Laugardagur 28. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Áhættan borgaði sig

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikstjórinn, leikarinn og tónlistarmaðurinn Magnús Jónsson var að senda frá sér sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd en hún var forsýnd á IFF indý-hátíðinni í London þann 21. febrúar. Myndin sem ber titilinn Taka 5 var þar tilnefnd sem besta erlenda myndin, Hilmir Jensson var tilnefndur sem besti leikari í erlendri mynd og Halldór Gylfason fyrir bestan leik karla í aukahlutverki.

„Það eru strax frábærar fréttir fyrir myndina og kemur henni vonandi eitthvað áfram,“ segir Magnús, í skýjunum með árangurinn.

Magnús Jónsson.

Hann viðurkennir að upphaflega hafi hann reyndar ætlað að skrifa hryllingsmynd sem átti að snúast um fólk sem er læst inni í herbergi. „Helst óvini sem eru neyddir til að vera saman í lokuðu rými þar sem flótti er algjörlega óhugsandi.

Vinna með skynjanir og drauga fortíðar hvers og eins þeirra við þessar aðstæður. Þar sem þau fá erfiðar þrautir að leysa til að komast út. En þá var hugmyndin orðin of „heví“, fannst mér, og í staðinn ákvað ég að skrifa sögu um ungan bónda, leikinn af Hilmi Jenssyni, sem hefur alist upp við amerískar bíómyndir og er orðinn félagsfælinn eftir að hafa einangrast á bæ sínum,“ lýsir hann og nokkuð greinilegt að sú nálgun á söguna hefur hrifið breska kvikmyndabransann.

„Ótrúlega lærdómsríkt“

Magnús er fyrir löngu orðinn landsþekktur leikari en hefur einnig starfað sem tónlistarmaður og listmálari undanfarin ár auk þess að reka leiktækniskóla með Þorsteini Bachmann. Hann hefur gert nokkrar stuttmyndir í gegnum tíðina. Mjög súrar stuttmyndir, eins og hann orðar það sjálfur, en Taka 5 er hans fyrsta mynd í fullri lengd. „Mig langaði að kynnast öllum þráðum við að klára svona heila bíómynd,“ útskýrir hann.

„Sjá hvað gerist í klippiherberginu, hvernig tónlistar-score og fleira er unnið. Læra handverkið. Þessa heillandi eftirvinnslu. Að gera svona mynd frá a til ö hefur verið ótrúlega lærdómsríkt.“

- Auglýsing -

Hann segir að þar að auki hafi hann farið nokkuð óhefðbundnar leiðir við gerð myndarinnar. „Bransinn hérna heima er mjög „pró“ sem er frábært, en mig langaði til að komast eins langt frá honum og ég gat með því að gera eiginlega allt sjálfur í þessarri mynd. Taka 5 var því búin til án bransans að mestu, ef svo má að orði komast. Það er að segja: Ég sótti ekki um framleiðslustyrk frá KMÍ því ég vildi fara óháða leið að öllu leyti með myndina. Leikarar og kvikmyndatökulið gerðu þessa mynd og eiga hana saman.“

Sérstök stemning á tökustað

Magnús segist vona að hann komi til með að vinna meira á þessum nótum í framtíðinni, því mjög sérstök stemning myndist með listamönnum þegar unnið er hratt og undir tímapressu og á þessum forsendum.

- Auglýsing -

„Werner Herzog segir að besta reynslan sé að gera mynd sjálfur og gefur ekki mikið fyrir skóla. Segir að í kvikmyndaskólum ættu að vera tvær vikur „topps“ til að læra á tækin en svo ætti maður að hoppa í djúpu laugina og læra af reynslunni við framkvæmdina. Ég reyndi að vera trúr þessu sjónarmiði.“

Eftir gott gengi á IFF er ekki úr vegi að spyrja hvert framhaldið sé, hvað leikstjórinn ætli sér með myndina sína. „Planið er bara að fara með hana á fleiri hátíðir þegar fram líða stundir. Það eru einhverjar 300 hátíðir sem eru í gangi í heiminum, þannig að það er alla vega úr nógu að velja,“ svarar hann og glottir.

Þess má geta að ítarlegra viðtal við Magnús er að finna á albumm.is

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -