stjórnvöld aðgerðalaus á taumlausa græðgisvæðingu húsnæðismarkaðarins, í skjóli of lítils framboðs af íbúðarhúsnæði. Það leiddi til fordæmalausra verðhækkana á íbúðarhúsnæði og leigu – langt umfram launaþróunina.

Allar þessar afleiðingar stjórnvaldsaðgerðanna komu með mestum þunga niður á lágtekjufólkinu í samfélaginu – eins og Gylfi Zoega prófessor benti á í skýrslu til forsætisráðherra.

Síðan hækkaði verðlag vöru og þjónustu, meðal annars vegna hás gengis og aukinnar álagningar, uns Ísland var orðið dýrasta land Evrópu að búa í. Þar erum við stödd núna.

- Auglýsing -

Við þessar aðstæður vantar einstakling sem er á lágmarkslaunum (300 þúsund krónur á mánuði) um 115.000 krónur á mánuði til að láta enda ná saman, samkvæmt framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins og hóflegri áætlun á lágmarks húsnæðiskostnaði.

Stjórnvöld gætu lagt gott til nú – en draga lappirnar

Dæmið gengur ekki upp í lífi á lágmarkslaunum – nema með taumlausri aukavinnu og/eða búsetu hjá ættingjum eða vinum. Þetta er það sem verkalýðshreyfingin er að berjast fyrir núna, þ.e. að lágmarkslaun dugi til framfærslu.

Þessu er hægt að ná með launahækkunum, skattalækkunum og hækkun barna- og húsnæðisbóta – í ýmsum blöndum.

Verkalýðshreyfingin hefur nú krafist breyttrar stefnu í þessum efnum: skattalækkun til lægstu tekjuhópa og millitekjuhópa og endurreisn bótakerfanna. Niðurskurður í bótakerfinu frá 2011 er hins vegar ekki einu sinni bættur með þegar boðuðum skattalækkunum – sem að auki ganga upp til hæstu toppanna.

Stjórnvöld hafa lofað að beita sér sérstaklega til að bæta hag lægstu og lægri millihópa. Þau þurfa að gera betur en fram er komið og sleppa því að bjóða hátekjuhópum skattalækkun. Með því er illa farið með svigrúmið til skattalækkana.

Ef framlag stjórnvalda er léttvægt fyrir launalægri hópana þá þarf verkalýðshreyfingin að ganga fram með meiri þunga gagnvart atvinnulífinu.

Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -