Pólverji, sem búið hefur á Íslandi í 14 ár telur hugsanlegt að vantraust meðal samlanda sinna til íslenskra stjórnvalda, útskýra dræmari mætingu þeirra í bólusetningu. Þá gæti einnig verið að fréttaflutningu og samfélagsumræða í Póllandi hafi áhrif.
Fram kom í fréttum fyrr í vikunni að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins íhugaði að reyna að ná til óbólusettra með sérstökum bólusetningarbíl sem til að mynda myndi aka á framkvæmdarsvæði í tilraun til þess að hitta á erlenda verkamenn. Alls voru tólf prósent fólks, sextán ára og eldri, óbólusett á Íslandi þegar það var kannað í ágúst. Meirihluti þeirra, 60,4% var með erlent ríkisfang. Þegar horft var á íbúa með erlent ríkisfangt, í heild, voru 48% óbólusett.
Agnieszka Sokolowska, þjónustufulltrúi hjá Reykjavíkurborg var í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í gær. Var hún spurð út í mögulegar ástæður fyrir þessu en langflestir innflytjenda á Íslandi koma frá Póllandi. Segist Agnieszka ekki geta talað fyrir alla Pólverja en hún telji ástæðuna mögulega vera þá að hreyfing bólusetningarandstæðinga sé mjög sterk í Póllandi. „Og þetta hefur áhrif. Pólverjar hér á Íslandi eru oft að fylgjast með fréttunum frá heimalandi sínu, ekki sérstaklega íslenskum fréttum. Og það er bara áhyggjur um óöryggi bóluefnisins eða aukaverkanir.“
Ennfremur segir hún að upplifun sumra samlanda sinna í fyrstu bylgjunni, hafi verið þá að Íslendingar ættu frekar tilkall til bóluefnisins. „Eða að einhverjum upplýsingum sé haldið frá útlendingum.“
Telur hún ósennilegt að hægt sé að sannfæra þá sem eftir eru úr þessu. „Nema ef vinnurekendur eru að krefjast þess að starfsmenn séu bólusettir.“