Appelsínugul viðvörun tók gildi um allt land í gærkvöld og nótt og gildir enn víða um landið. Hafsteinn Halldórsson, aðstoðarvarstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við Vísi að gærkvöldið hafi verið með þeim annasamari á hans starfsferli.
Þá má búast við því að veðurviðvaranir verði gular þegar nær dregur hádegi en er appelsínugul viðvörun í gildi á höfuðborgarsvæðinu til klukkan tíu. Ekkert ferðaveður er í dag og hafa þegar orðið töluvert miklar samgöngutruflanir vegna stormsins.
Foreldrar eru hvattir til þess að fylgja börnum sínum í skólann og beðið um að vara sig á hálku.
Slökkviliðið sinnti miklum fjölda útkalla í nótt, mörg þeirra vegna leka. Þá kviknaði í tveimur bílum í Kórahverfi skömmu fyrir miðnætti. Annar bíllinn var orðinn alelda þegar lögregla kom á vettvang og litlu munaði að eldurinn bærist í fleiri bíla. Engin hús voru í hættu vegna eldsins en bílarnir tveir eru ónýtir.