Útlendingar sem búsettir eru á Íslandi segja Íslendinga mikla útlendingahatara. Margir þeirra lýsa reynslu sinni af búsetu í mörgum löndum og segja þeir Ísland það land þar sem þeir mæta mesta hatrinu.
Nicola van Kuilenburg, sem búsett er hér á landi, stofnar til umræðu í hópi útlendinga á Facebook sem búsettir eru á Íslandi. Þar lýsir hún óskemmtilegi atviki sem hún varð fyrir á Áltanesi í gærkvöldi þar sem hana langaði til að sjá norðurljósin með kærustu sinni og börnum hennar. „Ég verð að tappa af smáveigis. Okkur langaði til að sjá norðurljósin og þar sem það var skýjað yfir Reykjavík ókum við út á Álftanes og lögðum þar á bílastæði. Eftir um það bil 20 mínútur kemur að bílnum kona sem bankar á rúðuna og tilkynnir okkur að við megum ekki vera þarna. Ég baðst afsökunar og sagðist ekki hafa séð skiltin sem bönnuðu okkur að leggja og hún viðurkenndi að það væri engin slík. Engu að síður hélt hún áfram að reka okkur í burtu,“ segir Nicola og heldur lýsingu sinni áfram:
„Ég spurði því hvort við værum að brjóta einhver lög eða reglur með því að vera þarna. Konan sagði nei en að við mættum samt ekki vera þarna. Þá spurði ég hvort við værum þarna á einkalóð en hún sagði um bæjarlóð að ræða. Fyrir vikið spurði ég hver það væri sem hefði leyfi til að reka okkur í burtu. Íbúarnir sem búa hér, var svarið. Af hverju spurði ég þá. Af því þið getið verið glæpamenn, sagði þá konan og benti mér á að íbúarnir skiptist á nágrannavörslu þar sem fólki er sagt að yfirgefa bílastæðin því þetta væri svo fínt hverfi.“
Nicola undrast valdið sem íbúar Álftanes virðast hafa tekið sér. Hún segir að konan, sem hún í umræðunni kallar Karen, hafi tekið mynd af bílanúmerinu sínu. „Ég spurði konuna hvort nágrannagæslan væri opinber samtök sem hefðu ritaðar reglur um hverjir mættu vera á bæjarlandi og á hvaða tímum. Því svaraði hún neitandi og þá lýsti ég yfir aðdáun minni að hópur íbúa hafi tekið sér vald yfir því hverjir fái að gera hvað á Áltanesi. Ég fann að konan varð sífellt pirraðri á mér og á endanum skellti hún fram fullyrðingunni um að hún vissi ekki hversu lengi ég hafi verið á Íslandi. Á þessum tímapunkti fékk kærastan mín nóg og fór að tala íslensku við konuna sem breytti samstundis framkomu sinni, baðst afsökunar, þrætti fyrir að hafa beðið okkur um að fara og sagði þetta allt byggt á misskilningi.“
Nicola segist í þræði sínum finna fyrir vaxandi kynþátta- og útlendingahatri hér á landi. „Ég er sannfærð um að ég fékk þessar móttökur því ég ræddi við konuna á ensku. Væri ég með dökkan hörundslit hefði hún sjálfsagt hringt á lögregluna. Hér á landi eru fordómar og mér finnst þeir verða meira áberandi því lengur sem ég bý hér. Án þess að vera of neikvæð þá fæ ég reglulega á tilfinningu að Íslands sé klúbbur útvalinna þar sem aðeins fáir geta notið að fullu,“ segir Nicola.
Andrew Meeking tekur undir þetta. „Ég hef búið í sex löndum og Ísland er það land sem kynþátta- og útlendingahatrið er mest,“ segir Andrew. Cris Rodrigues hefur svipaða sögu að segja. „Ég hef búið í fjölda landa, í þremur mismunandi heimsálfum, og ekki einu sinn í Rússlandi varð ég var við eins mikla fordóma og ég hef séð hér síðusta áratug. Munurinn er að Íslendingar sýna fordómana sjaldan með líkamlegu ofbeldi og því er það mun sjaldnar tilkynnt eða tekið eins alvarlega,“ segir Cris.
Loki nokkur er einn nokkurra sem stinga upp á því í umræðunni að stríða íbúum Álftaness á næstunni. „Núna vil ég endilega fara og stríða Kareni á Álftanesi. Hvar lagðiru?,“ segir Loki.