Angjelin Sterkaj, einn af albönsku dyravörðunum sem tók þátt í hópslagsmálunum í miðborginni um síðustu helgi, segir þáttöku sína og félaga sinna hafa verið sjálfsvörn. Að það hafi verið skipulagt að ráðast á þá með hnífum og kylfum í miðborginni.
Hander Maria de la Rosa sagðist í samtali við Mannlíf ótrúlega feginn að hafa sloppið lifandi frá hópslagsmálunum. Hann segir að árásarmennirnir hafi reynt að stinga hann í höfuðið en hann hafi náð að koma hönd sinni fyrir þannig að hnífurinn rauf þar slagæð.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi sami hópur karlmanna ræðst á Hander. Í nóvember síðastliðnum kjálkabrotnaði hann við árás og þá árás kærði hann til lögreglu. Að hans sögn vildi hópurinn að þessu sinni fá hann til að draga kæruna til baka og þagar hann hafnaði þvi hafi þeir ráðist á sig. Þegar mennirnir sáu til Hander í miðbænum, þar sem hann var að fagna afmæli vinar síns, réðust þeir á hann. „Ég var búinn að kæra þennan sama hóp eftir að meðlimir hans réðust að mér með kylfum og ég lá á spítala í nokkra daga. Þessi árás snerist um að ég dragi kæruna tilbaka, þannig byrjaði þetta. Ég sagði þeim að ég myndi ekki gera það og þá var bara ráðist á mig,“ sagði Hander.
Ef það eru vandamál milli mín og einhvers myndi ég bara finna þann aðila og berja hann.
Þessu hafnar Angjelin í samtali við Fréttablaðið og segir að Albanirnir hafi einfaldlega þurft að verja sig. „Þeir mættu með hnífa, þeir mættu með járnkylfur og réðust á okkur. Hvað áttum við að gera? Við vorum bara að verja okkur. Þeir voru óheppnir að lenda á spítala, það er ekki okkur að kenna,“ segir Angjelin sem sárnar að verið sé að mála Albani sem illþýði. Hann er einn þeirra fjögurra sem eru með réttarstöðu sakbornings eftir slagsmálin.
Angjelin ítrekar að Hander og félagar hafi átt upptökin að slagsmálunum og að þetta hafi verið þauskipuögð árás af þeirra hálfu. „Málið er að þarna eru dyraverðir sem eru í vinnunni og þess vegna koma þeir í bæinn til þeirra. Ef einhver kemur á þinn vinnustað og kýlir þig í andlitið, hvað myndir þú gera? Þetta var bara sýning og sérstaklega að gera þetta í miðbænum. Ef það eru vandamál milli mín og einhvers myndi ég bara finna þann aðila og berja hann. Af hverju í andskotanum ætti maður að gera það í miðjum miðbænum,“ segir Angjelin.