Agnieszka Ewa Ziólkowska hefur gefið það út að hún muni ekki láta undan þrýstingi Guðmundar Baldurssonar og segja af sér embætti varaformanns Eflingar.
Guðmundur var ómyrkur í máli í Kastljósi í gærkvöldi og sagði það skýrt í sínum huga að Agnieszka væri jafn ábyrg og aðrir í Eflingu og ætti því að segja af sér.
Agnieszka segir að krafa Guðmundar sé svívirðileg og lýsi fordómum í garð útlendinga.
„Þetta er í fyrsta sinn í Íslandssögunni sem útlend manneskja er í valdamikilli stöðu innan verkalýðshreyfingar, og í fyrsta sinn sem útlendingar eru með einstakling í forsvari. Þetta er bara svívirðilegt,“ segir hún í samtali við Vísi í dag.
Með þessu tekur hún undir orð Sólveigar Önnu, sem sagðist hreinlega ekki geta annað en hlegið að kröfu Guðmundar.
Agnieszka gat ekki svarað því hvort hún myndi taka við formannsstólnum af Sólveigu Önnu. Hún sagði að fyrst þyrfti að boða til formlegs stjórnarfundar.
Agnieszka vildi annars litlu svara í samtali sínu við Vísi. Til að mynda fékkst ekkert upp úr henni varðandi það hvort hún væri sammála því að samskiptavandi ríkti á skrifstofu Eflingar.