Fimmtudagur 2. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

Algjört hrun í sölu veiðileyfa

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Veiðiréttarhafar eru á meðal þeirra aðila í ferðaþjónustu sem horfa upp á algjört hrun vegna COVID-19. Tjónið hleypur hjá einum þeirra á tugum milljóna.

„Þetta lítur helvíti illa út,“ segir veiðileyfasalinn og leiðsögumaðurinn þaulreyndi Árni Baldursson. Hann á fyrirtækið Lax-á, sem hefur um árabil leigt veiðisvæði og selt veiðileyfi auk þess að bjóða upp á veiðiferðir til landa eins og Rússlands og Noregs. Árni sér fram á tug milljóna tjón vegna kórónuveirunnar.

Venjan er sú að erlendur veiðimaður sem kaupir veiðileyfi greiðir helminginn við bókun en seinni helminginn þegar nær dregur. Árni segir að allt fjárstreymi til fyrirtækisins sé í frosti. Enginn greiði seinni helming greiðslunnar og allir þeir sem ekki höfðu greitt helminginn hafi afbókað. Hann segist hafa gert eina tilraun til að rukka fastakúnna síðustu daganna. „Are you out of your mind?“ var svarið sem hann fékk til baka, sem þýða mætti „Ertu viti þínu fjær?“ „Þar með lauk innheimtu minni í mars,“ segir Árni og hlær, þrátt fyrir allt.

„Þetta má ekki verða til þess að markaðsstarf til margra áratuga sé fyrir bý.“

Margir veiðiréttarhafar greiða helming rentunnar til landeigenda í apríl, á grundvelli samnings. Árni er einn þeirra. Hann á von á því að vorgreiðslan geti reynst mörgum fyrirtækjum á þessum markaði erfið. „Það verður mikill hristingur ef það kemur ekkert í kassann,“ útskýrir hann.

Eldri menn kaupa dýrustu ferðirnar

Árni segir að flestir þeir viðskiptavinir sem mestu eyði í veiðiferðir hjá Lax-á séu eldri menn sem eru vel stæðir. Þeir eru jafnframt í áhættuhópi vegna kórónuveirunnar, fyrir aldurs sakir. Ekki bæti úr skák að bresk stjórnvöld hafi sagt eldra fólki að ferðast ekkert næstu sex mánuðina en Bretar eru nokkuð áberandi við íslenskar veiðiár á sumrin. Einnig sé búið að ákveða að loka Rússlandi fyrir veiði allt næsta sumar og að í Skotlandi, þar sem Lax-á er með ársvæði á leigu, sé bannað að veiða.

- Auglýsing -

„Það er búið að hætta við allt í sumar,“ segir hann um þessi svæði en utanlandsferðir með veiðimenn hafa verið ein stærsta tekjulind fyrirtækisins. „Þetta lítur þess vegna hörmulega út,“ segir Árni. Hann er vonlítill um að júlí, ágúst og september verði í lagi. „Það þýðir ekki alveg að útiloka það, en það yrði svakaleg heppni. Ég held að þeir komi bara ekki. Heimurinn verður ekki kominn á lappirnar svona fljótt.“

Færa menn á milli ára

Ítarlegri umfjöllun í helgarblaðinu Mannlíf.

Árni segir að helsta úrræði veiðileyfasala sé að færa menn á milli ára, sem greitt hafi helming veiðileyfanna. Flestir kúnnar sumarsins verði sennilega færðir til næsta sumars. Það muni hins vegar skerða söluna næsta sumar, svo tjónið sé mikið. „Við getum ekki borgað þeim til baka því við erum búnir að borga landeigendum aðra greiðsluna. Peningurinn er farinn frá okkur.“ Hann segir að tjónið hjá fyrirtækinu hlaupi á tugum milljóna króna og hann eigi von á því að fyrirtækið nýti sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur. Fjórir starfsmenn vinna á skrifstofu fyrirtækisins. Þar hafi fólk ekkert að gera nema taka á móti afbókunum. „Það eru allir í að slökkva elda. Þetta er algjör hryllingur.“

- Auglýsing -

Árni á von á því að setjast niður með landeigendum og reyna að semja um málið. Það séu allir á sama báti. Hann segir að finna verði út úr því hvort ákvæði samninga um óviðráðanlegar ytri ástæður gildi nú. „Menn verða að standa í lappirnar og greiða úr þessu. Þetta má ekki verða til þess að markaðsstarf til margra áratuga sé fyrir bý.“

Nánar er fjallað um málið í helgarblaðinu Mannlíf.

Texti / Baldur Guðmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -