Þriðjudagur 19. nóvember, 2024
-4.5 C
Reykjavik

Ágústa bjó við heimilisofbeldi í mörg ár: „Hann nærist á lífi annarrar manneskju og smám saman murkar úr henni lífið í meðvirkni hennar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Umræða hefur verið um aukið heimilisofbeldi á tímum kórónuveirufaraldursins og samkomubanns. Á daglegum upplýsingafundi almannavarna 7. apríl var Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, gestur fundarins og vakti hún athygli á því að bæði rannsóknir og reynsla sýna að hætta á að heimilisofbeldi aukist og verði alvarlegra, jafnvel færist í aukana á meðan samkomubann er í gildi vegna útbreiðslu COVID-19.

Í erindi sínu beindi Sigþrúður orðum sínum að gerendum og hvatti þá sem beita heimilisofbeldi til að leita sér aðstoðar.

Fundurinn varð til þess að Ágústa Ágústsdóttir fékk loksins kjark til að setjast niður og skrifa um eigin reynslu af heimilisofbeldi, sem hún bjó við í 14 ár með fyrrum sambýlismanni sínum og barnsföður. Ágústa veitti Mannlífi góðfúslega leyfi til að deila skrifum hennar.

„Það var tilgangurinn með þessum skrifum, að reyna að breyta einhverju slæmu í eitthvað gott,“ segir Ágústa.

„Ég skrifa þetta í þeirri trú að ég sé fyrirmynd fyrir börnin mín og alla þá sem treysta sér ekki til að segja sína sögu og sýni fram á að það er alltaf leið út úr myrkrinu. Endilega deilið sem víðast því það er virkilega þörf fyrir þetta!“

Hér á eftir fylgir pistill Ágústu í heild sinni, millifyrirsagnir eru blaðamanns.

- Auglýsing -

„.Hann á bara erfitt. Hann átti svo slæma barnæsku. Hann getur ekkert að þessu gert“

„Elsku þú! Í ljósi umræðunnar um aukið heimilisofbeldi langar mig að opna dyrnar mínar og tala til þín sem þarft á því að halda og láta þig vita að þú ert ekki ein, þótt þér finnist það í þínum aðstæðum. Að finnast maður vera aleinn í heiminum, þora ekki að segja frá og tala um það sem raunverulega er að gerast inn á heimilinu. Heimilinu þínu. Af ótta við að enginn muni trúa þér. Af ótta við að þú munir uppgötva að þú ert sú sem ert rugluð. Af ótta við að fólkið þitt muni snúa við þér baki því þú ert sú veika. Að það ert þú sem ert að gera vandamál úr hlutum. Storm í vatnsglasi. Hver myndi trúa svona hlutum?

Af því að svo lengi hefur þú verið að berjast við að fela hluti. Halda uppi ímyndinni. Halda heimilinu saman. Láta hlutina ganga. Sýna öllum að þú sért einhvers virði. Sýna heiminum að þú sért einhvers virði. Sýna honum að þú sért þess virði. Þessum dásamlega manni sem þú ert búin að búa með í þessi ár. Hann á bara erfitt. Hann átti svo slæma barnæsku. Hann getur ekkert að þessu gert. Mamma hans var alltaf svo vond við hann. Hann er að reyna eins og hann getur. En stundum á hann slæma daga. Allir eiga slæma daga. Af hverju á hann ekki að fá skilning eins og allir aðrir? Innst inni er hann góður maður. Þú getur ekki yfirgefið hann því það gerir maður ekki þegar fólk á erfitt. Þú værir ekki góð kona ef þú yfirgæfir hann þegar hann þyrfti mest á þér að halda. Hvað ef eitthvað slæmt kæmi fyrir og þú værir búin að yfirgefa hann? Það væri þá þér að kenna fyrir að hafa ekki verið til staðar. Þú gætir aldrei fyrirgefið sjálfri þér það. Þú berð mikla ábyrgð. Ábyrgð á öllu. Er það ekki?

- Auglýsing -

Þú segir við sjálfa þig „Ekki er ég fullkomin heldur. Ég get verið alveg hræðileg og ekki yfirgefur hann mig þrátt fyrir það. Ég er eiginlega ómöguleg manneskja, ég veit það og ætti að vera þakklát fyrir að hann elski mig og vilji búa með mér áfram. Á þennan hátt er hann betri manneskja en ég. Miklu sterkari. Við látum þetta ganga. Ég læt þetta ganga. Það var engin tilviljun að við hittumst. Við eigum heima saman. Við elskum hvort annað. Þetta mun allt saman lagast og verða betra. Við þurfum bara tíma. Ég get hjálpað honum að breytast.“

„Sáttakynlífið er svo gott, það finnst honum allavega“

„Og eftir á, þegar hann skríður upp í til mín og vefur örmum sínum utan um mig grátbólgna og tóma eftir að ég brotnaði enn einu sinni. Hann er hlýr og auðmjúkur þegar hann segir svo oft: „Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki að gera þetta. Ég ætlaði ekki að segja þetta. Þú misskildir mig. Þetta kom allt rangt út úr mér. Ég er ekki svona klár að tjá mig eins og þú. Ég elska þig svo mikið. Ég var bara svo hræddur um að missa þig. Ég get ekki hugsað mér lífið án þín. Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef þú færir frá mér. Ég veit þetta var mér að kenna. Ég skal breytast. Ég skal gera allt fyrir þig.“

Og svo er sáttakynlífið svo gott á eftir. Það finnst honum allavega. Mig langar ekki því ég er tóm. Ég er þreytt, dofin. En ég læt eftir honum því þá verður allt gott á eftir. Annars verður hann brjálaður aftur. Þá fæ ég að heyra hvað ég sé mikil ísdrottning. Að það sé eitthvað að mér. Er ég orðin hrifin af öðrum? Hann ræddi þetta við trúnaðarvin sinn og sá var alveg sammála honum um að það hlyti einhver annar að vera í spilinu. Ég veit að alveg sama þótt hann fái kynlíf sjö sinnum í viku eða einu sinni í mánuði þá er ég alltaf sökudólgurinn. Ég er aldrei nóg. Ég er kynköld. Ég er lokuð. Ef ég elskaði hann í alvörunni þá myndi ég ekki vera svona fráhrindandi í rúminu. Ég er ekki tilbúin í sumt sem hann vill. Samt heldur hann áfram að biðja um það. Hann brýtur mörkin mín ítrekað. Ég þarf alltaf að vera á varðbergi. Get sjaldnast slakað á. Sef á varðbergi. Sef illa. Get sjaldnast notið mín. Í það skiptið sem allt gengur upp og hann hagar sér vel hugsa ég „Ok, þetta var yndisleg stund. Þetta hlýtur að vera merki um að hann sé að taka sig á. Nú hlýtur þetta að vera á réttri leið.“ En svo kemur næsta skipti.

Í hvert skipti sem hann kemur við mig eða tekur utan mig og ég leyfi mér að taka á móti í von um hlýju, snýst allt upp í kynferðislega tóna. Ég er ekki tilfinningavera. Ég er kjötskrokkur. Hann vill mig ekki heldur bara líkamann. Ég er svo svöng og hungrið eykst bara. Hungrið eftir hlýju. Bara hlýju.“

„Ég held áfram ótrauð að verja hann og afsaka fram í rauðan dauðann“

„En friðurinn er eftirsóknarverður. Bara að finna frið og ró, að allt sé í lagi. Ég legg mikið á mig til að finna það. En það virðist vera allveg sama hvað ég legg mikið á mig. Einhvern veginn lagast ekkert. Ekkert breytist. Hann breytist ekki. Hann lofaði því samt svo mörgum sinnum. Það hlýtur samt að koma að því eftir öll þessi ár. Ég reyni bara áfram eins og góðri konu sæmir. Og ég held ótrauð áfram að verja hann og afsaka fram í rauðan dauðann.

Ég er þreytt. Svo ólýsanlega þreytt. Ég er líka reið. Ólgandi reið. En það er betra bara að reyna halda friðinn. Það kostar minni orku tel ég sjálfri mér trú um, því ég er orðin samdauna ástandinu. Ég er holdgervingur meðvirkninnar. Af hverju er ég alltaf að verja hann? Af hverju á hann meira erfitt en allir aðrir? Af hverju er hann alltaf fórnarlambið? Af hverju er það alltaf öðrum að kenna hvar hann er staddur í lífinu? Af hverju berð þú ábyrgð á honum? Hefur þú prófað að spyrja sjálfa þig að þessu?“

„Hann lýgur stanslaust um alla minnstu hluti“

„Ég veit hann lýgur. Hann lýgur stanslaust um alla minnstu hluti. Hann segir mér eitt en öðrum allt annað. Til að halda mér á tánum. Til að honum finnist hann voldugur. Til þess hann hafi stjórnina. Og hann er sannfærandi. Eins og atvinnumaður. Þegar ég stend hann að lyginni verður hann öskuillur. Illur yfir því að ég saki hann um lygi. En í raun er hann illur vegna þess ég sé lygina og kaupi hana ekki. Ber hana upp á hann. Og þá lýgur hann enn meira. Orð fljúga og rifrildið magnast. Hann nötrar í framan af reiði, andlitið rennur aftur og minnir eilítið á grimman hund sem tilbúinn er að stökkva á mig hvenær sem er ef ég held áfram að ögra honum. Hann er svo sannfærður, svo einarður í sinni sannfæringu að ég sé að saka hann um ósannindi. Á endanum er ég orðin svo þreytt, svo uppgefin og þvæld að ég fer í alvörunni að hugsa hvort þetta geti verið rétt hjá honum. Var ég kannski eftir allt saman að misskilja hann og saka hann um eitthvað sem hann átti ekki skilið? Það er betra að halda friðinn. Úthaldið er þrotið í bili. Ég brotna, fer að gráta, loka mig inni í herbergi og fer í fósturstellinguna. Vil bara sofna og fá frið. Tíma í friði. En ég fæ það ekki. Hann eltir mig inn og upp í rúm. Nú er hann bljúgur og mjúkorður. „Eigum við ekki að vera vinir, ástin mín. Er þetta ekki orðið gott?“

„Ég loka mig smá saman af, einangra mig“

„Ég er þessi alvörugefna í sambandinu. Hann er svo lífsglaður og kátur. Öllum líkar vel við hann því hann er svo hjálpsamur og bóngóður. Vinur allra. Reitir af sér brandara og hlær. Slær um sig á kostnað annarra. Ýkir allar frásagnir því það er svo miklu skemmtilegra þannig. Fólk heimsækir okkur bara þegar hann er heima. Enginn kemur þegar ég er ein. Það hýtur að vera vegna þess að ég er svo hræðilega óspennandi og leiðinleg. Ekki vegna andrúmsloftsins á heimilinu og þeirrar staðreyndar að enginn kemur eiginlega lengur til okkar. En það er auðvitað vegna þess hvernig ég er. Hann segir mér það reglulega þegar ég haga mér ekki eins og hann vill „Djöfull ertu rugluð maður, djöfull ertu biluð. Þú sérð ekki hvernig þú hagar þér. Það tala allir um þetta í kringum okkur. Það sjá þetta allir nema þú.“

Og efasemdarfræjum er sáð. Og þau spíra. Ég er tortryggin gagnvart öðrum. Ég loka mig smám saman af. Einangra mig því engum finnst ég þess virði að kynnast. Og hvað með það. Ég þarf ekki á þeim að halda. Þau mega bara eiga sig og sitt sýndarveruleika-fullkomna líf. Hver halda þau að þau séu eiginlega? Þau eru ekkert betri en ég. Ef þau bara vissu hvernig allt væri í raun og veru. Ef þau bara gætu séð hvernig hann er í raun og veru. Tvöfaldur. Margfaldur. Reiðin ólgar og kraumar. Það rétta væri að fara. Taka börnin og fara. Börnin. Aumingja börnin. Þá fer allt á hvolf hjá þeim og það verður mér að kenna. Þau munu kenna mér um og verða mér reið. Þá mun hann ná tökum á þeim og notfæra sér stöðuna sér í hag. Ég get það ekki. Ég verð að reyna áfram fyrir börnin.“

„Jú að drepa þig“

„Um nóttina er ég á varðbergi. Um leið og ég heyri lítil fótatök trítla eftir ganginum á leið sinni að skríða upp í, sprett ég fram úr og er komin fram í dyr og flýti mér með barnið aftur yfir í sitt rúm. Hann vill nefnilega alls ekki hafa þau upp í hjá okkur. Verður yfirleitt brjálaður af pirring og rýkur fram. Þá hefur hann ekki greiðan aðgang að líkama mínum ef barn er á milli. Betra að halda friðinn. Svo börnin verði ekki vör við neitt.

Þegar ég sýni styrk verður hann hræddur og vanmáttugur. „Af hverju varst þú ekki að drekka í bændaferðinni í dag? Fólk var spyrja mig að því hvort það væri eitthvað að, því þú varst með fýlusvip á þér allan daginn.“ Ég spyr hann á móti „Mér leið mjög vel. Hefði þér liðið betur ef ég hefði verið að drekka?“ Hann svarar „Fólk leggur nú saman tvo og tvo þar sem ég drekk ekki og heldur því að ég sé að banna þér að drekka. Þetta var ömurleg ferð. Þú sást algjörlega um að eyðileggja hana alveg fyrir mér“.
Hann finnur sig lítinn því ég tók sjálfstæða ákvörðun án þess að tilkynna honum um hana fyrir fram. Það sviptir hann völdum. Það finnst honum vont. Því finnur hann leið til að brjóta mig niður aftur.

Hann horfir á mig nötrandi af reiði „Drullaðu þér frá andlitinu á mér áður en ég æli helvítis ógeðið þitt.“ Svo leikur hann sér að því að kúgast. Ég spyr hann „Hefur þú aldrei átt þér drauma um hluti sem þig langar til að gera í lífinu?“. Hann svarar „Jú, að drepa þig.“ Svo hlær hann.

Fylltist hræðslu þegar hún yfirgaf manninn

Ágústa segir frá því óstjórnleg hræðsla hafi gripið hana þegar hún hafði sig loks í að pakka, og yfirgefa manninn endanlega, eftir þrjár tilraunir á fjórtán árum.

„Þegar ég loks hafði mig í að pakka ofan í tösku eftir þrjár tilraunir á fjórtán árum og þremur börnum ríkari og yfirgaf hann, helltist yfir mig óstjórnleg hræðsla. Hræðsla við að hann myndi koma heim og koma að mér vera að pakka niður. Það var í fyrsta skipti sem ég áttaði mig virkilega á að ég var hrædd við hann. Hörkutólið ég. Það var óhugsandi. Á þessum tíma var ég orðin samdauna líferni sem hafði verið partur af lífi mínu svo lengi að mér fannst það vera „normið“. Ég kunni ekki að lifa öðruvísi. Að stíga út fyrir þetta líferni voru ókannaðar lendur sem ég sannfærði sjálfa mig of oft um að ég gæti ekki. Að ég kynni ekki. Því ég ætti ekkert betra skilið.“

Segir hún frá hvernig maðurinn mun reyna fyrst á eftir að höfða til konunnar með fagurgala, síðan samvisku og loks hótunum.

„Hann mun reynast ósköp bljúgur fyrst á eftir eins og í hin skiptin og höfðar til þín með hlýjum og ástríkum orðum. Orðum sem hann veit að þú vilt heyra. Svo höfðar hann til samvisku þinnar því þú ert náttúrulega að svíkja hann og ykkar samband sem aldrei hafði fengið að blómstra almennilega. Þú ert að svíkja börnin. Hann lofar öllu fögru. Þegar hann áttar sig á því að fögru orðin virka ekki lengur breytast leikarnir. Skrápurinn snýst við og hið sanna eðli kemur í ljós. Hann gerir allt til að sannfæra aðra í kringum ykkur um að þú sért gengin af göflunum. Reynir að saka þig um framhjáhald jafnvel. Hann notar allt sem hann hefur á þig til að reyna brjóta þig niður. Allt það viðkvæma sem þú treystir honum fyrir. Allt sem gekk á í ykkar sambandi notar hann gegn þér og snýr og hagræðir eins og honum finnst henta sér best. Hann kennir þér um flest það sem miður hefur farið í hans lífi.

Í raun fer í gang einhverskonar kafbátahernaður þar sem hann passar að halda andliti sínu og sannfæringakrafti gagnvart öðrum, en þér sýnir hann tennurnar þegar enginn annar sér til. Hann reynir á allan hátt að taka þig á taugum samtímis og hann strögglar við að halda sjálfum sér saman. Því sannleikurinn er sá að ofbeldismenn eins og hann geta ekki verið einir. Þá „deyr“ hann. Þá ríkir stjórnleysi. Hann þarf súrefni og súrefnið tekur hann frá öðrum. Hann lifir á öðrum. Hann nærist á lífi annarrar manneskju og smám saman murrkar úr henni lífið í meðvirkni hennar og endalausri viðleitni við að reyna bjarga þessum góða manni sem lífið hefur barið svo ósanngjarnt á. Þegar sú manneskja hverfur úr lífi hans hefst hann strax handa við að finna nýja til að „ná andanum“. Það er nefnilega gríðarstór munur á hjálpsemi og samkennd og svo meðvirkni og vorkunn.

Því auðvitað er ekkert að hjá honum. Hann er bara svona óheppinn með konur!“

„Enginn getur átt þig nema þú“

Að lokum biðlar Ágústa til kvenna sem fastar eru í ofbeldissambandi að þær viti að þær séu ekki einar og ástandið sé ekki þeim að kenna.

„Elsku þú. Þú ert ekki ein. Í þinni einangrun ertu ekki ein. Ég vil að þú vitir að enginn getur átt þig nema þú sjálf. Og ég vil að þú vitir að þú berð ekki ábyrgð á hamingju annarra. Það er ekki þitt hlutverk í lífinu að bjarga öðrum. Það er engum að kenna hvar þú ert stödd í lífinu. Og ég vil að þú vitir að það er ekki þér að kenna að þú sért í ofbeldissambandi. Ábyrgðina berðu fyrst og fremst gagnvart sjálfri þér. Að standa með sjálfri þér. Það getur enginn tekið skrefið nema þú sjálf. Og þú ert sterk, miklu sterkari en þú heldur. Að viðurkenna fyrir sjálfri þér að þú sért í ofbeldissambandi og þú þurfir hjálp er eitt það erfiðasta sem til er.

En þar liggur einmitt styrkurinn. Trúðu mér. Því þó svo okkar aðstæður séu ólíkar þá hef ég verið þarna sjálf. Að rétta út höndina og kalla á hjálp er merki um gríðarlegan styrk og hugrekki þrátt fyrir að á þeim tímapunkti finnir þú þig lafhrædda, eina, yfirgefna og áttavillta. Að grípa svo í útrétta hjálparhönd sem tilbúin er að taka utan um þig er það besta sem til er. Þar er hvíldin og friðurinn sem þú svo lengi ert búin að reyna að finna. Þar finnur þú byrjunina á einhverju sem þú ein getur haft völd yfir. Þar byrjar lífið. Þar byrjar þú!
Ef þú hefur haldið út allan þennan tíma núna í ofbeldinu þá veistu að þú hefur úthald í að taka utan um sjálfa þig, halda fast og labba út. Því ef það er eitthvað sem þú hefur lært þá er það útsjónarsemi og hæfni til að lifa af!“

Þetta ljóð kom til mín í vetur og er samið til þín. Það heitir „Það birtir“:

Opnist himnar yfir mér
kom englar mér yfir vaki.
Er þrótturinn þrýtur
og hugur minn myrkvast
er allt lokast að mínu baki.

Ó leiddu mig veginn áfram
þú andans miskunn og náð.
Meðan svart brimið brýtur
á bakinu grýttu
ó lýstu mér gefðu mér ráð.

Í sálardjúpsins ölduróti
er myrkrið skyggir sýn á allt
viltu muna að ljósið er aldrei langt undan
og hlýjar er þér er kalt.

Ég bið að þú horfir að ofan
og samtímis allt um kring.
Myrkri burtu bægir
úr hugarfylgsnum
baðir mig í ljósahring.

Minn lífsins vegur er valtur
og oft hef ég villst af leið.
Þá storminn loks lægir
er ég aftur finn ljósið
það ávallt þar eftir mér beið.

Í sálardjúpsins ölduróti
er myrkrið skyggir sýn á allt
villtu muna að ljósið er aldrei langt undan
og hlýjar er þér er kalt.

Með von um að þú finnir þinn veg,
þín Ágústa

Býrð þú við heimilisofbeldi?
Þú getur leitað ráðgjafar hjá eftirtöldum samtökum: 

Kvennaathvarfið 561 1205
Bjarmahlíð Akureyri 551 2520
Bjarkarhlíð Reykjavík 553 3000
Stígamót 562 6868 / 800 6868

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -