Lögreglu barst tilkynning í gærkvöldi vegna slagsmála í hverfi 108. Einn aðili var fluttur á bráðamóttöku en ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort viðkomandi hafi slasast alvarlega. Einn var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Síðar um kvöldið barst lögreglu önnur tilkynning um líkamsárás í hverfi 112 og um svipað leyti barst tilkynning um tvö innbrot, bæði í Hafnarfirði og Breiðholti.
Þá hafði áhyggjufullur íbúi í Hlíðunum samband við lögreglu vegna hópslagsmála en þegar lögreglu bar að garði hlupu nokkrir einstaklingar í burtu. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu. Lögregla sinnti einnig reglubundnu umferðareftirliti og stöðvaði nokkra ökumenn sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum fíkniefna.