Föstudagur 10. janúar, 2025
2.8 C
Reykjavik

Allar hundrað ferðirnar upp Esjuna voru skemmtilegar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Utanvegshlauparinn Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir setti sér metnaðarfullt markmið í mars því hún ætlaði að hlaupa  Esjuna 100 sinnum á þessu ári. Um seinustu helgi náði hún markmiðinu og fór í hundraðasta sinn á þessu ári upp að Steini á Esjunni.

Hugmyndin um að fara 100 ferðir upp Esjuna á þessu ári kom til Hafdísar Guðrúnar Hilmarsdóttur þegar hún fór á Esjuna í annað sinn á þessu ári, þann 6. mars, í glampandi sól og snjó. „Það var svo rosaleg gott veður, sól og snjór. Þá datt mér þetta snjallræði í hug,“ segir Hafdís glöð í bragði. Hún deildi hugmyndinni með vinum á vandamönnum á Facebook. „Þegar ég setti þetta á Facebook þá var ekki aftur snúið.“

Spurð út í hvernig fólki í kringum hana hafi litist á markmiðið í upphafi segir Hafdís flesta hafa verið jákvæða fyrir því. „Sumum fannst þetta kannski frekar einhæft og voru með áhyggjur af því að ég yrði leið á þessu. Aðrir voru hræddir um að ég myndi ekki ná þessu, að ég yrði bara hlaupandi upp á Esjuna á jólunum,“ segir Hafdís kímin. „En annars voru flestir bara spenntir. Nokkrir vinnufélagar fylgdust t.d. með og komu svo með í fimmtugustu ferðina í lok maí.“

Hafdís segir ævintýrið hafa byrjað þegar hún skráði sig í 100 kílómetra hlaup í Frakklandi sem fór fram 25. ágúst. Hún skráði sig í byrjun febrúar og hugsaði með sér að Esjuferðir væri góður undirbúningur.

Hafdís er menntuð kennari en starfar sem verkefnastjóri hjá Menntamálastofnun ásamt því að vera í doktorsnámi. Spurð út í hvenær hún hafi fundið tíma til að fara allar þessar Esjuferðir svarar Hafdís: „Ég fór ýmist fyrir eða eftir vinnu eða þá um helgar. Ég held að ég hafi farið á Esjuna á öllum vikudögunum.“

Aðspurð hvort hún hafi einhvern tímann séð eftir að hafa sett sér svona metnaðarfullt markmið svarar Hafdís neitandi. „Nei, ég sá aldrei eftir þessu. Þetta var alltaf skemmtilegt. Þetta var oft erfitt veðursins vegna en alltaf skemmtilegt,“ útskýrir Hafdís sem ætlaði svo að fara beint á Esjuna eftir að blaðamaður náði tali af henni. Hún er því hvergi nærri hætt að hlaupa Esjuna þrátt fyrir að markmiðinu hafi verið náð.

- Auglýsing -

Hafdís fann mikinn mun á líkamlegu formi þegar líða tók á árið. „Já, ég var farin að fara hraðar og hraðar upp og niður. Ég fór hraðast upp að Steini á 34 mínútum, hraðasta ferðin upp og niður var 53 mínútur. Hraðasta ferðin niður var svo 14,59 mínútur, það var hundraðasta ferðin og það er hraðasta skráða ferð sem kona hefur farið samkvæmt Strava.“

Hafdís fór ýmist ein eða með félagsskap góðra vina í Esjuferðirnar en hún náði að fá um 50 manns með sér í hundruðustu ferðina. Hún kveðst vera með mikið keppnisskap og það hafi örugglega verið til þess að hún fór ansi hratt niður fjallið í hundruðustu ferðinni og sló met í leiðinni. „Það voru þrír sterkir karlmenn sem hlupu með mér niður í hundruðustu ferðinni. Það er ekki oft sem ég hef einhvern með mér á leiðinni niður og það hjálpaði örugglega við að ná góðum tíma,“ segir Hafdís.

Hafdís hefur mjög gaman af því að hlaupa fjöll og hefur stundað það af kappi síðustu fimm ár. Á döfinni er svo að finna stórt hlaup erlendis til að taka þátt í. „Undanfarið hefur áhugi minn aukist mikið á að taka þátt í 100 mílna hlaupi einhvers staðar úti, þannig að ég er að skoða það núna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -