Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Áhugaverð viðtöl úr Mannlífi árið 2019

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Nú þegar styttist í áramótin er gaman að líta til baka og rifja upp nokkur viðtöl úr Mannlífi sem vöktu athygli á árinu. Þetta er brot af því sem vakti eftirrekt á þessu ári.

 

Ronja Sif Magnúsdóttir, átta ára lífsglöð trans stelpa sem var fullviss um sitt rétta kyn um svipað leyti og hún fór að tala. Foreldrar Ronju sögðu sína sögu í Mannlífi í janúar. Ronja fékk nýtt nafn þegar hún var fjögurra ára og hefur blómstrað síðan sem er ekki síst að þakka víðsýni foreldranna og frábærum viðtökum samfélagsins í kringum þau.

„Þegar hún var rúmlega fjögurra ára fórum við á fund með forsvarsfólki leikskólans sem vildi ræða hegðun hennar við okkur. Starfsfólk deildarinnar vissi ekki hvernig það átti að svara henni því hún sagðist vilja vera stelpa,“ sagði Stefanía, móðir Ronju.

Ronja Sif Magnúsdóttir ásamt foreldrum sínum. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sjá hér: „Það kom aldrei annað til greina en að gefa henni þetta frelsi“

Haukur Örn Birgisson, hæstaréttarlögmaður og forseti Golfsambands Íslands, og Guðríður Magndís Guðmundsdóttir, sambýliskona hans, eignuðust andvana tvíbura í lok október eftir rúmlega tuttugu og tveggja vikna meðgöngu. Ekkert hafði bent til þess að eitthvað væri að og áfallið því enn meira en ella. Haukur lýsti upplifuninni af því að missa drengina í einlægu viðtali við Mannlíf í nóvember.

„Ég veit að það munu koma erfiðir dagar. Jólin eru fram undan, sem eru alltaf tilfinningaþrunginn tími, svo kemur settur fæðingardagur í lok janúar sem verður auðvitað líka erfitt og svo áfram og áfram. Ég held ekki að það sé hægt að gera neinar áætlanir um það hvernig maður kemst í gegnum svona sorgarferli.“

- Auglýsing -
Haukur Örn Birgisson. Mynd / Hallur Karlsson

Sjá hér: Erfiðir dagar munu koma

Kvikmyndagerðarkonan Hrafnhildur Gunnarsdóttir safnaði heimildum í 27 ár fyrir þættina og heimildarmyndina Svona fólk. Hrafnhildur bjó í Kaliforníu fram yfir aldamót en kom reglulega heim og var þá dugleg að mynda homma- og lesbíusamfélagið.

„Fyrsta viðtalið sem ég tók, 1992, var við góðan vin minn, Björn Braga Björnsson, Bjössa, og hann var að lýsa fyrir mér aðstæðum sínum. Þá var um líf og dauða að tefla því að hann var dáinn tveimur árum seinna. Þannig að okkur lá á að skrá og varðveita harða reynslu,“ útskýrði Hrafnhildur í forsíðuviðtali við Mannlíf.

- Auglýsing -
Hrafnhildur Gunnarsdóttir. Mynd / Unnur Magna

Sjá hérna: „Það er ekki gott að búa í angist“

Guðrún Ögmundsdóttir sagði sína sögu í viðtali við Mannlíf í september. Þar ræddi hún m.a. krabbameinið sem hún glímir við. Guðrún greindist með krabbamein um áramótin síðustu og var langt komin með lyfjameðferð við því í september.

„Meinið var búið að dreifa sér í beinin og á fleiri staði.“

„Já, ég er með krabbamein, á ýmsum stöðum,“ sagði hún. „Þetta uppgötvaðist svo seint. Ég hafði verið meira og minna hálflasin um tíma en samt auðvitað alltaf í vinnunni. Ég kláraði verkið sem ég var að vinna að um áramótin og eftir það versnaði mér hratt. Fyrst hélt ég að ég væri rifbeinsbrotin, en það var auðvitað ekki þannig. Meinið var búið að dreifa sér í beinin og á fleiri staði. Þetta er bara pakki sem maður fer í gegnum og ég er á æðruleysisskútunni hér. Mér finnst mér ekki nokkur vorkunn.“

Guðrún Ögmundsdóttir. Mynd / Hákon Davíð

Sjá hérna: Hélt að krabbinn væri rifbeinsbrot

Salka Sól Eyfeld prýddi forsíðu Mannlífs í ágúst. Hún og Arnar Freyr Frostason voru þá nýgift og eiga von á sínu fyrsta barni. Það hefur verið langt og strangt ferli að verða barnshafandi og Salka Sól hefur tjáð sig um sorgina sem fylgir því að geta ekki orðið ólétt í einlægum færslum á samfélagsmiðlum.

„Kvíðinn og andlegi sársaukinn varð nánast óbærilegur.“

„Það var orðið mjög erfitt að upplifa þessa sorg á fjögurra vikna fresti og ég fékk enn fleiri lyf, alls kyns meðöl sem áttu að vera kraftaverkaformúlur en ekkert gerðist. Þetta var farið að taka svo mikið á og ferlið þegar maður var að uppgötva ófrjósemina var hræðilega langt. Þá fer maður að lesa sér til og því fylgir rosalegur kvíði því þá fær maður sögurnar af öllum pörunum sem hættu saman eftir að hafa farið í fimmtán aðgerðir og tæknifrjóvgun og allt það. Maður varð bara alveg skíthræddur við þetta allt saman og kvíðinn og andlegi sársaukinn varð nánast óbærilegur, fyrir nú utan allt þetta hormónafokk sem ég var að sprauta í mig og taka inn,“ sagði Salka Sól í einlægu viðtalinu.

Mynd / Unnur Magna

Sjá hérna: „Hélt ég myndi aldrei segja: Ég er ólétt“

Heiða Þórðardóttir sagði frá sorginni eftir að bróðir hennar, Gísli Þór Þórarinsson, var skotinn af bróður þeirra, Gunnari Jóhanni Gunnarssyni, í viðtali við Mannlíf. Hún sagði sorgina hafa verið þá þyngstu sem hún hefur upplifað. „Þetta hefur náttúrlega verið alveg svakalega erfiður tími,“ sagði Heiða í ágúst. „Þótt ég syrgi auðvitað Gísla bróður minn óskaplega mikið þá er Gunnar líka bróðir minn og ég get ekki hatað hann fyrir þetta slys.“

Heiða Þórðardóttir. Mynd / Hallur Karlsson

Sjá hérna: „Ég get ekki hatað bróður minn“

Kristinn Þór Sigurjónsson var á forsíðu Mannlífs í sumar og ræddi. Eiginkona hans Ingveldur Geirsdóttir, lést þann 26. apríl síðastliðinn eftir hetjulega baráttu við krabbamein, einungis 41 árs gömul. Kristinn ræddi áfallið í viðtali við Mannlíf og sagði áralanga forræðisdeilu hafa hjálpað honum að komast í gegnum erfiðustu tímana og undirbúa hann fyrir enn eina áskorunina, að vera ekkill og fjögurra barna faðir.

„Ég hef val. Annaðhvort að vera ósáttur við næstu ár eða vera sáttur við næstu ár. Ef ég ætla að vera sáttur næstu ár verð ég að sætta mig við það sem hefur gerst.“

Kristinn Þór Sigurjónsson. Mynd/Hallur Karlsson

Sjá hérna: „Hún lifir í minningum okkar“

Eiríkur Brynjólfsson kom með mislingasmit til Íslands í upphafi árs. Hann sagði sögu sína í viðtali við Mannlíf og sagðist ekki ekki geta áfellst sjálfan sig enda hafi hann talið sig bólusettan.

„En svo veit ég satt best að segja ekki hvort ég var bólusettur þegar ég var tólf ára eða ekki.“

„Ég bjóst satt best að segja við því að vera bólusettur fyrir þessu eins og flestir Íslendingar. En þegar ég kannaði þetta kom í ljós að ég var ekki bólusettur. Ástæðan er sú að þegar ég var lítill var pabbi í skóla í Noregi og ég flakkaði mikið á milli landa, var ýmist hjá honum í Noregi eða mömmu á Íslandi. Við það var eins og þetta hefði misfarist. En svo veit ég satt best að segja ekki hvort ég var bólusettur þegar ég var tólf ára eða ekki. Eitthvað virðist þetta í hið minnsta hafa verið aðeins laust í reipnunum á þessum tíma því sumir jafnaldrar mínir hafa verið bólusettir við tólf ára aldurinn en ekki allir.“

Eiríkur Brynjólfsson. Mynd / Ragnhildur Aðalsteinsdóttir

Sjá hérna: „Ég vissi ekki betur en ég væri bólusettur“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -