Flokkur fólksins hefur birt framboðslista sinn í Norðvesturkjördæmi og það vekur athygli að Ágúst Heiðar Ólafsson, kerfóðrari í Norðuráli, er í öðru sæti á þeim framboðslista en hann situr einnig í fjórtánda sæti á framboðslista Frjálslynda lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi.
Þetta kemur fram í frétt á vefmiðlinum austurfrett.is.
Nákvæmlega núna er Ágúst Heiðar því á tveimur framboðslistum, hjá sitthvorum flokknum í sitthvoru kjördæminu.
Ágúst segist hafa þegið sæti hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum fyrir nokkru þegar Guðmundur Franklín bað hann um það.
„Guðmundur Franklín spurði í mig persónu hvort ég hefði áhuga á að taka fjórtánda sæti og ég sagði já. Hann vissi að ég bjó á Akranes þannig ég tel það hafi bara verið mannleg mistök að setja mig á lista fyrir Norðausturkjördæmið,“ segir Ágúst sem segist vera í Flokki fólksins og hann ætli sér að vera í framboði þar en ekki hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum.
Guðmundur Franklín segir að Ágúst muni vera í framboði fyrir Flokk fólksins.
„Þetta er með ólíkindum. Þetta er enn eitt skemmdarverkið frá Flokki fólksins.“