Ákveðin örvænting er ríkjandi innan Sýnar eftir að komið er á daginn að afkoman er mun verri en Herdís Fjeldsted forstjóri og stjórn félagsins hafði haldið fram. Félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í gær þar sem tíundað er að sala auglýsinga sé undir markmiðum og áskriftasala hafi brugðist. Þá er eldsvoða kennt um verri fjárhag. .
Gert er ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir árið 2024 verði um 700 milljónir króna, sem er langt undir áður útgefnum spám. Fyrri áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að á bilinu 900 til 1.100 milljónir króna.
![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2025/02/stod-2-300x201.jpg)
Samkvæmt Kauphallartilkynningu Sýnar koma þessi frávik til vegna verulegrar lækkunar auglýsingatekna, samdráttar í áskriftartekjum sjónvarps, minni eignfærslna á launakostnaði og óvæntu tjóni vegna eldsvoða sem hafði veruleg áhrif á rekstur félagsins.
Flótti lykilfólks frá félaginu hefur verið mikill undanfarið. Flóttinn snýst að miklu leyti um óánægju með stjórntök Herdísar og meinta vinavæðingu.
![](https://www.mannlif.is/wp-content/uploads/2025/01/hakonstefansson-e1737098703684-150x150.jpg)
Mannlíf hefur fjallað ítarlega um útstandið innan Sýnar og þann brest í tekjum sem nú hefur verið viðurkenndur. Herdís hefur ekki svarapð spurningum Mannlífs en sendi bréf til starfsfólks þar sem hún hélt því fram að allt væri í jafnvægi hjá fyrirtækinu. Þá hefur stjórnarformaður Sýnar, Hákon Stefánssson, lýst því yfir að forstjórinn njóti fulls trausts. Það traust nær aðeins til stjórnar en ekki til stórra hluthafa sem teknir eru að ókyrrast.
Heimildir Mannlífs herma að innan félagsins sé ákveðið ráðaleysi og ákaft leitað leiða til að snúa við óheillaþróuninni. Kvisast hefur út að til standi að breyta nafni og vörumerki Stöðvar.
„Við fengum þær fréttir á göngunum að það ætti að fara í rebranding á félaginu,“ segir heimildarmaður Mannlífs sem vill ekki koma fram undir nafni af ótta við að vera rekinn. Þá er fullyrt að til skoðunar sé að loka tveimur útvarpsstöðvum, FM957 og X977 sem báðar hafi verið reknar með tapi. Þetta er þó ekki staðfest.
Endanlegt uppgjör Sýnar verður birt 20 febrúar.