Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

„Afstaða Brynjars lýsir aldagömlum viðhorfum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Anna Þóra Kristinsdóttir og Anna Bentína Hermansen, ráðgjafar hjá Stígamótum, eru sammála um að viðhorf samskonar þeim sem Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnvart vændi séu á undanhaldi.

Í síðustu viku voru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður VG, og Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, gestir Kastljóss. Þar var rætt um hvort nafngreina ætti brotamenn í dómum sem falla hér á landi vegna vændiskaupa. Bjarkey telur að nafnbirting gæti haft fælingarmátt á meðan Brynjar sér engan tilgang í að nafngreina þá vændiskaupendur sem eru sakfelldir.

Skiptar skoðanir eru um málið en viðhorf Brynjars gagnvart vændismálum almennt hafa vakið athygli, meðal annars skoðun hans um það sé val að stunda vændi og því ætti ekki að skilgreina vændi sem ofbeldi.

Í samtali við Mannlíf segja þær Anna Þóra Kristinsdóttir og Anna Bentína Hermansen, ráðgjafar hjá Stígamótum, Brynjar greinilega hundsa sögur þeirra kvenna sem hafa stundað vændi og stigið fram og greint frá reynslu sinni.

„Brynjar vill að seljandi vændis taki ábyrgð á sinni ákvörðun og líti ekki á sig sem brotaþola, heldur jafnvígan þátttakanda í viðskiptum á þjónustu. Hann hundsar algjörlega þau ummæli sem koma frá konum í vændi,“ segir Anna Bentína.

Hann hundsar algjörlega þau ummæli sem koma frá konum í vændi.

„Ástæðan fyrir því að vændi var gert refsivert eru auknar upplýsingar, rannsóknir og vitneskja um afleiðingar vændis. Sú vitneskja er ekki úr lausu lofti gripin og fylgir ekki einhverjum skoðunum sem við kunnum að hafa á skilgreiningu á viðskiptum. Afleiðingar af vændi eru það víðtækar og viðamiklar að fjölmörg lönd sem við berum okkur saman við líta á vændi sem kynferðisofbeldi þar sem einstaklingur í yfirburðastöðu nýtir sér neyð annarrar manneskju.“

Anna Þóra og Anna Bentína eru sammála um að viðhorf samskonar þeim sem Brynjar hefur gagnvart vændi séu á undanhaldi.

- Auglýsing -

„Samkvæmt íslenskum lögum eru vændiskaup lögbrot. Afstaða Brynjars lýsir aldagömlum viðhorfum sem gerðu konur ábyrgar fyrir þeim brotum sem þær urðu fyrir. Brynjar segir að seljandi vændis eigi að taka ábyrgð á þeirri ákvörðun sem hún tekur þegar hún selur sig. Þessi viðhorf eru, að okkar mati, á pari við þá hugmyndafræði að konan geti sjálfri sér um kennt að verða fyrir nauðgun eða heimilisofbeldi. Hún þarf að taka ábyrgð á þeirri ákvörðun að giftast ofbeldismanni eða að búa áfram með honum. Hún hefði líka mátt vita að klæðnaður hennar sendi körlum ákveðin skilaboð og þess vegna var henni nauðgað. Sem betur fer eru slík viðhorf á undanhaldi, við erum upplýstari og vitum betur hvers eðlis kynferðisbrot eru. Gagnvart vændi er hins vegar uppi bergmál þessara úreltu viðhorfa sem Brynjar Níelsson heldur á lofti.“

Líkti því að stunda vændi við það að starfa á skyndibitastað

Í þætti Kastljóss sagði Brynjar það vera ákvörðun að vinna við vændi, alveg eins og það væri ákvörðun að vinna á McDonalds.

- Auglýsing -

„Stígamót gerði úttekt á afleiðingum vændis hjá 41 einstaklingi sem leitaði til okkar yfir ákveðið tímabil og hafði verið í vændi. Þar kom fram að 90% þessara einstaklinga upplifði skömm í kjölfar vændisins og 66% þeirra höfðu gert tilraun til sjálfsvígs í kjölfar vændisins. Setjum þessar tölur í samhengi við „önnur störf“, eins og það að vinna hjá McDonalds, eins og Brynjar gerði. Hvað ef 90% þeirra sem ynnu hjá McDonalds upplifðu svo mikla skömm að þeir gætu ekki talað við nokkurn mann um starfið eða við hvað þeir störfuðu? Hvað ef að 66% þeirra sem hafa starfað hjá McDonalds eða í annarri starfsstétt hefðu gert tilraun til sjálfsvígs?

Vafalaust mundum við setja spurningarmerki við starfsumhverfi McDonalds og gera nákvæma úttekt á hvers vegna starfsfólki liði svona. Sambærilegar úttektir á reynslu þeirra sem stunda vændi gerðu það að verkum að mörg samfélög hafa gert vændiskaup refsiverð.“

Til að greinast með áfallastreituröskun þarf maður að verða fyrir áfalli þar sem maður er hætt komin.

Anna Þóra og Anna Bentína benda einnig á að erlendar rannsóknir hafi leitt í ljós að um 70% þeirra sem hafa stundað vændi hafa þróað með sér áfallastreituröskun. „Þessar tölur gefa til kynna að afleiðingar vændis geta verið þær sömu og þegar við erum stödd í miðjum stríðsátökum eða náttúruhamförum. Sem sýnir alvarleika afleiðinganna. Til að greinast með áfallastreituröskun þarf maður að verða fyrir áfalli þar sem maður er hætt komin, til dæmis vegna alvarlegs slyss, náttúruhamfara eða kynferðisofbeldis, sem vændi er.“ Þær benda einnig á að rannsóknir hafa leitt í ljós að mikill meirihluti þeirra sem stunda vændi hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi sem börn eða unglingar.

„Svo má velta fyrir sér hvort skoðanir Brynjars á vændismálum megi heimfæra á önnur mál. Ef refsingar í vændismálum duga ekki, eins og Brynjar segir, og gerir brotaflokkinn aðeins harðari, eigum við þá að gera önnur brot refsilaus? Auka þyngri refsingar sjálfkrafa á að brotin verði harðari og ofbeldisfyllri? Eigum við þá ekki að afnema refsingar alveg, eða á það bara við um vændi?“

Sjá einnig: „Fólk sem kaupir vændi er fólk sem beitir ofbeldi“

Sjá einnig: Vændismálum á borði lögreglu fækkar þrátt fyrir „sprengingu“

Sjá einnig: „Hvað fær menn til að kaupa vændi?“

Sjá einnig: „Ætlaði bara að prufa og bakka út þegar ég vildi“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -