„Ég fékk heilaæxli fyrir nokkrum árum á heyrnar- og jafnvægistaugina og það truflar allan ballans hjá mér,“ upplýsir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í sjónvarpsþættinum Úti sem sýndur verður á RÚV annað kvöld. Í þættinum er fylgst með kajaksiglingu Víðis og Ölmu Möller landlæknis í Hvalfirði á dögunum og þar kemur í ljós að Víðir á erfitt með að halda jafnvæginu í ölduganginum, en hann segist hafa skemmt sér vel og notið ferðarinnar, þrátt fyrir jafnvægisleysið.
„Þetta er erfitt sport upp á jafnvægið að gera. Ég er ekki mikill sjóhundur,“ viðurkennir Víðir, sem er alinn upp í Vestmannaeyjum og hefur alltaf notið þess að skoða landið frá sjó. „Maður sér landið allt öðruvísi og mér finnst þetta ferlega skemmtilegt sjónarhorn,“ segir hann.
Hægt verður að fylgjast með kajakferð þeirra Ölmu og Víðis í þættinum Úti sem er á dagskrá á RÚV á sunnudag klukkan 20:25. Úti eru ferðaþættir í umsjá Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall þar sem þau fara með landsþekkta Íslendinga í svaðilfarir um ósnortna náttúru Íslands.