Ekki er annað að sjá en að spár Veðurstofu Íslands um aftakaveður á landinu í dag ætli að ganga eftir. Nýjasta spáin boðar austan rok eða ofsaveður og fárviðri í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins en lægja mun með kvöldinu.
„Austan rok eða ofsaveður (23-30 m/s), en fárviðri (yfir 32 m/s) í vindstrengjum á suðurhelmingi landsins. Víða slydda eða snjókoma, úrkomumest sunnan- og austanlands. Snýst í sunnan hvassviðri sunnantil landinu seinnipartinn með rigningu á láglendi og hita 1 til 5 stig, en þá áfram rok og ofankoma um landið norðanvert. Lægir talsvert á landinu í kvöld og dregur úr úrkomu.
Gengur í austan og norðaustan 13-20 m/s á morgun, en 20-25 um tíma syðst á landinu. Rigning eða slydda um landið sunnan- og austanvert. Þurrt norðan- og vestanlands framan af degi, en dálítil úrkoma þar seinnipartinn. Hiti 1 til 6 stig,“ segir á vef Veðurstofu.
Stjórnstöð Almannavarna hefur verið virkjuð og björgunarsveitir Landsbjargar hafa verið að störfum á Suðurlandi. Tilkynningar um fok eru að berast á Kjalarnesi og höfuðborgarsvæðinu. Þar er gert ráð fyrir að mest beri á veðrinu í efri byggðum.
Á Facebook-síðu Veðurstofunnar segir að fárviðrinu muni víða fylgja mikil ofankoma um tíma og búast megi við að snjóflóðahætta geti skapast. Þá mælast nú eldingar úti á hafi og líkur séu á að þær nái að ganga inn á landið sunnan til með morgninum.