Klukkan 19:07 í gær varð skjálfti að stærð 5,8 rúma 30 kílómetra NNA af Siglufirði. Það er þriðji skjálftinn yfir 5 að stærð og jafnframt sá stærsti í jarðskjálftahrinunni sem hófst á svæðinu 19. júní. Aðrir skjálftar yfir 5 að stærð voru 5,6 og 5,4 að stærð og voru staðsettir rúma 20 km NA af Siglufirði. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Stærstu skjálftarnir hafa fundist á öllu norðanverðu landinu og suður á höfuðborgarsvæðinu. Frá því að hrinan hófst hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett yfir 3.000 skjálfta.
Enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu og áfram eru líkur á því að fleiri stærri skjálftar muni verða. Fólk sem býr á þekktum jarðskjálftasvæðum er hvatt til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta.