Þriðjudagur 24. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ágengir Tinder-notendur bjóða greiðslur fyrir kynlíf

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

Kvenkynsnotendur á Tinder lenda ítrekað í því að þeim sé boðin greiðsla fyrir kynlíf þrátt fyrir að hafa frábeðið sér frekari samskipti. Teymisstjóri Bjarkarhlíðar segir hættu á að svona tilboð auki hættuna á því að viðkvæmir hópar leiðist út í vændi.

 

Tinder er vinsælasta stefnumótaforrit heims og er notkun þess útbreidd hér á landi. Ekki er of djúpt tekið í árinni þegar sagt er að forritið hafi gjörbreytt stefnumótamenningu Íslendinga. En forritið hefur sínar skuggahliðar og er vændi ein þeirra. Ragna Björg Guðbrandsdóttir, teymisstjóri Bjarkarhlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, kannast við þetta. Margar konur kvarti undan ágengni karlmanna.

„Það eru margar konur sem tala um að ef þær eru að leita eftir sambandi og sýna ekki hinum aðilanum áhuga, að þá komi þessi spurning: „Hvað ef ég borga?“. Þetta lýsir vel marka- og virðingarleysinu sem margar konur þurfa að fást við. Þetta er eitthvað sem við heyrum mjög oft“.

„Þetta lýsir vel marka- og virðingarleysinu sem margar konur þurfa að fást við.“

Ragna Björg segir að í sjálfu sér sé bara ein leið til að bregðast við svona boðum. „Náttúruleg viðbrögð eru að hætta að tala við manneskjuna sem sýnir svona hegðun. Hættan er mest þegar um viðkvæma hópa er að ræða, þetta er oft eitthvað sem ýtir fólki yfir brúnina.“

 Mikil aukning það sem af er ári

- Auglýsing -

Greina má umtalsverða aukningu í fjölda þeirra sem leitað hafa til Bjarkarhlíðar vegna ofbeldis. Fyrstu fjóra mánuði ársins leituðu 210 manns til miðstöðvarinnar samanborið við 479 allt árið í fyrra. Engin ein ástæða er fyrir þessari aukningu, að sögn Rögnu Bjargar.

„Við finnum einna helst fyrir því að sá hópur sem þarf að yfirgefa heimili sitt vegna ofbeldis er að stækka, fólk sem er að flýja ofbeldi og eiga í engin hús að vernda. En að öðru leyti er aukningin heilt yfir.“

Af þeim 479 sem leituðu til Bjarkarhlíðar í fyrra voru 87 prósent konur og 13 prósent karlar. Stærsti hópurinn, eða um helmingur, leitar þangað vegna heimilisofbeldis en um einn af hverjum fimm vegna kynferðislegs ofbeldis. Þessi mikla ásókn hefur orðið til þess að biðlistar eru farnir að myndast í kerfinu.

- Auglýsing -

„Við heyrum það á þeim samtökum sem vinna með okkur að það er mikil aðsókn.  Það er enn þá ekki bið í fyrsta viðtal í Bjarkarhlíð en nokkur bið eftir stuðningsúrræðum í framhaldinu.“

Ragna Björg segir að þessi bið geti reynst mörgum erfið. „Margir þeirra sem leita til okkar eru að fá aðstoð vegna eldri mála. Þeir hafa beðið í langan tíma og þegar fólk tekur ákvörðun um að leita til okkar þá er það mjög stórt skref. Þess vegna getur aukin bið verið gríðarlega erfið.“

Mynd / Hallur Karlssson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -